Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar fagnar þeirri stefnu Reykjavíkurborgar að leggja skuli á hilluna úreltar hugmyndir í tengslum við heimilislaust fólk og taka þess í stað upp fordómalausari nálgun. Of lengi hefur það viðgengist í samfélaginu að mismuna fólki sem talið er „öðruvísi“ og fellur ekki að fyrirfram gefnum hugmyndum um það sem talið er „eðlilegt“. Stefna Reykjavíkurborgar byggir á „húsnæði fyrst“ nálguninni en kjarni hennar gengur út á að forsenda bættra lífsgæða og bata einstaklings sé að hafa þak yfir höfuðið. Sú stefna sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur boðað með skaðaminnkandi úrræðum fellur vel að þessari nýju nálgun.
Á sama tíma hryggir það stjórn Geðhjálpar að sjá þá neikvæðu umræðu sem hefur skapast í tengslum við þau tvö smáhýsi sem fyrirhugað er að koma fyrir við Skógarhlíð. Ótti þeirra sem vilja ekki þessi smáhýsi eða sjá þau á öðrum stað byggir að okkar mati á fáfræði og skilningsleysi. Viðbrögðin núna minna um margt á umræðu liðins tíma gagnvart fólki með geðrænar áskoranir og fatlanir. Gömlu klisjurnar eru dregnar fram: Íbúðaverð mun lækka, börnin eru í hættu, heimilislaust fólk á ekkert erindi í hverfið, best að koma þeim fyrir út í sveit eða það séu of margir „skrýtnir“ við hina eða þessa götuna og betra væri að koma þessum einstaklingum fyrir í öðru hverfi. Viðbrögðin minna því miður á alltof algeng viðhorf í okkar samfélagi að fólk er almennt hlynnt hugmyndafræðinni en vill ekki sjá hana útfærða í „eigin bakgarði“. Það er sorglegt að sjá þessa umræðu blossa upp nær undantekningalaust ef koma á fyrir smáhýsi, sambýli, íbúða- og/eða meðferðarkjarna fyrir einstaklinga með vímuefnavanda eða geðrænar áskoranir.
Fordómar byggja á fáfræði. Besta leiðin til að uppræta þá er með samtali og fræðslu. Allar rannsóknir sýna að með því að veita einstaklingum, sem eiga við vímuefnavanda og/eða geðrænar áskoranir að stríða, húsaskjól og heimili dregur það úr vandanum. Við erum margbreytileg og undirstaða samfélagsins er umburðarlyndi fyrir náunganum. Stjórn Landssamtakanna Geðhjálpar skorar á borgaryfirvöld og stjórnvöld að hvika hvergi og leggja aukinn þunga á uppbyggingu úrræða og þjónustu við þá hópa sem samfélagið hefur allt of lengi mismunað vegna fordóma og skilningsleysis.
F.h. stjórnar Geðhjálpar,
Héðinn Unnsteinsson, formaður.
PDF-útgáfu hægt að nálgast hér: Bréf og tilkynningar.