20. mars 2024

Aðalfundur 2024: Kynning á frambjóðendum og fundargögn

Aðalfundur Landssamtakanna Geðhjálpar verður haldinn í N1 höllinni á Hlíðarenda í sal 2 á annarri hæð, fimmtudaginn 21. mars kl. 16.

Framboð til formanns

Guðrún Þórsdóttir

Nú hef ég setið í stjórn Geðhjálpar í tvö ár og hefur það verið óskaplega gefandi. Það er í mörg horn að líta og árið hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt. Geðhjálp býr yfir sterku starfsmannateymi og félagið stendur vel. Ég býð mig fram sem formann Geðhjálpar því ég tel að reynsla mín af störfum mínum geti nýst félaginu sem og reynsla mín sem notandi.

Nýr formaður tekur við góðu búi og eitt af verkefnunum er að styðja við það góða starf sem er í gangi og byggja það áfram upp. Ég tel mig hafa það sem nýr formaður þarf til að taka Geðhjálp áfram inn í framtíðina. Ég geri mér grein fyrir að halda þarf vel á spöðunum og í alla strengi því um ræðir málaflokk sem stöðugt þarf að minna á. Með hjartans kveðju, Guðrún Þórs.

Svava Arnardóttir

Svava Arnardóttir er iðjuþjálfi og manneskja með persónulega reynslu af andlegum áskorunum. Hún hefur talað fyrir breyttri nálgun og áherslum í geðheilbrigðiskerfinu sem og samfélaginu í heild. Ýmislegt hefur áunnist í framþróun síðastliðinna ára þó enn sé langt í land með að hlustað sé á sérfræðiþekkingu einstaklingsins á eigin lífi, rými sé gefið til að ganga í gegnum krísur og horft sé á raunverulegar rætur vandans í stað þess að greina, stimpla og sjúkdómsvæða tilfinningar.

Svava vann sem iðjuþjálfi hjá Hugarafli í rúm sjö ár þar sem hún sinnti fólki í endurhæfingarferli og einstaklingsbundinni batavinnu, auk hópastarfs og réttindabaráttu. Áherslur þar innan voru meðal annars ungt fólk, fólk með fjölbreyttar upplifanir af heiminum á borð við raddir og sýnir, og einstaklingar sem stunda sjálfsskaða eða íhuga sjálfsvíg. Hún hefur einnig verið stundakennari við Háskólann á Akureyri frá útskrift þaðan árið 2016. Svava leggur nú stund á meistaranám í fötlunarfræði við Háskóla Íslands, þar sem lokaverkefni hennar snýr að fólki sem hefur náð bata af andlegum áskorunum og upplifun þeirra af völdum og valdeflingu innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins.

Svava er ein sex höfunda bókarinnar "Boðaföll", sem fjallar um nýjar nálganir í sjálfsvígsforvörnum, byggt á persónulegri reynslu höfunda og annarra viðmælenda. Hún hefur setið í fagráði Styrktarsjóðs geðheilbrigðis frá stofnun hans 2021 og var skipuð af heilbrigðisráðherra sem varafulltrúi í Geðráð frá 2023 til nú. Hún hefur haldið vinnustofur, skrifað greinar og talað fyrir breyttum áherslum í geðheilbrigðismálum á ólíkum vígvöllum bæði hérlendis sem og erlendis.

Framboð til stjórnar

Elín Ebba Ásmundsdóttir

Elín Ebba Ásmundsdóttir hefur verið í stjórn Geðhjálpar frá 2020. Hún varð fljótt varaformaður og hefur sinnt ótal verkefnum í þágu Geðhjálpar sem fulltrúi, í undirbúningsvinnu og sem talsmaður.

Elín Ebba vann í nær þrjá áratugi sem forstöðuiðjuþjálfi á geðheilbrigðissviði LSH. Hún hefur skrifað greinar, haldið fyrirlestra, vinnustofur og námskeið sem tengjast geðrækt, geðheilbrigði og valdeflingu um allt land. Hún hefur barist gegn fordómum og fyrir fjölbreyttari meðferðarúrræðum.

Elín Ebba hefur fóstrað, með beinum stuðningi og leiðsögn, ýmsar nýjungar sem hlotið hafa athygli, lof og viðurkenningar. Má þar nefna forvarnarverkefnið Geðrækt (en tvær hugmyndanna þar komu úr hennar smiðju; Geðorðin tíu og Geðræktarkassinn), Hugarafl, baráttufélag fyrir breyttum áherslum og fjölbreyttara vali meðferðar og Notandi spyr notanda – NsN, sem er norsk rannsóknar aðferðafræði, þar sem notendur framkvæma gæðaeftirlit á þjónustu og gera tillögur um úrbætur.

Elín Ebba var lektor og síðan dósent við HA frá 1999-2017. Hlutverkasetur, sem hún starfar nú hjá, er byggt á notenda- og batarannsóknum sem var rannsóknarnálgun hennar við HA.

Jón Ari Arason

Ég heiti Jón Ari Arason og vil gjarnan gefa kost á mér í stjórn Geðhjálpar. Ég hef um langt árabil, með hléum þó, verið áhugamaður um geðrækt, geðvernd, og geðheilbrigði almennt, og hef starfað á því sviði bæði sem sjálfboðaliði innan ýmissa félagasamtaka og starfsmaður hjá Hlutverkasetri og á geðsviði Landspítalans. Jafnframt hef ég persónulega reynslu af því að veikjast á geði og að ná bata.

Ég var einn af upprunalegu stofnendum Hugarafls þar til leiðir skildu 2006. Á þessum tíma uppgötvaði ég þörf á að styðja aðra í svipaðri stöðu í sínu bataferli ásamt því að hvetja fagfólk og notendur til að bera saman bækur sínar í meiri mæli en tíðkaðist áður. Ég er á því, enn í dag, að með samstarfi þessara hópa í góðri trú, þar sem fagfólk mæti lífsreynslu notenda með samkennd og notendur mæti vísindastarfi og þekkingu fagfólks af virðingu, geti valdið straumhvörfum í þessum málaflokki. Jafnframt vil ég veg Geðhjálpar sem mestan og vil gjarnan aðstoða við það verkefni.

Sigmar Þór Ármannsson

Ég starfaði forstöðumaður yfir færanlegu búsetuteymi hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, en færði ég mig yfir í mannauðsteymi velferðarsviðs og kem þar m.a. að stuðningi við stjórnendur þvert á sviðið sem starfa í málefnum barna og fjölskyldna, fatlaðs fólks og virknimálum.

Ég hef því víðtæka reynslu af þverfaglegum samskiptum við stofnanir, s.s. Landspítalann og geðheilsuteymin, en þar sé ég mikið sóknarfæri til að efla enn frekar samráð milli ríkis og sveitarfélaga í þágu fólks sem þarf á þverfaglegum stuðningi að halda.

Sigurborg Sveinsdóttir

Ég heiti Sigurborg Sveinsdóttir og er iðjuþjálfi að mennt. Síðastliðin 10 ár hef ég unnið að hagsmunamálum notenda í grasrótinni og innan Geðheilbrigðiskerfisins. Ég hef sjálf með persónulega reynslu af andlegum áskorunum og af því að vera í aðstandenda hlutverki. Undanfarin misseri hef ég starfað við jafningjastuðning (IPS, intentional Peer support) og er einnig IPS þjálfararéttindi. Ég hef unnið í verkefnum með Geðþjónustu LSH meðal annars að innleiðingu jafningjastuðnings og Nsn (Notandi spyr notanda) gæðaúttekt.

Nýjar nálganir þegar kemur að sjálfsskaða og sjálfvígum er eitt af þeim málum sem mér eru hugleikin en ég er einn af meðhöfundum, bókarinnar Boðaföll, nýjar nálganir í sjálfsvígsforvörnum. Ég vil sjá frekari áhrif notenda á þróun geðheilbrigðismála og markvissar breytingar á viðhorfum og menningu þegar kemur að geðheilbrigðisþjónustu með áherslu á mannúð og mannréttindi.

Sveinn Rúnar Hauksson

Ég hef einbeitt mér að mannréttindamálum sem eru og þurfa að vera í forgangi hjá Geðhjálp. Í mörg undanfarin ár hef ég verið fulltrúi Geðhjálpar í nefndum og vinnuhópum er varða þessi mál og þar með innleiðingu Sáttmálans um réttindi fólks með fatlanir.

Með sáttmálanum fáum við styrk og stuðning í baráttunni gegn valdbeitingu og ofbeldi sem við og okkar fólk hefur mátt sæta og gerir enn. Við höfum náð nokkrum árangri, en enn er langt í land. Ég býð mig fram til að vinna áfram að þessum málum og öðrum mikilvægum málaflokkum okkar öfluga félags.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram