George Goldsmith er stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Compass Pathways, alþjóðlegs fyrirtækis sem hefur það að markmiði að leita leiða til að bæta geðheilbrigðiskerfi og meðferðir við geðrænum sjúkdómum. George var staddur hér á landi nýlega og við notuðum tækifærið til að spyrja hann út í meðferð með psilocybin og þann grunn sem hann telur nauðsynlegt að geðheilbrigðisstarfsemi byggi á.
George er frumkvöðull í eðli sínu. Hann hefur víðtæka menntun, er bæði sérhæfður í klínískri sálfræði og vitsmunasálfræði. En hvað varð til þess að hann og kona hans stofnuðu Compass Pathways? „Stjúpsonur minn var mjög greindur og athafnasamur. Þegar hann flutti að heiman og fór í háskóla urðum við vör við að hann varð æ þunglyndari og þróaði með sér þráhyggjuhegðun. Hann var í Bandaríkjunum en við búum á Englandi. Við fengum hjálp handa honum og komum honum að hjá mjög virtum sálfræðingum. Við erum það lánsöm að við höfðum efni á því. Í Bandaríkjunum er það ekki sjálfgefið því heilsa er ekki hluti af réttindum borgaranna.
En við komumst fljótt að því að sífellt var skrifað upp á fleiri lyf handa honum en þau virkuðu ekki á hann. Hann var á þunglyndislyfjum sem höfðu aukaverkanir og lyfin voru farin að skapa fleiri vandamál heldur en upphafleg veikindi hans. Þetta gerist allt of oft þegar fólk þjáist af þunglyndi. Við fréttum af rannsóknum á esketamíni hjá Johnson&Johnsson, bandarísku lyfjafyrirtæki. Esketamín er tegund ketamíns og er gefið í ákveðnum skömmtum við tilteknar aðstæður undir umsjón fagmanna og hefur góð áhrif á suma er þjást af þunglyndi. Stjúpsonur minn fékk slíka meðferð. En ekkert virkar fyrir alla. Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því. Vegna mismunar á líffræði milli einstaklinga erum við öll sérstök og bregðumst við á mismunandi hátt.“
Flestir Íslendingar ólust upp við að heyra að ofskynjunarlyf á borð við LSD, MDMA og fleiri væru stórhættuleg og gætu fleygt manneskjum yfir mörkin og inn í geðveiki. Nú heyrum við hins vegar að hið gagnstæða geti gerst, þau geti fært fólki heilsuna aftur. Rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum þeirra undanfarna áratugi en hversu langt eru þær komnar og er meðferð með psilocybin almennt viðurkennd? „Geðveiki er af öðrum meiði,“ segir George. „Þar er um að ræða einstaklinga sem hafa misst tökin á raunveruleikanum, kunna að heyra raddir líkt og í tilfellum geðklofasjúklinga sem þjást á þann hátt. En það er annar hópur fólks, einstaklingar sem eiga í erfiðleikum í daglegu lífi, eru daprir, fullir iðrunar og hafa í sumum tilfellum gengið í gegnum áföll. Þetta er sá hópur sem við erum að vinna með og það er mjög mikilvægt rannsóknasvið. Þessir einstaklingar beina athygli sinni inn á við í ríkum mæli. Vinátta þeirra og samskipti við aðra er í hættu vegna þess að þeir eru svo uppteknir af eigin tilfinningum. Öll þekkjum við svona fólk.
Psilocybin og hvernig það nýtist fólki með ákveðnar áskoranir hvað varðar geðheilbrigði. Svo margt fólk horfist í augu við slíkt enn frekar nú en áður eftir Covid 19-faraldurinn eftir að hafa verið einangrað, einmana og aðskilið frá öðrum. Við vorum jafnundrandi og aðrir að heyra af árangri slíkra lyfja. Niðurstöðurnar sýna að þetta eru áhrifamikil efni og geta breytt hugarfarinu. Það var hins vegar ekki mikið til af rannsóknum og við spurðum okkur, getum við notað þessi efni á þann hátt að þau hjálpi og hvernig er hægt að koma í veg fyrir hugsanlegan skaða? LSD var búið til árið 1944 og gert að lyfi. Meira en 40.000 manns tók þátt í rannsóknum á áhrifum þess. Það var mikið notað af geðlæknum á árunum frá 1945-1965 og menn töldu það vera gagnlegt til að meðhöndla fíkn, þunglyndi og í líknandi meðferð. Mikið var til af áhugaverðum rannsóknum á virkni þess, sérstaklega í Sviss en psilocybin er lyf sem byggir á virka efninu í Magic Mushrooms.
Árið 1955 heimsótti sveppafræðingur þorp í Mexíkó. Þar héldu menn reglulega svokallaðar töfrasveppaathafnir leiddar af töfralæknum. Hann skrifaði grein um þetta í Life-tímaritið í Bandaríkjunum. Hún fangaði athygli Alberts Hofmans, mannsins sem uppgötvaði LSD, lyfjafræðings hjá svissnesku lyfjafyrirtæki. Hann fékk sveppina senda og tókst að einangra virka efnið, en fyrri rannsóknir hans á LSD hjálpuðu honum að gera það. Fyrirtæki hans framleiddi psilocybin undir heitinu indocybin og hóf rannsóknir á þeim. Þetta er saga sem fáir þekkja því óorð komst snemma á þessi lyf.“
Ástæða þess að óorð komst á lyf af þessu tagi var að þau urðu afþreyingarlyf og fólk tók að neyta þeirra í samkvæmum við alls konar aðstæður og oft í samblandi við önnur áfengi og annars konar lyf og sprengja alvarlegra aukaverkana og skaða sprakk. „Áður en sprengjan sprakk,“ segir George, „og fyrir tíma Timothy Learys höfðu menn skoðað þessi efni sem lyf sem gáfu góðar vonir. En eftir hvellinn urðu þau ólögleg og allar rannsóknir hættu því enginn gat fengið styrki til að stunda þær. Þetta varði til ársins 1996 að FDA samþykkti rannsókn á virka efninu í Ayahuasca eða DMT. Áður hafði verið gerð könnun á því efni árið 1994 og í raun urðu þessar tvær rannsóknir til að ýta aftur úr vör athugunum vísindamanna á áhrifum þessara efna á geðheilbrigði. Johns Hopkins, London Imperial College, Háskólinn í Zürich, Kaliforníuháskóli og Háskólinn í New York hófu allir að skoða þetta í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar. Margir í hópi rannsakenda voru menn í opinberu starfi á vegum Bandaríkjastjórnar og markmið þeirra var fremur að sýna fram á hversu skaðvænleg þau gætu verið fremur en hitt en fljótlega fóru þeir að sjá hversu gagnleg þau voru í vissum tilfellum. Þannig er það að flest sem veldur skaða getur einnig verið gott.“ Sú staðreynd að þessi lyf komust í almenna notkun sem afþreyingardóp hefur sem sagt haldið aftur af framförum í meðferð vissra geðrænna vandamála. „Já, fjörutíu ár dimmra daga vanþekkingar,“ segir hann. „Fjörutíu ár ónauðsynlegra þjáninga sums fólks.“
Að hugsa sér öll þau líf sem hugsanlega hefði verið hægt að bjarga. „Ja, við skulum ekki verða of spennt strax. Gerðar hafa verið litlar rannsóknir, styrktar af einkaaðilum sem höfðu áhuga á þessu sviði, í sumum tilfellum vegna eigin reynslu af geðrænum vandamálum en öðrum vegna reynslu af ofskynjunarlyfjum. Stjórnvöld hafa ekki viljað koma nálægt þessu hingað til. Þær hafa hins vegar sýnt fram á að þetta getur hjálpað fólki sem glímir við þunglyndi, kvíða, streitu og áfallastreitu. Einnig hafa þessi lyf reynst gagnleg fólki sem horfist í augu við dauðann. Öll þurfum við einhvern tíma að horfa fram á endalokin, þótt við vonum að sá dagur komi aldrei er hann óumflýjanlegur. Margir verða mjög kvíðnir og þunglyndir þegar þannig stendur á. Rannsakendur á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar notuðu LSD og psilocybin til að hjálpa þeim. Þeir gáfu fólki þessi lyf í hlýlegu og notalegu umhverfi og fagmaður undirbjó viðkomandi og leiddi hann í gegnum þessa sex klukkustunda reynslu. Daginn eftir var manneskjan spurð: „Hvað upplifðir þú? Hvað sástu?“ Þannig að hún vann úr upplifuninni. Þannig hefur öllum rannsóknum á efnunum verið hátt. Unnið er með þau við mjög stýrðar aðstæður.“
Hvernig virka þessi lyf? „Ef við hugsum um hvernig við lifum lífinu stjórnumst við að mestu af innri rödd. Við spyrjum okkur alls konar spurninga og svörum þeim: Hvað á ég að gera í dag? Hvernig líður mér? Hvað finnst mér um framkomu sonar míns eða dóttur minnar eða maka míns? Þetta köllum við innra samtal. Sumir eiga í jákvæðum innri samskiptum meðan aðrir eru mjög neikvæðir. Þeir spyrja: Hvað er að mér? Hvers vegna gerði ég þessi mistök? Á ég eftir að endurtaka þau? Í sumum tilfellum hefur þessi neikvæða innri rödd niðurbrjótandi áhrif á manneskjuna. Hún þjáist. Svona manneskjur beina athyglinni meira inn á við en aðrir, þær festast í neikvæðu hugsanamynstri og dvelja í hugsunum sínum fremur en í raunveruleikanum.
Áhrif psilocybins eru þau að breyta þessum hugsanaferlum, lyfið gefur fólkinu hlé frá þessum áleitnu og neikvæðu hugsunum. Við sjáum þetta skýrt á heilalínuritum. Í heilanum eru alls konar netkerfi sem geyma fyrri reynslu okkar og skynjanir. Við getum líkt þessum kerfum við Internetið þar sem alls konar upplýsingar leynast og tengjast. Sum okkar festast í hjólförum ákveðinna hugsanaferla. Hugsanlega hefur viðkomandi upplifað eitthvað slæmt sem olli honum þjáningum. Hann telur upp frá því að þannig sé heimurinn og kemst ekki út úr því fari og finnst að alltaf verði allt sársaukafullt og erfitt. Að lokum tekur samtalið yfir líf manneskjunnar. Psilocybin dregur sjáanlega úr þessum boðum í heilanum í þá sex tíma sem áhrif þess vara er einstaklingurinn neyddur til að vera í núinu, hann fær betri yfirsýn yfir líf sitt og getur áttað sig á að líf okkar er saga sem við segjum okkur sjálfum á hverjum degi. Sagan þarf ekki endilega vera sönn. Hún er okkar hugarsmíð. Það þýðir ekki að við berum einhverja sök á eigin líðan. Við semjum öll eins vel og við getum en með því að rjúfa mynstrið er hægt að hjálpa fólki að lifa lífinu til meiri fullnustu. En lyfið skapar það ekki eingöngu, meðferðin snýst ævinlega jafnmikið um lyfið, undirbúninginn og eftirfylgnina. Þegar lyfið er notað til afþreyingar eða til að komast í vímu er þetta samhengi rofið og eftir standa eingöngu lyfjaáhrifin. Þá er hægt að horfast í augu við stórar og erfiðar áskoranir án nokkurs stuðnings.“
Hvernig fer meðferðin fram? „Fólk kemur inn í herbergi sem lítur út eins og stofa á venjulegu heimili. Þar eru legubekkir og stóll fyrir meðferðaraðilann og viðkomandi er beðinn að deila nokkrum orðum um hvernig honum líður. Síðan er honum gefið lyfið og það tekur um það bil þrjátíu til fjörutíu mínútur þar til það fer að virka. Áhrifin byrja með ljósglömpum fyrir augunum og svolitlum breytingum á sjóninni. Þegar það gerist fær fólk augnleppa eins og gjarnan eru notaðir í flugvélum og spilaður lagalisti sem við höfum sett saman. Tónlistin varir í sjö tíma og fólk er beðið að vera í núinu og slaka á en ef það vill spyrja eða deila einhverju endilega gera það. Mikilvægast er að það viti að það er með vinveittan aðila með sér allan tímann en þetta er innra ferðalag sem hefur verið skipulagt á fallegan hátt. Tveir Íslendingar eiga reyndar lög á lagalistanum, Ólafur Arnalds á stóran hluta og Jóhann Jóhannsson heitinn. Það er ekki sungið heldur valin tónlist sem sefar, róar og vekur tilfinningar. Eftir á ræða síðan skjólstæðingur og fagmaður saman um þá reynslu sem viðkomandi upplifði og vinna úr tilfinningunum sem hún vakti.“
Meðferðin virðist sem sagt vera byggð á leiðsögn og samlíðan. Víða byggir meðferð við margvíslegum geðrænum vandamálum á þvingunum og stjórnun. Fagmennirnir vita best og í raun neyða eða skipa skjólstæðingnum að fara eftir ráðleggingum sínum. Eru einhverjar tölur til um árangur af ykkar starfi? „Já, við höfum unnið víða um með stjórnvöldum og með bandaríska lyfjaeftirlitinu FDA að verkefni sem kallast Breakthrough Therapy Designation og þeir telja þetta lofa svo góðu að þeir ætla að veita auknu fé í rannsóknirnar. Við höfum verið í samstarfi við breska lyfjaeftirlitið og það evrópska og ég á fund með íslenskum lyfjayfirvöldum til að kynna starf okkar. Við berum mikla ábyrgð því við viljum ekki horfast í augu við alvarlegar afleiðingar af því sem við erum að gera eftir fjörutíu ár. Við vitum að það eru hundruð milljónir manna um allan heim með þunglyndi sem hefðbundin þunglyndislyf hjálpa ekki. Þetta kann að hjálpa sumum. Það eru engir töfrar hér á ferð þótt margir tengi það orð við psilocybin vegna Magic Mushrooms. Hér er á ferð leið til að hjálpa fólki að horfa á líf sitt frá öðru sjónarhorni og viðhalda því þannig að það skili árangri og raunverulega hjálpi því. En það þarf ekki að vera háður pillu sem tekin er á hverjum degi og það er engum töfrasprota veifað í eitt sinn og allt er leyst. Við getum ekki læknað mannlega tilveru, lífið er þjáningarfullt og býður upp á sársauka og gleði. Við erum hins vegar ekki að gera skjólstæðingum okkar eitthvað heldur að ganga með þeim í gegnum reynslu.“
Að lokum, hvernig reiddi stjúpsyni þínum af eftir sína meðferð? „Hann lifir lífi sínu,“ segir George. „Esketamín hjálpaði honum mikið en hann gekkst líka undir þá meðferð á sjúkrastofnun og undir umsjón fagmanna sem fóru eftir skipulögðu prógrammi. Ekkert hvað þessa meðferð snertir snýst um skemmtun, þetta er læknisfræðileg meðferð þar sem vel er fylgst með öllu, meðal annars skammtastærð. Honum gengur mun betur en hann glímir við hæðir og lægðir eins og allir aðrir. Eitt vandamálið er að fólk sem er dapurt reynir að finna leiðir til að líða betur. Oft leiðir það til einhvers konar fíknar, ofáts, ofneyslu áfengis eða lyfja eða einhvers annars. Það er mjög eðlilegt að fólk reyni að finna aðferð til að draga úr vanlíðan sinni. Með aðstoð lyfja eins og psilocybin getum við boðið annars konar aðferð við að vinna úr vandamálum. Það getur passað sumum mjög vel en öðrum alls ekki.
Eitt af því sem við glímum við er að fólk alls staðar hefur svo mikla þörf fyrir lækningu að það grípur allt tveimur höndum. Þessi meðferð er hins vegar álitlegur kostur en ekki lækning. Og það væri óábyrgt að lofa of miklu. Einmitt það gerðist árið 1966. Ef skoðaðar eru greinar frá þeim tíma er lofið um LSD ótrúlegt. En líkt og gagnvart öllu í lífinu þurfum við að vera forsjál og prófa okkur áfram þar til við finnum öruggu leiðina til að veita aðgang að þessari meðferð. Við gerðum rannsókn á níutíu heilbrigðum einstaklingum og í ljós kom að aukaverkanir af psilocybin voru mjög litlar. Sumir fengu höfuðverk og fundu fyrir svolítilli ógleði en aðeins á meðan áhrif lyfsins vörðu. Hins vegar breytti lyfið litlu í hugsanagangi þeirra eða viðhorfum til lífsins. Þetta var áhrifamikil og áhugaverð reynsla en breytti litlu að öðru leyti. Þegar við prófuðum lyfið á fólki með þunglyndi kom allt annað í ljós vegna þess að það tókst að breyta þessu innra samtali og viðkomandi fékk nýtt tækifæri.“
Verið er að vinna úr alþjóðlegri rannsókn sem George og samstarfsmenn hans hafa unnið að. Í lok árs verða fyrstu niðurstöður birtar og þótt hann vari við of mikilli bjartsýni eða trú á að einhver kraftaverkalækning sé fundin er full ástæða til að búast við að margir geti notið góðs af þessari leið til að meðhöndla þunglyndi, kvíða og fleiri geðræn vandamál.
Texti: Steingerður Steinarsdóttir / Myndir: Hákon Davíð Björnsson