Geðhjálp gerir alvarlegar athugasemdir við umfjöllun Fréttablaðsins og annarra miðla í tengslum við réttarhöld yfir grunuðum manni í tengslum við hörmulegan bruna sem varð á Bræðraborgarstíg í ágúst sl. Umfjöllunin er á köflum fordómafull í garð þeirra sem glíma við geðrænan vanda og tekur ekki mið af viðmiðum til að draga úr fordómafullri umræðu um geðheilbrigðismál í fjölmiðlum sem starfshópur á vegum stjórnvalda, Blaðamannafélags Íslands, HÍ, Geðhjálpar o.fl. skilaði af sér haustið 2019. https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/vidmid-fyrir-fjolmidla-skyrsla.pdf
Við viljum bendum hér á tvö dæmi en þau eru fleiri.
Ingunn Lára Kristjánsdóttir í Fréttablaðinu þann 28. apríl sl.:
„Hann hafi verið í geðrofi þennan dag, líklega triggerað af fregnum um að hann gæti mögulega verið dauðvona, sé líklegast með maníska geðhvarfasýkingu en hvorki hættulegur sjálfum sér né öðrum í dag.“ https://www.frettabladid.is/frettir/gedlaeknum-ber-ekki-saman-gaeti-gert-thetta-aftur/
Geðhvörf er greining en manísk geðhvarfasýking er það ekki. Orðaval skiptir máli og hér er ýtt undir gamaldags viðhorf og þannig fordóma og mismunun.
Ingunn Lára Kristjánsdóttir í Fréttablaðinu þann 27. apríl sl.:
„[K]arlmaður á sjötugsaldri sem er ákærður fyrir að hafa orðið þremur að bana með íkveikju að Bræðraborgarstíg í fyrrasumar, afklæddi sig og dreifði saur um fangaklefann kvöldið sem hann var handtekinn við rússneska sendiráðið.“ https://www.frettabladid.is/frettir/makadi-saur-a-sjalfan-sig-og-fangaklefann/
Þessi frétt er beinlínis sorgleg og virðist hafa eitt að markmiði að ná fram sem flestum „smellum“. Þegar mennskan hverfur er lítið eftir af tillitssemi og umburðarlyndi. Það er eins og sé verið að fjalla um hlut sem skiptir engu máli í mannlegu samfélagi.
Geðhjálp vill ítreka að fólk sem býr við geðrænan vanda er ekki líklegra en hver annar til að beita ofbeldi. Þetta sýna ítrekaðar rannsóknir. Hópurinn er hins vegar 10 sinnum líklegri til að vera beittur ofbeldi en aðrir. Fréttaflutningur, kvikmyndir, sjónvarpsþættir, bækur o.fl. hafa hins vegar ýtt undir þá hugmynd að geðrænn vandi sé hættulegur.
Geðhjálp beinir því til fjölmiðla og alls almennings að hafa það í huga að við búum öll við geð, rétt eins og við erum með hjarta. Glæpir og voðaverk eru ekki frekar unnin af einstaklingum sem búa við geðrænan vanda en öðrum.
Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar