8. desember 2022

Ályktun stjórnar Geðhjálpar vegna sparnaðartillagna borgarstjórnar

Landssamtökin Geðhjálp lýsa yfir áhyggjum vegna framkominna niðurskurðartillagna borgarstjórnar er snúa að velferðarúrræðum. Þetta á ekki síst við um fyrirhugaða lokun Vinjar athvarfs fólks sem býr við geðrænar áskoranir. Það skal tekið fram að Reykjavíkurborg átti ekki samtal við Geðhjálp eins og kemur fram í tillögu meirihluta borgarstjórnar þar sem segir: „Þjónusta til að koma til móts við félagsstarf fólks með geðraskanir verði útfært í samráði við félagið Geðhjálp.“ Boðaðar tillögur virðast hafa verið unnar með hraði og án samtals eða samráðs við hagaðila.

Það hefur legið fyrir sl. misseri að sveitarfélögin sigla mörg hver krappan sjó þegar kemur að rekstri. Lögbundin verkefni sveitarfélaga hafa orðið að bitbeini á milli þeirra og ríkisins sem aftur hefur bitnað á einstaklingum sem eiga rétt á þjónustunni. Það eru því talsverð vonbrigði að niðurstaða fjárhagsáætlunar sé niðurskurður á annars viðkvæmu velferðarkerfi sveitarfélaganna.

Landssamtökin Geðhjálp hafa um árabil bent á þá staðreynd að geðheilbrigðiskerfið er vanfjármagnað. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðiskerfið, sem kom út í vor, þá eru fjárframlög til málaflokksins tæplega 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála. Á sama tíma er áætlað umfang geðheilbrigðismála af heildinni í kringum 25%. Geðheilbrigðiskerfið hefur verið vanfjármagnað í áratugi og það er áhyggjuefni hve lítinn gaum stjórnvöld hafa gefið málaflokknum.

Það fjármagn sem sett er í geðheilbrigðismál er að langstærstum hluta sett í meðferð og endurhæfingu þ.e.a.s. afleiðingaendann. Geðhjálp hefur ítrekað bent á hve nauðsynlegt er að gera stórátak í geðrækt (heilsueflingu og forvörnum) þ.e.a.s. orsakaendanum. Það væri gagnlegt að kanna hversu miklum fjármunum er farið í afleiðingaendann (meðferð og endurhæfingu) af heildinni. Stjórn Geðhjálpar álítur af reynslu og tölum sem ræddar voru fyrir allnokkru að hlutfall geðræktar (heilsueflingar og forvarna) sé á bilinu 1-2% á meðan meðferð og endurhæfing fær um 98% af fjárveitingum.

Nærþjónustan er á hendi sveitarfélaganna og því hefur boðaður niðurskurður nú í för með sér minna fjármagn í forvarnir og heilsueflingu. Landssamtökin Geðhjálp skora á Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög að hafa það í huga að niðurskurður á heilsueflingu og forvörnum á næsta ári kann að hafa í för með sér aukin vanda og mun meiri kostnað inn í framtíðina. 

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram