24. mars 2023

Aðalfundur 2023: Kynning á frambjóðendum og fundargögn

Aðalfundur Landssamtakanna Geðhjálpar verður haldinn í Bragganum í Nauthólsvík, fimmtudaginn 30. mars kl. 17.

Framboð til formanns

Guðrún Þórsdóttir

Nú hef ég setið í stjórn Geðhjálpar í eitt ár og hefur það verið áhugavert. Það er í mörg horn að líta og árið hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt. Geðhjálp býr yfir sterku starfsmannateymi og félagið stendur vel. Ég býð mig fram sem formann Geðhjálpar því ég tel að reynsla mín af störfum mínum geti nýst félaginu sem og reynsla mín sem notandi þegar ég var ung kona.

Nýr formaður tekur við góðu búi og eitt af verkefnunum er að styðja við það góða starf sem er í gangi og byggja það áfram upp. Ég tel mig hafa það sem nýr formaður þarf til að taka Geðhjálp áfram inn í framtíðina. Ég geri mér grein fyrir að halda þarf vel á spöðunum og í alla strengi því um ræðir málaflokk sem stöðugt þarf að minna á.

Sigríður Gísladóttir

Sigríður Gísladóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Okkar heims sem er stuðningsúrræði fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Hún sat í stjórn Geðhjálpar frá árinu 2019 og tók við stöðu varaformanns í byrjun árs 2020 til lok ársins en þá tók hún við stöðu verkefnastjóra í innleiðingu á stuðningi fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Okkar heimur er verkefni sem hún fór af stað með innan Geðhjálpar en í dag er það orðið sjálfstætt úrræði.

Sigríður ólst sjálf upp hjá foreldri með geðrænan vanda og upplifði úrræðaleysið hér á landi og hefur nýtt sína reynslu í mótun starfsemi Okkar heims. Hún brennur fyrir réttindum og bættum stuðningi við aðstandendur og notendur en hún hefur upplifað úrræðaleysið innan geðheilbrigðiskerfisins bæði sem aðstandandi og notandi.

Sigríður hefur einnig starfað hjá Konukoti, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og situr í stjórn Sáttar – samtök um átröskun og tengdar raskanir. Hún hefur haldið ýmis erindi og vakið athygli á stöðu barna sem aðstandenda foreldra sem glíma við geðrænan vanda og er meðal annars fulltrúi í vinnuhóp hjá Landspítalanum þar sem unnið er að bættri þjónustu við aðstandendur.

Framboð til stjórnar

Ari Hróðmarsson

Ari Hróðmarsson er menntaður tónlistarmaður sem hefur lokið B.Mus gráðu frá CvA í Amsterdam, M.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands auk þess að hafa verið í einkanámi á Spáni og í Þýskalandi. Að námi loknu starfaði Ari sem sjálfstæður básúnuleikari og hljómsveitastjórnandi auk þess að kenna fræðigreinar í Listaháskóla Íslands og Tónskóla Sigursveins.

Síðan Ari var greindur með geðhvörf haustið 2016 hefur hann lagt sig fram við að vekja athygli samfélagsins á stöðu þeirra sem takast á við geðrænar áskoranir, með því að deila sögu sinni á æðrulausan hátt og jafnframt leitast við að styðja einstaklinga í svipaðri stöðu. Ari telur sig eiga erindi í stjórn Geðhjálpar vegna reynslu sinnar og vonast til að styrkleikar hans og drifkraftur komi samtökunum að gagni.

Elín Atim

Ég býð mig aftur fram í stjórn Geðhjálpar þar sem ég komst inn sem varamaður seinasta vor. Aftur vil ég leggja mitt af mörkum og gera þjónustuna mannúðlegri og uppbyggjandi fyrir fólk sem þarf á aðstoðinni að halda. Það þarf að taka tillit til einstaklingsins og vinna út frá hans þörfum til þess að koma í veg fyrir frekari skaða. Ég tel mig hafa þekkingu og hæfileika til þess að miðla þessum skilaboðum.

Guðrún Þórsdóttir

Síðast liðið ár hef ég verið varamaður í stjórn Geðhjálpar og líkar það mjög vel. Árið hefur verið ansi viðburðar og lærdómsríkt. Í stjórn Geðhjálpar er góður hópur fólks með víðtæka reynslu, öflugt starfsmanna teymi og félagið gengur vel. Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu hjá Geðhjálp því mig langar að halda áfram að leggja mitt af mörkum.

Ég hef komið víða við í nefndarstörfum og hef mikla reynslu af því að vinna með ungmennum sem mörg hver hafa geðrænar áskoranir. Sem ung kona átti ég sjálf við geðrænar áskoranir og alkóhólisma og þekki það að vera notandi heilbrigðisþjónustunnar sem og ég þekki einnig það að vera hluti af kerfinu.

Jón Ari Arason

Ég heiti Jón Ari Arason og vil gjarnan gefa kost á mér í stjórn Geðhjálpar. Ég hef um langt árabil, með hléum þó, verið áhugamaður um geðrækt, geðvernd, og geðheilbrigði almennt, og hef starfað á því sviði bæði sem sjálfboðaliði innan ýmissa félagasamtaka og starfsmaður hjá Hlutverkasetri og á geðsviði Landspítalans. Jafnframt hef ég persónulega reynslu af því að veikjast á geði og að ná bata.

Ég var einn af upprunalegu stofnendum Hugarafls þar til leiðir skildu 2006. Á þessum tíma uppgötvaði ég þörf á að styðja aðra í svipaðri stöðu í sínu bataferli ásamt því að hvetja fagfólk og notendur til að bera saman bækur sínar í meiri mæli en tíðkaðist áður. Ég er á því, enn í dag, að með samstarfi þessara hópa í góðri trú, þar sem fagfólk mæti lífsreynslu notenda með samkennd og notendur mæti vísindastarfi og þekkingu fagfólks af virðingu, geti valdið straumhvörfum í þessum málaflokki. Jafnframt vil ég veg Geðhjálpar sem mestan og vil gjarnan aðstoða við það verkefni.

Sigríður Ólafsdóttir

Ég hef setið í stjórn Geðhjálpar síðastliðin tvö ár og hef áhuga á að bjóða mig aftur fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Ég er Vesturbæingur og hef starfað sem meðferðarráðgjafi á Stuðlum. Ég hef brennandi áhuga á málefnum barna og ungs fólks sem samfélagið hefur ýtt til hliðar.

Ég hef starfað í félagsmiðstöðvum og í skapandi geiranum með listamönnum og að ýmsum framleiðslu verkefnum. Ég er orkumikil og elska að halda mörgum boltum á lofti í einu. Mig langar að halda áfram að taka þátt í starfinu hjá Geðhjálp og vonandi vera með í að breyta samfélaginu til hins betra.

Sigrún Sigurðardóttir

Ég heiti Sigrún Sigurðardóttir, Ísfirðingur í húð og hár. Ég er sjálfstæð og þakklát þriggja barna móðir. Ég er menntuð lögreglumaður og hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu frá HA í heilbrigðisvísindum og doktorsgráðu í hjúkrunarfræði frá HÍ, með áherslu á áföll og ofbeldi, afleiðingar og úrræði.  Ég hef einnig lokið námskeiðum sem Kundalini jógakennari, í dáleiðslu og er nú að vinna í að læra að vera hugleiðslukennari hjá dr. Deepak Chopra.

Ég starfa sem dósent við Háskólann á Akureyri þar sem ég kenni um áföll, ofbeldi og áfallamiðaðað nálgun. Ég hef haldið námskeið víða um land um það efni. Ég sit í stjórn Bergsins headspace og kom að stofnun þess og Bjarmahlíðar, úrræða fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi. Ég sit í stýrihóp fyrir Okkar heim og sit í fagráði um sjálfsvígsforvarnir á vegum Embættis landlæknis. 

Ég hef setið í stjórn Geðhjálpar síðustu tvö ár og hef notið þess að taka þátt í því faglega starfi sem þar er. Ég býð mig því aftur fram til stjórnar. Mitt áhugasvið er sérstaklega tengt ungu fólki og geðheilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, ásamt áfallamiðaðri nálgun sem ég hef mikinn áhuga á að innleiða á sem flestum sviðum. Ég legg áherslu á að spyrja „hvað kom fyrir þig?“ í stað „hvað er að þér?“ 

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram