Meðfylgjandi bréf var sent í tölvupósti til forsætisráðherra og Velferðarnefndar Alþingis þann 11. júní 2024.
Sæl öll.
Nú eru tvö ár síðan nefnd á vegum forsætisráðuneytisins skilaði af sér niðurstöðum um það hvernig haga ætti rannsókn á aðbúnaði og meðferð fullorðins fatlaðs fólks og fullorðinna með geðrænan vanda. Nefndin var skipuð í kjölfar ályktunar Alþingis þann 12. júlí 2021. Í ályktun Alþingis kom m.a. þetta fram: „Forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöður nefndarinnar og geri tillögu um fyrirkomulag rannsóknar sem hefjast skuli vorið 2022.“ Forsætisráðherra flutti enga skýrslu en ákveðið var að fela Velferðarnefnd Alþingis að vinna tillögu í málinu út frá niðurstöðum nefndarinnar. Svo það komi fram þá taldi nefndin besta kostinn vera þann að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis yrði falin þessi vinna. Rannsóknin sem Alþingi ályktaði um að hefjast skyldi vorið 2022 er enn ekki hafin.
Fólkið sem hið opinbera hefur brotið á bíður eins og það hefur árum og áratugum saman. Það verður að teljast döpur forgangsröðun að fara í gegnum tvö heil þing án þess að ná að afgreiða málið úr nefnd. Landssamtökin Geðhjálp hafa ítrekað sett sig í sambandi við Velferðarnefnd og forsætisráðherra um að hraða þessari vinnu svo hægt sé að hefja þá mikilvægu vegferð að græða þau sár sem fjöldi einstaklinga og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir í gegnum tíðina fyrir það eitt að vera fatlaðir eða með geðrænan vanda. Samfélagið skuldar þessu fólki mikið. Þetta er líka mikilvægur þáttur í því að byggja upp þjónustu í nútímanum þar sem fólk getur treyst því að ekki sé brotið á þeirra mannréttindum.
Í viðtali við visir.is í dag útskýrir Helga Þórisdóttir forstjóri Persónuverndar hvers vegna það er mikilvægt setja sérlög þegar rannsaka á aðbúnað á stofnununum/deildum/stöðum þar sem fólk er vistað til lengri eða skemmri tíma eða setja á laggirnar rannsóknarnefnd á vegum þingsins. Þetta segir hún í tilefni af úrskurði Persónuverndar um að ráðherra hefði ekki mátt fela Gæða- og eftirlitsstofnun að rannsaka meðferðarheimilin Laugarland og Varpholt. Helga segir m.a. og vísar þar til rannsóknar á Vöggustofum í Reykjavík: „Þá voru sérstök lög sett sem römmuðu algjörlega inn þá vinnu og vinnslu persónuupplýsinga sem þurfti að fara í. Önnur leið hefði verið að fá þingnefnd til að taka að sér þessa vinnu.“
Landssamtökin Geðhjálp skora á forsætisráðherra og Velferðarnefnd þingsins að klára þá vinnu sem hafist var handa við þann 12. júlí 2021.
Virðingarfyllst,
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri
Landssamtökin Geðhjálp