15. apríl 2022

Aðalfundur 2022

Aðalfundur Landssamtakanna Geðhjálpar verður haldinn í sal Geðhjálpar, Borgartúni 30, laugardaginn 23. apríl kl. 14:00.

Framboð til formanns Geðhjálpar

Héðinn Unnsteinsson

Héðinn Unnsteinsson er brennandi áhugamaður fyrir breyttri og mannúðlegri nálgun í geðheilbrigðismálum. Að samfélag okkar vinni markvissar með styrkleika fólks og snúi markvisst frá ofuráherslu á hvers konar meint fráhvörf manneskjunnar. Að við búum betra og mannúðlegra geðheilbrigðiskerfi þar sem áherslur notenda leiða framþróun.

Héðinn er menntaður stefnumótunarsérfræðingur með meistaragráðu í alþjóðlegri stefnumótun og stefnugreiningu frá Háskólanum í Bath á Englandi. Héðinn starfar í forsætisráðuneytinu þar sem hann sinnir m.a. samhæfingu verkefna innan Stjórnarráðsins. Héðinn hefur sinnt stundakennslu við stjórnmálafræði- og félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands og í þjónandi forystu innan viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst.

Héðinn hefur undanfarin 30 ár starfað að geðheilbrigðismálum bæði byggt á eigin notendareynslu og sem sérfræðingur í stefnumótun. Héðinn starfaði áður að geðheilbrigðismálum hjá heilbrigðisráðuneytinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO). Héðinn átti frumkvæðið að Geðræktarverkefninu og Geðorðunum 10. Héðinn skrifaði bókina „Vertu úlfur“ sem m.a. lýsir reynslu hans af geðheilbrigðiskerfinu. Héðinn sat í stjórn Geðhjálpar 2013-2015 og svo aftur frá 2019 sem varaformaður og sem formaður frá árinu 2020.

Framboð til stjórnar Geðhjálpar

Bergþór G. Böðvarsson

Ég heiti Bergþór G. Böðvarsson og hef verið í geðbransanum frá því ég greindist sjálfur með geðhvörf fyrir mörgum árum. Frá því ég greindist hefur mér hlotnast það að vera aðstandandi sem maki og síðar einnig sem faðir. Ég hef verið starfandi með notendafélögum og er nú starfandi sem verkstjóri NSN í Hlutverkasetri og sem jafningjafræðari í Bataskólanum. Ég starfa líka sem notendafulltrúi á geðsviði Landspítala og í Geðheilsuteymi Heilsugæslunnar.

Ég sat í stjórn Geðhjálpar fyrir nokkrum árum og eins og þá er helsta baráttumál mitt að raddir notenda fái að heyrast og að hlustað sé og tekið mark á þeim. Einnig brenn ég fyrir því að geðheilbrigðiskerfið fari að vinna eftir lögum um réttindi sjúklinga. En því miður eins og margir vita er ekki svo í dag og það er eitthvað sem ég vil koma því að breyta og bæta. Ég býð mig fram til stjórnar því ég vil vinna með fólki sem vill hafa áhrif og breyta og bæta kerfið. Ég tel mig hafa styrk og mikla þekkingu til að hafa áhrif og breyta og bæta.

Elín Atim

Ég býð mig fram í stjórn Geðhjálpar vegna reynslu minnar af geðheilbrigðisþjónustunni. Ég vil leggja mitt af mörkum og gera þjónustuna mannúðlegri og uppbyggjandi fyrir fólk sem þarf á aðstoð að halda. Það þarf að taka tillit til einstaklingsins og vinna út frá hans þörfum til þess að koma í veg fyrir frekari skaða. Ég tel mig hafa þekkingu og hæfileika til þess að miðla þessum skilaboðum.

Elín Ebba Ásmundsdóttir

Í nær þrjá áratugi vann ég sem forstöðuiðjuþjálfi á geðheilbrigðissviði LSH. Ég hef skrifað greinar, haldið fyrir lestra, vinnustofur, námskeið sem tengjast geðrækt, geðheilbrigði og valdeflingu um allt land. Ég hef barist gegn fordómum og fyrir fjölbreyttari meðferðarúrræðum.

Ég hef fóstrað, með beinum stuðningi og leiðsögn, ýmsar næyjungar sem hlotið hafa athygli, lof og viðurkenningar. Má þat nefna forvarnarverkefnið Geðrækt en tvær hugmyndanna þar komu út minni smiðju. “Geðorðin tíu” og “Geðræktarkassinn”. Hugarafl, baráttufélag fyrir breyttum áherslum og fjölbreyttara vali meðferðar. “Notandi spyr notanda - NsN” norsk rannsóknar-aðferðarfræði, þar sem notendur framkvæma gæðaeftirlit á þjónustu og gera tillögur um úrbætur.

Ég var lektor og síðan dósent við HA frá 1999-2017. Hlutverkasetur sem ég starfa nú hjá er byggð á notenda- og batarannsóknum sem var rannsóknarnálgun mín við HA. Ég tel mig eiga töluvert inni í að halda áfram baráttunni og býð mig fram til stjórnar Geðhjálpar með von um að nýtast í hennar vegferð til að bæta líf og þjónustu við fólk.

Guðrún Þórsdóttir

Ég hef fylgst með mikilvægum störfum Geðhjálpar í mörg ár og langar nú að leggja mitt af mörkum. Ég hef komið víða við í nefndarstörfum sem og störfum almennt. Síðastliðinn ár hef ég unnið með ungmennum sem eiga í margvíslegum vanda og hjartað mitt slær sérstaklega hjá þeim. 

Jón Ari Arason

Ég heiti Jón Ari Arason og er heimavinnandi húsfaðir í Grafarvoginum og vil gjarnan gefa kost á mér í stjórn Geðhjálpar. Ég hef um langt árabil, með hléum þó, verið áhugamaður um geðrækt, geðvernd, og geðheilbrigði almennt, og hef starfað á því sviði bæði sem sjálfboðaliði innan ýmissa félagasamtaka og starfsmaður hjá Hlutverkasetri og á geðsviði Landspítalans. Jafnframt hef ég persónulega reynslu af því að veikjast á geði og að ná bata.

Ég var einn af upprunalegu stofnendum Hugarafls þar til leiðir skildu 2006. Á þessum tíma uppgötvaði ég þörf á að styðja aðra í svipaðri stöðu í sínu bataferli ásamt því að hvetja fagfólk og notendur til að bera saman bækur sínar í meiri mæli en tíðkaðist áður. Ég er á því, enn í dag, að með samstarfi þessara hópa í góðri trú, þar sem fagfólk mæti lífsreynslu notenda með samkennd og notendur mæti vísindastarfi og þekkingu fagfólks af virðingu, geti valdið straumhvörfum í þessum málaflokki. Jafnframt vil ég veg Geðhjálpar sem mestan og vil gjarnan aðstoða við það verkefni.

Kristinn Tryggvi Gunnarsson

Kristinn Tryggvi Gunnarsson er viðskiptastjóri hjá FranklinCovey og starfar við ráðgjöf og leiðtogaþjálfun. Kristinn lauk BS-prófi í stjórnun og stefnumótun frá University of North Carolina og MBA-prófi frá University of Georgia.

Kristinn starfaði í 11 ár í bankakerfinu, lengst af sem útibússtjóri hjá Íslandsbanka og framkvæmdarstjóri hjá SPRON. Hann hefur víðtæka stjórnunareynslu og síðustu 18 árin hefur hann starfað við stefnumótunar- og rekstrarráðgjöf. Hann hefur starfað með fjölmörgum af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins á sviði stefnumótunar, markaðs- og þjónustumála og leitt á fimmta tug stefnumótunarverkefna. Hann kennir við Opna háskólann í HR og starfaði sem stundakennari við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík um níu ára skeið, þar sem hann kenndi þjónustustjórnun, leiðtogafræði og breytingarstjórnun. Kristinn Tryggvi hefur á ferli sínum starfað í fjölda stjórna fyrirtækja, félaga og stofnana.

Sigmar Þór Ármannsson

Ég starfaði forstöðumaður yfir færanlegu búsetuteymi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, en frá og með áramótum færði ég mig yfir í mannauðsteymi velferðarsviðs og kem þar m.a. að stuðningi við stjórnendur þvert á sviðið sem starfa í málefnum barna og fjölskyldna, fatlaðs fólks og virknimálum. Ég hef því víðtæka reynslu af þverfaglegum samskiptum við stofnanir, s.s. Landspítalann og geðheilsuteymin, en þar sé ég mikið sóknarfæri til að efla enn frekar samráð milli ríkis og sveitarfélaga í þágu fólks sem þarf á þverfaglegum stuðningi að halda.

Stefán Gauti Úlfur Stefáníuson

Sveinn Rúnar Hauksson

Sveinn Rúnar er fæddur 1947 og hefur verið heimilislæknir og aktívisti eins lengi og elstu menn muna. Hann er tvígiftur, á fimm uppkomin börn og sjö barnabörn. Sveinn glímdi við geðlæknakerfið og var á árbili iðulega nauðungarvistaður með látum, en hefur gengið laus frá 1985.

Það var um það leyti sem honum auðnaðist að leggja áfengi og vímuefni til hliðar, með guðs og góðra manna hjálp. Sveinn Rúnar hefur allan þennan tíma verið mjög virkur í sjálfshjálparhópum, auk þess sem hann hefur verið í stjórn Geðhjálpar í samtals nærri 13 ár.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram