Nauðungarvistunin hafði langvarandi neikvæð áhrif

Töluvert hefur verið fjallað um nauðungarvistun undanfarin ár þar sem inngripið er bæði róttæk aðgerð þar sem einstaklingur er sviptur frelsi og vistaður á sjúkrahúsi, oft gegn vilja sínum, og í sumum tilfellum einnig beittur þvingaðri lyfjagjöf. Í meistararitgerð Sigurðar Páls Jósteinssonar frá því í vor, 2024, um nauðungarvistun kemur fram að flestar rannsóknir um áðurnefnt efni hafi hingað til verið unnar frá sjónarhóli heilbrigðisstarfsfólks eða aðstandenda. Rannsóknarverkefni hans byggir á viðtölum við sex einstaklinga sem hafa allir verið nauðungarvistaðir oftar en einu sinni og er því mikilvægt innlegg, ásamt öðrum rannsóknum, um nauðungarvistanir.

Rannsóknir sýna að nauðungarvistun tekur mjög á einstaklinga, þó svo að margir þeirra hafi skiln­­ing á að grípa hefði þurft inn í ástand þeirra. Nauðungarvistun er talin af mörgum fornfáleg og ómannúðleg aðferð til að koma einstaklingi, oftast mjög veikum, undir læknishendur og í öruggt skjól, einstaklingi sem þá er talinn ógna sjálfum sér og jafnvel umhverfi sínu. Rannsóknarverkefni Sigurðar Páls leiddi í ljós að nauðungarvistun hefur mikil áhrif á einstaklinga sem flestir hefðu kosið að mildari leiðir hefðu verið fyrir hendi til að koma þeim til hjálpar.

Mikið áreiti á geðdeild hefur neikvæð áhrif á viðkvæma sjúklinga

Segðu mér í stuttu máli frá rannsókn þinni á nauðungarvistun og helstu niðurstöðum. „Ég gerði eigindlega rannsókn sem fólst í því að taka einstaklingsviðtöl við sex aðila sem höfðu verið nauðungarvistaðir á ólíkum tímum, allt frá því í kringum 8. áratuginn en nýjasta dæmið var frá árinu 2017. Viðmælendurnir voru á misjöfnum aldri en þetta voru fjórir karlar og tvær konur sem voru ýmist utan af landi eða bjuggu á höfuðborgarsvæðinu. Það sem kom mér helst á óvart var hvað frásögn þeirra allra var keimlík. Það var rauður þráður sem einkenndi hana sem var þessi mikla valdbeiting, að vera tekinn, lokaður inni á geðdeild og missa lágmarksfrelsi, að geta ekki farið úr húsi, eitthvað sem við teljum vera sjálfsögð mannréttindi.

Þau höfðu öll verið nauðungarvistuð oftar en einu sinni og voru líka öll sammála um að þau hefðu verið í stöðu þar sem þau þurftu aðstoð og hjálp en í einhverjum tilfellum fannst viðmælendum nauðungarvistunin hafa verið of róttækt inngrip. Þau töldu að nauðungarvistun hefði verið nauðsynleg í einhverjum skiptum en í öðrum hefði mátt grípa til einhverra vægari ráðstafana en nauðungarvistunar.

Síðan eru atriði sem þau komu öll inn á en það er aðbúnaðurinn inni á geðdeildum, að hann hafi ekki verið nægilega góður. Ég veit að bráðageðdeildin var endurgerð árið 2013 en þar er aðbúnaður og aðstaða starfsfólks enn ekki góð. Viðmælendur mínir töluðu um að það hefði stundum verið erfitt að fá að fara út daglega og að það hefði verið mannekla, veikindi eða framkvæmdir fyrir utan spítalann sem gerði það að verkum.

Þau töluðu einnig um tómstundir og virkni og að það sem hefði verið í boði á spítalanum hefði verið takmarkað. Einnig að aðgerðaleysi hefði ein­­kennt dvöl þeirra og að það hefði verið streituvaldandi að vera inni á geðdeildinni, oft margir notendur á sama tíma og mikil læti sem hafi skapað aðstæður sem hafi ekki verið til þess fallnar að bæta líðan þeirra heldur frekar til þess að ýta undir streitu. Þau töluðu öll um ofuráherslu lækna á lyfjagjafir, að það hafi verið númer 1, 2 og 3 og þá aðallega til að ná fólki í jafnvægi, ef hægt er að kalla það því nafni, sem fyrst til að útskrifa það. Fólk sem fer þarna inn á bara að vera í stuttan tíma og það sem þau sögðu var: Maður er bara lyfjaður til að flýta fyrir útskrift.

Yngri viðmælendur töluðu um að það væri að koma inn ný kynslóð lækna sem legði ekki jafn mikla áherslu á lyf og þeir eldri. Þeir læknar væru opnari og gripu ekki eins fljótt og eldri læknar til nauðungarlyfjagjafar ef eitthvað kæmi upp á. Læknisfræðilegur skilningur er ríkjandi í garð fatlaðs fólks og fólks með geðsjúkdóma þar sem skerðingin er álitin uppspretta flestra erfiðleika sem mæta því í stað þess að skoða heildaraðstæður fólks, þætti eins og hvort fólk búi við heimilisleysi, fátækt eða félagslega einangrun. Einhliða læknisfræðileg nálgun einkennir geðheilbrigðiskerfið hér á landi, þar sem áhersla er lögð á greiningu, lyfjameðferð og sjúkdómseinkenni og heildræna sýn í málaflokknum skortir.“

Umboðsmaður Alþingis hefur á undanförnum árum heimsótt lokaðar geðdeildir og í Heimsóknarskýrslum hafa svipuð atriði komið fram og hjá viðmælendum Sigurðar Páls um að ýmsan vanbúnað væri að ræða á geðdeildinni, til dæmis í tengslum við útivistarsvæði við geðdeild Landspítala, loftræstingu og virkniog heimsóknarherbergi. Í skýrslum umboðsmanns Alþingis er líka talað um öryggisatriði sem betur mættu fara á deildinni varðandi sjúklinga og starfsfólk og er bent á að þessi skortur á ásættanlegri aðstöðu geti ýtt undir frekari inngrip og þvingun sjúklinga en einnig spennu á geðdeildinni sem annars þyrfti ekki að vera. Þá kom fram að sjúklingar væru aðgerðalausir.

Vilja sjá mannúðlegri lausnir í stað nauðungarvistunar

Sigurður Páll segir að sammerk upplifun við­­mælenda gefi til kynna að nauðungarvistun sé inngrip sem geti haft langvarandi neikvæð áhrif. Þó svo að fólkið hafi haft skilning á að grípa hefði þurft til aðgerða þá hefðu þau öll viljað sjá mannúðlegri leiðir en nauðungarvistun.

Hvernig er upplifun fólks af nauðungarvistun eftir á? „Hún tók á þau öll. Það þarf að veita miklu meiri aðstoð eftir að innlögn lýkur til að vinna úr nauðungarvistun. En eins og ég sagði áðan þá voru þau öll á tilteknum tímapunkti í þörf fyrir læknisaðstoð og hjálp en töldu að nauðungarvistunin væri of róttækt inngrip. Það sem sat í þeim var lyfjaofbeldið, þessi þvingaða lyfjagjöf, framkoma starfsfólks, aðbúnaður og þess háttar atriði sem voru ekki til þess fallin að hjálpa fólki í veikindafasa.

Nokkrir töluðu um hræðsluna við að veikjast aftur og eiga þá á hættu að verða nauðung­­­­arvistuð. Ein talaði um að hafa upplifað áfallastreituröskun í kjölfar nauðungarvistunar og „óttaðist lengi vel á eftir þegar dyrabjöllunni var hringt heima hjá henni að einhver væri að koma til að nauðungarvista hana“.“

Fordómar í garð fólks með geðsjúkdóma birtast víða

Sigurður segir að rannsóknir sýni að fólk með geðsjúkdóma sé jaðarsett og að fordómar sem ríki í garð þess komi víða fram.

Beitum við harðari aðgerðum gagnvart fólki sem er jaðarsett? „Tveir eða þrír viðmælendur mínir töluðu um fordóma og rannsóknir sýna það að fólk með geðsjúkdóma verður fyrir fordómum og er jaðarsett, það kemur alveg skýrt fram. Þessum fordómum er viðhaldið í fjölmiðlum þar sem fólk með geðsjúkdóma sé álitið hættulegt. Þetta er ekki til þess að hjálpa við að uppræta fordómana og það hefur ekkert verið sýnt fram á að fólk með geðsjúkdóma sé eitthvað hættulegra en hver annar.

Í lögræðislögunum er bara talað um fólk með geðsjúkdóma eða það sem jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms, en þar er eingöngu tekinn einn skerðingarhópur fyrir þar sem er leyfilegt að beita nauðung og þvingun. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýrt tekið fram að fötlun réttlæti aldrei skerðingu á frelsi.

Fólk þarf svigrúm til að vinna úr veikindum sínum

Sigurður Páll segir aðspurður að það eigi að vera hægt að komast hjá því í einhverjum tilfellum að nauðungarvista, það sé hægt að finna aðrar leiðir til að koma í veg fyrir svo róttækt inngrip.

Hefur vinnulag varðandi nauðungarvistanir verið endurskoðað? „Ég veit að það er verið að skoða atriði sem varða þvingaðar lyfjagjafir, að fólki eigi að standa til boða ráðgjöf og ráðgjafi á meðan á nauðungarvistun stendur og að nauðungarvistun lokinni, sem á að sjálfsögðu að vera. Einhverjir höfðu verið í meðferð í geðheilsuteymum að lokinni innlögn og þar eru félagsráðgjafar, sálfræðingar og fleiri fagaðilar.

Það er nú alltaf hægt að finna aðrar leiðir en að nauðungarvista fólk þó að ég telji að hún verði alltaf til í einhverri mynd. En ef það á að nauðungarvista fólk þá þarf að passa að allur aðbúnaður sé upp á það allra besta, að það sé starfsfólk sem sé vel þjálfað fyrir þessar aðstæður og að það sé ekki of mikið áreiti á deildinni. Fólk þarf að fá svigrúm til að vinna úr veikindum sínum á þann veg sem krefst ekki svo mikillar þvingunar líkt og nauðungarvistun. Það þarf að hafa ótakmarkað tækifæri til útiveru og annarrar hreyfingar í stað þess að vera fast inni á deildum eða þurfa að fara í gegnum einhverjar hæðir til að komast í líkamsrækt. Það þarf líka að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu og fleiri úrræðum þeim að kostnaðarlausu.“

Það eru fleiri atriði sem Sigurður Páll nefnir sem gætu reynst vel til að forðast nauðungarvistun.

„Fólk þarf líka að hafa betra aðgengi að læknum ef það byrjar að finna fyrir einkennum og fá aðstoð svo hægt sé að grípa fyrr inn í. Svo er fólk oft hrætt við að hætta á lyfjunum eða leita eftir heilbrigðisþjónustu af ótta við að verða nauðungarvistað aftur. Afleiðingar geðlyfja eru miklar. Viðmælendur mínur töluðu öll um hvað þau hefðu haft neikvæð áhrif á þau, að þau yrðu flöt, fitnuðu, höfðu minni kynlöngun og fleira, aukaverkanir af þessum lyfjum eru rosalega miklar.“

Veistu til þess að önnur úrræði hafi komið til skoðunar? „Það eru ákveðin atriði sem verið er að skoða, ákveðin krísuplön, þ.e. þegar einstaklingurinn veikist þá sé hann búinn að skrifa niður vilja sinn, en þá er líka spurning hvað gerist ef hann hættir við á ögurstundu? En ég held að svona atriði ætti að skoða miklu meira hérna. Ég veit þó líka að fólk er ekki nauðungarvistað að ástæðulausu. Það er líka til fólk sem hefur farið upp á deild og óskað eftir að vera nauðungarvistað og ekki fengið það. En þarna ættu að vera einhver vægari úrræði í boði.

Það mætti staðsetja geðdeild, þar sem fólk væri mikið veikt, fyrir utan bæinn, þar sem fólk gæti kúplað sig aðeins út og fengið frí frá látum og þar sem passað væri upp á svefn fólksins, hreyfingu og mataræði. Það mætti byrja á þessu áður en farið er í nauðungarvistun. Maður getur skilið að svona geðdeild þurfi að vera nálægt spítalanum en það ætti að vera hægt að koma þessu í kring.“

Lyfjameðferð er ódýrasta leiðin

Sigurður Páll talar um í meistararitgerð sinni að heildræna sýn skorti þegar kemur að geð­­heilbrigðismálum, eins og kemur fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að einhliða læknisfræðileg nálgun einkenni geðheilbrigðiskerfi flestra landa þar sem áhersla er lögð á greiningu, lyfjameðferð og sjúkdómseinkenni.

Hvers vegna erum við ekki með fleiri kosti, telur þú, er það vegna manneklu, íhaldssemi eða annarra þátta? „Ég held að það sé hægt að breyta miklu og auka valkosti án mikils kostnaðar en það sem þarf helst að eiga sér stað er hugarfarsbreyting í málaflokknum þar sem sjálfsögð mannréttindi eru tryggð. Jafnframt þarf að sjá til þess að allt vinnulag í kringum nauðungarvistanir einkennist af virðingu og hlýju.“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram