17. október 2022

„Ekki horft framhjá því að fólk verður fyrir miklum skaða af nauðungarvistun“

Nauðungarvistun er róttæk aðgerð þar sem einstaklingur er sviptur frelsi og vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum og í sumum tilfellum einnig beittur þvingaðri lyfjameðferð. Nauðungarvistun er af mörgum talin fornfáleg og ómannúðleg aðferð til að koma einstaklingi, oftast mjög veikum, „undir læknishendur“, og í öruggt skjól, einstaklingi sem þá er talinn ógna sjálfum sér og jafnvel umhverfi sínu.

Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (e. United Nations Convention on the Rights of Persons with Disabilities) er hvers kyns þvingun og nauðung á grundvelli fötlunar óheimil. Ísland hefur ekki lögfest þennan samning en ætlunin er að það verði gert og mun það án efa hafa áhrif á mannréttindi fólks með geðfatlanir í kjölfarið. Helga Baldvins Bjargardóttir mannréttindalögmaður segir að fólk með geðrænar áskoranir þurfi fjölbreyttari stuðning og meðferð en þá sem nú er veitt.

Helga Baldvins Bjargardóttir er mannréttindalögfræðingur, þroskaþjálfi og með diplóma í fötlunarfræðum. Hún segir að við séum að sigla inn í tíma þar sem okkur finnst nauðungarvistun og þvinguð meðferð vera úrelt aðferð. Það séu gríðarlega neikvæðar staðalímyndir enn við lýði um fólk sem er að takast á við geðrænar áskoranir. Ein þeirra er mýtan um að þeir sem séu veikir á geði séu ofbeldishneigðir eða hættulegir, sem Helga segir að byggi ekki á fræðilega traustum grunni.

Að hennar sögn erum við enn föst í læknisfræðilegu einstaklingsbundnu sjónarhorni á geðfötlun sem einblínir á hegðun og einkenni einstaklingsins frekar en að skoða hann í samhengi við umhverfi sitt. Mannréttindasjónarhorn á fötlun, eins og samningurinn um réttindi fatlaðs fólks boðar, krefst þess að við skoðum einstaklinginn í heild sinni og í stað þess að reyna breyta honum að leggja áherslu á að breyta umhverfinu og vinna gegn jaðarsetningu, mismunun og öðru ofbeldi.

Mýtan um að geðveikir séu hættulegir

„Á síðustu áratugum höfum við verið að færa okkur frá ofuráherslu hins læknisfræðilega sjónarhorns á yfir í mannréttindamiðaða nálgun gagnvart fólki með geðrænar áskoranir. Í því felst meðal annars að við þurfum að skora á lífseigar mýtur eins og þá að geðveikt fólk sé hættulegt og líklegra en annað fólk til að bregðast við með ofbeldi. Helga vill fara aðrar mildari leiðir fyrir þann veika og aðstandendur. Slíkt krefst dýpri skilnings á einstaklingnum og
aðstæðum hans sem geta haft áhrif á viðbrögð sem við köllum veikindi eða ofbeldishegðun.

Rannsóknir sýna að langflest atvik á geðdeildum þar sem sjúklingar beita ofbeldi gerast í kjölfar þess að starfsfólk takmarkar frelsi þeirra á einhvern hátt eða krefst þess að þeir taki lyf sem þeir vilja ekki taka. Þá megi ekki horfa fram hjá áföllum og erfiðum lífsaðstæðum sem fólk með geðrænar áskoranir hefur upplifað í gegnum ævina þegar hugað er að því hvernig megi bæta meðferð og líðan þessara sjúklinga. Þegar við skoðum þetta sem eðlileg viðbrögð við ógnandi aðstæðum er augljóst að við ættum að nota aðrar aðferðir en valdbeitingu sem auki enn frekar á sálrænan skaða þegar ætlunin er að koma fólki til bjargar á versta tíma ævi þess.“

Mismunun á grundvelli fötlunar

Er fólki með geðfötlun mismunað í íslenskum lögum? „Já, algjörlega, samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar áttu ekki að geta nauðungarvistað fólk og beitt það þvingaðri lyfjameðferð eingöngu byggt á greiningu á geðsjúkdómi eða að það teljist hættulegt sjálfu sér eða öðrum. Það er miklu fleira fólk hér sem bregst við með ofbeldi eða sýnir ógnandi hegðun gagnvart sjálfu sér og öðrum heldur en fólk með geðrænar áskoranir.

Það er mjög áhugavert að skoða að okkur finnst samfélagslega samþykkt að taka fólk sem telst veikt á geði úr umferð og þvinga það til að taka lyf á sama tíma og þarna úti er fjöldi heimila sem haldið er í heljargreipum manna sem eiga erfitt með að stjórna skapi sínu og beita maka sína og börn alls kyns ógnarstjórn og ofbeldi. Það er ekki verið að nauðungarvista þessa menn eða þvinga ofan í þá lyf.

Kvennaathvarfið er alltaf fullt af konum og börnum sem flýja heimili sín og við vitum að fjöldi barna býr við hræðilegar aðstæður af þessum völdum. En þegar ofbeldinu er beitt af mönnum í forréttindastöðu gerum við ekkert. Við tengjum þetta ofbeldi einhvern veginn ekki við geðveiki heldur færum frekar geðveikra-stimpilinn á konurnar sem segja frá ofbeldinu og göngum nánast út frá því að þær séu að ljúga. Ég myndi segja að það sé stærsta mismununin.“

„… að dómarar sjái það sem sitt hlutverk að stíga inn í mál með lögfræðiþekkingu sem metur þörf nauðungarvistunar út frá mannréttindum og meðalhófi.“

Verður að horfa á einstaklinginn út frá áföllum og þáttum sem vekja upp veikindin

Helga segir að það þurfi að gefa fólki rými til að skilja sjálft sig og viðbrögð í tengslum við áföll sem það hefur orðið fyrir og taka tillit til sögu þess, stétt, stöðu og fleiri þátta sem geta haft áhrif. „Mér finnst vanta mjög mikið inn í þessa áfallamiðuðu nálgun að við horfum á manneskju í heild sinni, ekki bara hvaða hegðun hún sýnir hér og nú, á einkenni sem oft eru skilgreind sem einhverjir geðsjúkdómar heldur sem viðbrögð, jafnvel „eðlileg“ miðað við það
sem hún hefur þurft að þola.

Þetta finnst mér vera hin nýja nálgun sem koma skal. Það þarf að hverfa frá því að spyrja í sífellu „hvað er að þér?“ og færa okkur yfir í að spyrja „hvað kom fyrir þig?“. Þannig sé hægt að hjálpa fólki að skilja sjálft sig í samhengi við hvernig vald og ógn hefur haft áhrif líf þess, hvernig varnarkerfi líkamans
taka yfir í kjölfar áfalla og til hvaða bjargráða fólk hefur gripið í því samhengi. Í þessu felst líka batamiðuð nálgun og áhersla á að fólk átti sig á styrkleikum sínum og vinni út frá þeim.“

Förum á milli valdbeitingar og sinnuleysis

Helga segir að miklu meiri stuðningur þurfi að vera til staðar fyrir fólk með geðraskanir. „Það virðist vera gegnumgangandi með fólk sem við flokkum sem annars flokks og býr við mikla jaðarsetningu að við beitum miklu harðari aðgerðum gagnvart því. Eða flökkum öfganna á milli, frá algjöru sinnuleysi yfir í algjöra valdbeitingu. Ef við skoðum hvernig þjónustu við veitum jaðarsettasta fólkinu þá eru yfirleitt ófaglærðir starfsmenn sem oftast eru kannski ekki meðvitaðir um áföll og þá þætti sem vekja upp veikindin eða krefjandi hegðun og jú sjúklingar eru í umsjá lækna en þeir eru bara að horfa á einkenni og reyna að fást við þau.

Mér finnst hins vegar að þú getir ekki smættað fólk niður í einhver einkenni. Það verður að horfa á einstaklinginn í heild sinni út frá áföllum og margt fólk þarf mikla áfallavinnu og heildstæðari nálgun en að vera vistað á geðdeild – og hvað svo? Hvaða stuðning ertu með þegar þú kemur út af geðdeild til að takast á við lífið? Mér finnst til dæmis alveg galið að við séum með fólk sem er að glíma við heimilisleysi sem við samt sjálfræðissviptum og sprautum kemískum efnum í líkama þess gegn vilja fólksins án þess að vera veita því lágmarksþjónustu eins og að tryggja því öruggt húsaskjól. Sem er grunnur að bata, þú byggir engan bata og ferð ekki úr varnarkerfum ef þú átt ekki einu sinni öruggt skjól.“

Þörf á meiri og fjölbreyttari stuðningi

Helga spyr ef við höfum raunverulegar áhyggjur af velferð og heilsu einstaklinga af hverju við séum þá ekki með góða þjónustu og gott velferðarkerfi. „Það er ekki hægt að einblína bara á einstaklinga sem eru á vondum stað án þess að horfa til þess hvernig við sem samfélag ýtum undir verri líkamlega og andlega heilsu með því að samþykkja það að fólk búi við fátækt og jaðarsetningu, upplifi mismunun og ofbeldi. Það þarf að vera öflugri geðheilbrigðisþjónusta og mun fjölbreyttari leiðir til að grípa inn í.“

Helga segir það miður að fólk með geðrænar áskoranir hér hafi ekki val á milli lyfja- eða lyfjalausra meðferða, það vanti fleiri úrræði hér. Þá sé sálfræðiþjónusta rándýr og fleira komi til, hlutunum sé svolítið líka kastað á milli kerfa, hverjir eigi að sinna hverju. Hún segir að fólk með geðrænan vanda þurfi stuðning til að taka þátt í samfélaginu. Hún vill sjá breytingu í þá átt að fólk fái heildræna þjónustu og raunhæfan stuðning við að taka þátt í samfélaginu á sínum forsendum.

Mannréttindaverndina vantar

Helga segir lítið hafa breyst í nauðungarvistunarmálum og að dómarar veigri sér við að endurskoða mat lækna á nauðsyn nauðungarvistunar. „Ég sé ekki mikið breytast. Það hefur einn dómur fallið þar sem ekki var fallist á skýringar lækna að í viðkomandi tilfelli væri nógu alvarlegur geðsjúkdómur til staðar, en ég held að aðalvandinn sé að dómarar telja sig ekki vera í stöðu til að efast um gildi læknisvottorða. Ef læknir segir að það sé þörf á nauðungarvistun þá eru þeir ekki mikið að endurskoða það. Þarna finnst mér vanta inn mannréttindaverndina, að dómarar sjái það sem sitt hlutverk að stíga inn í mál með lögfræðiþekkingu sem metur þörf nauðungarvistunar út frá mannréttindum og meðalhófi, hvort slík aðgerð sé virkilega nauðsynleg eða ekki.“

Við víkjum talinu að því hvernig megi komast hjá því að nauðungarvista og hvaða úrræði Helga sjái þar. „Ég horfi á nauðungarvistun með augum lögfræðings og þroskaþjálfa, það eru svo margir sem taka því sem gefnu að svona fólk þurfi svona meðferð, en ég sé þetta í stærra samhengi. Við höfum sem samfélag rosalega mikið um það að segja hvernig fólki vegnar. Rannsóknir sýna, að ef fólk lendir í áföllum í æsku, eða ef fólk býr við ofbeldi, fátækt, áfengis- og vímuefnamisnotkun þá margfaldar það líkurnar á að fólk glími við alls konar veikindi og geðrænar áskoranir seinna á lífsleiðinni.

Það þarf einhver eða einhvers staðar að grípa fólk og gefa því tíma til að vinna úr áföllum. Við vitum samkvæmt rannsóknum að það er áfall að verða vitni að heimilisofbeldi en hvað gerum við fyrir börn sem verða vitni að heimilisofbeldi? Við bíðum eftir því að fólk upplifi alls konar geðræn einkenni og fari út í vímuefnaneyslu sjálft eða þrói með sér bjargráð sem eru ekki samfélagslega samþykkt og bregðumst við með valdbeitingu. Annaðhvort kemur lögreglan og hendir fólki í fangaklefa, eða heilbrigðisstarfmaður lokar fólk inni. Þetta er ekki mannúðleg nálgun. Ég horfi á hlutina frá þessum sjónarhornum.“

„Ef fólk lendir í áföllum í æsku, eða ef fólk býr við ofbeldi, fátækt, áfengis- og vímuefnamisnotkun þá margfaldar það líkurnar á að fólk glími við alls konar veikindi og geðrænar áskoranir seinna á lífsleiðinni.“

Aðspurð um hvað hafi verið gert í öðrum löndum sem við berum okkur saman við í stað nauðungarvistunar segir Helga: „Það er misjafnt milli landa við getum horft til deildar klínískra sálfræðinga í Bretlandi, þeir eru bæði búnir að gefa út bæklinga um að skilja geðrof og geðklofa og svo koma með risastóra skýrslu um valdógnarlíkanið (e. power treat meaning framework), þar sem þeir segja að geðlæknisfræðin, eins góð og læknisfræðin er í að meta
óreglulega starfsemi, þá sé hún ekki mjög góð í að meta tilfinningar og vanlíðan.

Geðlækningar einblíni um of á einstaklinginn og þau einkenni sem hann sýnir án þess að taka þessa umhverfislegu þætti með í reikninginn sem veikja geðheilbrigði á borð við ofbeldi, áföll, mismunun og kúgun.“ Áfallamiðuð nálgun (e. trauma informed practises), lyfjalausar geðdeildir, opin samræða (e. Open Dialogue), fyrir fram gerðir samningar um meðferð (e. advanced directives) og skjólhús (e. Safe House) eru allt aðferðir sem notendur geðheilbrigðisþjónustu hafa barist fyrir og verið er að nota í löndunum í kringum okkur með góðum árangri.“

Væri það eitthvað sem væri hægt að taka upp hér? „Jú, en þetta snýst um fjármagn og sérfræðiþekkingu. Tímum við að setja fjármagn í að sinna veiku fólki á mannúðlegan hátt? Við erum ekki að gera það, það er enginn jaðarsettur hópur að fá fjármagn og þjónustu í samræmi við þarfir, hvað þá heildræna nálgun sem tekur mið af þessum umhverfislegu þáttum. Það er annaðhvort algjör vanræksla, algjör frelsissvipting hér eða innilokun. Við þurfum sérhæft starfsfólk sem er með þessa áfallamiðuðu nálgun og áttar sig á mikilvægi þess að búa fólki öruggar aðstæður, byggja upp traust og gefa fólki val.

Það þarf líka að endurmeta hverjir teljast „sérfræðingarnir“ og treysta því að hver og einn sé sérfræðingurinn í sínu lífi. Þannig þarf að líta á þjónustuna sem samvinnuverkefni en ekki koma inn sem sérfræðingurinn sem veit hvað er öðrum fyrir bestu, þannig er ekki hægt að stuðla að valdeflingu einstaklingsins. Það þarf líka starfsfólk sem kann að róa aðstæður þegar einstaklingur er í uppnámi án þess að grípa til valdbeitingar. Starfsfólk sem skilur hvernig eigin starfshættir geta róað eða vakið upp sterk viðbrögð hjá fólki með mikla áfallasögu. Það eru til alls konar aðferðir en þær krefjast mannafla og nauðsynlegrar þekkingar. Það þarf hins vegar ekki svo mikinn mannafla að hlaupa til og sprauta fólk niður. En svo erum við heldur ekki að árangursmæla þær aðferðir sem notaðar eru. Af hverju þarf geðdeildin ekki að sýna fram á árangur af þessum meðferðum til að fá að beita svo mikilli frelsisskerðingu?“

Aðspurð um hvort það hafi verið rætt af einhverri alvöru aðrar leiðir sem eru mildari gagnvart þeim veika og fjölskyldu hans þegar einstaklingur er hættulegur sjálfum sér, segir Helga að slíkt hafi reyndar verið gert. Notendur í Geðhjálp og Hugarafli berjast fyrir því að við horfum á manneskjuna í heild sinni og að byggt sé á þessum aðferðum sem farnar hafa verið í öðrum löndum en við erum því miður skammt á veg komin með að innleiða fjölbreytileg meðferðarform hér á landi. Helga segir að við séum ansi föst í því að einu sérfræðingarnir sem eigi að hafa eitthvað um þetta að segja séu geðlæknar og þarna kemur mannréttindasjónarhornið sterkt inn því það kristallist í hugmyndafræðinni „ekkert um okkur án okkar“. Þarna þurfum við svo sannarlega að gera betur!“

Texti: Ragnheiður Linnet / Myndir: Hallur Karlsson

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram