30. október 2023

Ég hef ofurtrú á því að hreyfing geri kraftaverk

Ólafur Sveinsson hefur upplifað þunglyndi og kvíða frá því á barnsaldri. Hann fékk viðeigandi aðstoð á fullorðinsárum og tók þá þunglyndislyf um tíma sem hjálpuðu en virkilega vellíðan fór hann að finna fyrir þegar hann byrjaði í göngum og það varð til þess að hann hætti að taka þunglyndislyf. Ólafur vann meira að segja um árabil sem leiðsögumaður á fjöllum.

„Ég var kvíðinn sem barn og unglingur og ég átti erfitt með að gera ýmislegt. Ég þurfti stundum að loka mig af og það vissi enginn hvað þetta var. Ég var bara skammaður. Ég átti erfitt með að hitta og tala við fólk og var óöruggur með mig. Þunglyndið hefur komið upp með reglulegu millibili og ég réð ekkert við þetta. Mér fannst þetta vera aumingjaskapur. Mér gekk mjög illa í skóla meðal annars út af þessu.“

Ólafur Sveinsson vann í sumarvinnu 15 ára gamall sem sendill hjá Landsbankanum og einn daginn komst hann ekki í vinnuna vegna þess hvað honum leið illa andlega. „Það var svo góður maður að vinna hjá bankanum sem kom heim og talaði við mig og sagði að þetta væri allt í lagi og ég skyldi koma í vinnuna. Hann var sá fyrsti sem áttaði sig á því að ég væri kannski bara veikur.“

Árin liðu og alltaf upplifði Ólafur svona andlegar lægðir en var góður þess á milli. Hann er lærður þjónn og vann lengi sem þjónn og svo vann hann sem ráðgjafi hjá SÁÁ. Hann hefur alla tíð hreyft sig reglulega svo sem í fótbolta, hann hefur synt og stundum hlaupið. Einn daginn þegar hann ætlaði að fara í vinnuna hjá SÁÁ komst hann ekki fram úr rúminu vegna þess hvað honum leið illa. Hann var þá um fimmtugt.

„Ég upplifði eins og ég væri undir gólffjölunum; ekki undir sænginni. Ég var mjög „paranojaður“ og mig grunaði að fullt af fólki væri að njósna um mig. Ég hringdi í vinnuna og sagðist vera veikur. Ég svara ekki símanum þegar þetta gerist en það er eitt af mínum einkennum. Þannig var þetta í nokkra daga þangað til tvíburabróðir minn, sem var búinn að reyna að hringja í mig, kom og bankaði á dyrnar og gluggann og sagði mér að opna sem ég gerði.“

Bróðir Ólafs sagði að hann yrði að tala við lækni og úr varð að sá læknir pantaði tíma fyrir hann hjá geðlækni. Og Ólafur segir að geðlæknirinn hafi gripið sig. „Loksins. Það var mikill plús að fá að vita þetta,“ segir hann en þá fékk hann að vita að hann væri þunglyndur og með kvíða. „Ég upplifði alltaf að þetta væri aumingjaskapur eins og ég sagði. Ég vissi aldrei hvað þetta væri. Ég man að læknirinn taldi upp nokkra hluti sem ég mátti velja úr til að gera á hverjum degi. Það var meðal annars að fara út á meðal fólks og ég man að ég fór í sund, á bókasafn og kaffihús. Ég faldi mig á bak við dagblað á kaffihúsunum ef einhver sem ég þekkti kom inn. Þetta var svona erfitt. Stundum komst ég bara rétt út úr húsi og sneri svo við. Þetta tók um það bil mánuð. Svo var komið að því að mæta í vinnuna aftur og það fannst mér vera mjög erfitt.

Hann talar um skömmina. „Mér finnst skömmin við þennan sjúkdóm hafa verið það versta. Þessi rosalega skömm sem helltist yfir mig því ég fann enga skýringu á líðaninni; ég vissi ekkert af hverju þetta kom allt í einu yfir mig. Það þyrmdi bara yfir mig. Ég lokaði mig af. Skildi þetta ekki. Mér þótti það vont.“ Svo snerist dæmið við þegar Ólafur fór að segja fólki í kringum sig frá þunglyndinu og kvíðanum. Hann segir það vera mjög frelsandi. Og hann gætir þess líka að segja frá því þegar hann finnur að vanlíðan fer að hellast yfir sig. „Aðalmálið er að ég þegar vil ekki hitta fólk eða svara í síma þá veit ég að ég þarf að gera eitthvað. Og ég geri það.“

Út að ganga

Ólafur tók þunglyndislyf í um sex mánuði eftir að hann var greindur með þunglyndi og kvíða. Í dag tekur hann engin slík lyf og það er ástæða fyrir því.

„Þegar ég fór til geðlæknisins sagðist hann vita að ég hefði hreyft mig í gegnum tíðina og sagði að það besta fyrir mig væri að vera innan um fólk eins og ég sagði og svo að stunda hreyfingu. Hann mælti með því að ég færi út að ganga. Ég hef fundið það í gegnum tíðina þegar ég hef farið að hreyfa mig að þá er ég alltaf betri andlega þegar ég kem heim. Það er vitað mál að hreyfing er það sem skiptir máli og ég finn alveg mun þegar ég hreyfi mig ekki.“ Það er líka vitað að hreyfing hefur góð áhrif á hjartað.

Ólafur fór í hjartaaðgerð á sínum tíma og tók í kjölfarið sjö hjartalyf en eftir að hann fór að ganga reglulega breyttist það og í dag tekur hann tvenns konar hjartalyf. Og svo hefur hreyfingin góð áhrif á lungun, blóðrásina og alla líkamsstarfsemina í heild sinni. Ólafur segir um mánuði eftir að hann fór að ganga reglulega að læknisráði hafi sér farið að líða betur andlega og verið orðinn vinnufær á ný.

„Mér fannst fyrst vera erfitt að fara út úr íbúðinni. Mér fannst það vera svakalega erfitt. Og stundum tókst það ekki. En mér leið betur þegar ég fór út þótt ég legðist svo aftur undir sæng þegar ég kom heim. Gangan varð fastur punktur í lífi mínu.“

Göngurnar voru ekki alltaf langar en þær lengdust smám saman og nú gengur Ólafur á hverjum degi í hálftíma að lágmarki. Nokkrum dögum áður en viðtalið var tekið hafði hann gengið 19 kílómetra einn daginn sem var liður í æfingu fyrir hálfmaraþon sem hann ætlar að fara í Reykjarvíkurmaraþoninu og safna áheitum fyrir Alzheimersamtökin.

„Ég geng mislangt og mismikið og ég finn það alltaf þegar ég kem heim hvað mér líður vel. Ég veit að þetta er það sem ég á að gera. Og ég þarf ekki alltaf að labba á fjöll. Ég þarf ekki alltaf að fara á Esjuna. Það er vitað mál að hreyfing er það sem skiptir máli. Ég er alveg sannfærður um að líðan mín dags daglega tengist því hvað ég hreyfi mig mikið. Mér finnst ég verða svo frjáls þegar ég geng en fyrst og fremst er það þessi vellíðan sem kemur. Ég hef farið út að ganga og liðið mjög illa og upplifað þetta svartnætti þannig að mér finnst ég vera undir gólffjölunum og vil ekkert fara út en mér fer að líða betur þegar ég geng og þá hverfur þessi vanlíðan og svartnætti. Mér finnst ég ekki geta útskýrt hvað það er sem gerist í sjálfu sér en mér líður bara betur. Ég finn mun ef ég fer ekki út að ganga; ég verð ekki eins glaður.

Það er reyndar mjög sjaldan sem ég geng ekki. Ég veit að þetta hefur mjög góð áhrif á mig; ég get farið út að ganga þegar mér líður illa og ég veit að mér mun líða betur þegar ég kem aftur heim. Þannig að ég hef ofurtrú á því að hreyfing geri kraftaverk fyrir geðheilsuna. Það er allt sem mælir með því. Verðlaunin við að hreyfa sig er að manni líður betur.“

Ferska loftið kemur til tals og að það þarf ekki að vera gott veður til að fara út að ganga hvort sem það er innanbæjar eða úti á landi.

Það þarf bara að klæða sig eftir aðstæðum hverju sinni. „Ég hef til dæmis gengið í Kerlingarfjöllum í 35 metrum á sekúndu. Það er ógleymanlegt.“

Hvað vill Ólafur segir um íslenska náttúru?

„Náttúran er svo dásamleg. Hún er einstök.“

Ólafur hefur gengið víða um land. Hann fer reglulega á Helgafell í Hafnarfirði og á Esjuna og svo hefur hann meðal annars farið nokkrum sinnum á Hvannadalshnjúk og Snæfellsjökul sem og Bláfell á Kili, Hengilinn, Helgrindur, Stóru Súlu og Rjúpnafell. Sem betur fer er ennþá nóg eftir af fjöllum sem hann á eftir að klífa bæði hérlendis og erlendis.

Leiðsögumaður

Ólafur sagðist hafa í fyrstu átt erfitt með að fara út úr dyrunum til að fara út að ganga. Hann tók eitt skref í einu og andleg vellíðan jókst með tímanum eins og þegar hefur komið fram. Það var svo árið 2013 sem Ólafur byrjaði að vinna sem leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands meðfram sínu aðalstarfi sem þjónn.

„Það var mjög skemmtilegt og það gaf mér mikið að vera með fólki og sjá hvað því fór fram. Það reyndi á andlega,“ segir Ólafur, „en verðlaunin voru svo frábær og þau vógu þyngra. Það er ómetanlegt að fá að kynna fjallamennsku fyrir fólki og fylgjast með því vaxa ásmegin og bæta líkamlega og andlega heilsu sína smátt og smátt. Það virðist líka eiginlega bara vera skemmtilegt fólk á fjöllum, hvort sem það er af því að skemmtilegt fólk ákveður að fara á fjöll eða hvort fólk verður skemmtilegt af því að stunda fjallgöngur, enda skiptir það engu máli. Aðalmálið er að hafa möguleika á að deila þessari mögnuðu reynslu með öðrum.“ Ólafur bætir því við að hann hafi séð sjálfan sig í mörgum þeim sem voru að taka sín fyrstu skref á fjöllum. „Mér finnst gott að geta deilt minni reynslu til hvatningar fyrir aðra. Að geta sagt með vissu að líðanin muni verða betri smám saman eftir að hafa reynt það á eigin skinni.”

Ólafur gekk Jakobsveginn í hittifyrra og fyrra - tók þetta í tveimur lotum - og í allt voru þetta um átta hundruð kílómetrar. „Þá var það hreyfingin og vera einn með sjálfum sér. Þetta var nokkurs konar heilun; ég fór í gegnum líf mitt. Ég hugsaði um kvíðann og hvað hann er. Og ég hugsaði um það hvernig ég var sem lítill strákur. Það er eitt af því sem mér finnst göngur líka hafa í för með sér; maður getur fundið ró einn með sjálfum sér og annaðhvort velti ég einhverju fyrir mér eða læt hugann reika.“

Ráðlagt er að hreyfa sig í 30 mínútur á dag. Í hálftíma. Ólafur ráðleggur þeim sem líður illa andlega og vilja feta í fótspor hans í þessum efnum að byrja rólega. Það er jafnvel nóg að fara fyrsta daginn bara út úr dyrunum og inn aftur ef þetta er erfitt og taka bara eitt skref í einu. Fjölga svo skrefunum og ganga kannski annan daginn í fimm mínútur, þann næsta í 10 mínútur; bara eftir því sem hver og einn treystir sér til. Svo má lengja göngurnar smátt og smátt.

Texti: Svava Jónsdóttir / Myndir: Alda Valentína Rós

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram