20. júní 2022

Ályktun frá Landssamtökunum Geðhjálp og Landssamtökunum Þroskahjálp

Níunda maí sl. skilaði þriggja manna sérfræðinganefnd sem skipuð var af forsætisráðherra skýrslu sinni um undirbúning rannsóknar á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda. Umboð nefndarinnar byggðist á ályktun Alþings Íslendinga sem fól forsætisráðherra skipun nefndarinnar.

Stjórnir landssamtakanna Geðhjálpar og Þroskahjálpar fagna því að fyrsta skrefið í því ferli að skoða, gera upp og læra af framkomu og meðferð þessara hópa hafi verið stigið. Samtökin ítreka í kjölfarið mikilvægi þess að vandað verði til verka í framhaldinu. Helstu áherslupunktar samtakanna tveggja í tengslum við næstu skref í málinu eru eftirfarandi:

  1. Rannsóknarnefnd á vegum Alþingis verði skipuð

Samtökin taka undir tillögur nefndarinnar að fyrirhuguð rannsókn fari fram í rannsóknarnefnd á vegum Alþingis. Heimildir slíkrar nefndar eru skýrar skv. lögum sem einfaldar og flýtir fyrir rannsókninni. Mikilvægt er að málið verði undirbúið eins fljótt og auðið er þannig að þingið getið hafið vinnuna strax og það kemur saman í haust.

  1. Fulltrúar notenda

Mikilvægt er að í þessari nefnd verði fulltrúar notenda og að Þroskahjálp og Geðhjálp hafi aðkomu að skipan nefndarinnar og vinnu frá upphafi. Meðferð þeirra sem rannsóknin nær yfir hefur til þessa dags verið nær eingöngu á forsendum þjónustuveitenda ekki þjónustunotenda. Sú nálgun er á undanhaldi og þjónusta framtíðarinnar byggir á forsendum þjónustunotenda. Ekkert um okkur án okkar.

  1. Rannsóknartímabil

Samtökin taka undir með nefndinni að rannsóknartímabilin verði tvö; 1970 til 2011 annars vegar og 2011 til dagsins í dag hins vegar. Það er þó mikilvægt að loka ekki fyrir eldri mál sem gerðust fyrir 1970. Það er ekki ólíklegt að fólk sé á lífi sem var á stofnunum fyrir 1970 og einnig aðstandendur sem kunna að upplifa sorg og eftirsjá vegna framkomu gagnvart ættingjum sínum. Þetta fólk á rétt á viðurkenningu og uppgjöri.

  1. Eftirlitsaðilar

Þær upplýsingar sem koma fram í skýrslu nefndarinnar um eftirlitsaðila, skyldur þeirra og framkvæmd eftirlits kalla að mati samtakanna á tafarlausa úttekt á starfsemi þessara aðila. Það að Landlæknisembættið hafi ekki svarað nefndinni er ekki til þess fallið að auka traust almennings á stofnunum og stöðum sem vista fatlað fólk með þroskahömlun eða fullorðna með geðrænan vanda. Smæð sveitarfélaga og geta þeirra til þess að sinna lögbundnum skyldum sínum er áhyggjuefni.

  1. Hugmyndafræði

Samtökin telja að vinna nefndarinnar, nýleg úttekt Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðismál og stefna stjórnvalda og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til 2030 geti verið tækifæri fyrir stjórnvöld og samfélagið allt að vinna í því að innleiða nýja hugmyndafræði í allri vinnu sem snýr að málaflokknum. Nú þegar stjórnvöld hyggjast lögfesta Samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðra opnast tækifæri til að þræða „nýja hugmyndafræði“ vel inn í endurskoðaða löggjöf, þ.á.m. lögræðislög, lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, lög um réttindi fatlaðra og lög um réttindi sjúklinga. Slíkt tækifæri býður upp á vítt samráð og samtal sem samtökin hvetja stjórnvöld til að grípa og nýta sér vel.

F.h. stjórna Landssamtakanna Geðhjálpar og Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Héðinn Unnsteinsson formaður Geðhjálpar
Unnur Helga Óttarsdóttir formaður Þroskahjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram