1. september 2023

Er allt í gulu?

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Það er von undirbúningshópsins að gulur september, auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna, sé til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju.

Af hverju gulur september?

Guli liturinn var valinn vegna þess að hann er litur sjálfsvígsforvarna og þessi árstími vegna þess að Alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga er 10. september og Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn er 10. október. Semikomman (;) er kennimerkið fyrir gulan september en táknið er víða notað til að sýna samstöðu með geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Það vísar til framhalds; seiglu og vonar.

Er allt í gulu?

Þetta slagorð var valið fyrir gulan september. Það vísar til samkenndar, þess að láta sig náungann varða og hlúa saman að geðheilsunni. Gulum september er ætlað að vera áminning um hversu mikilvægt það er að leita sér hjálpar ef manni finnst lífið stundum ekki þess virði að lifa því. Það hjálpar að deila líðan sinni með öðrum og að ræða við viðkomandi ef maður hefur áhyggjur af ástvini, vini eða vinnufélaga.

Hvernig er hægt að taka þátt í gulum september?

Við getum hjálpast að við að vekja athygli á gulum september og því sem hann stendur fyrir með því að klæðast gulum fatnaði eða skreyta með gulu, taka þátt í dagskránni eða með því að taka myndir af gulri stemningu, mynd af sjálfum sér, vinum, fjölskyldu, samstarfsfólki, skreytingum eða gulum vörum og deila henni á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #gulurseptember.

Það er alltaf hjálp að fá – höfum samband

Það er alltaf hægt að leita sér aðstoðar, ef fólk hefur áhyggjur af sjálfu sér eða öðrum. Merki um andlega vanlíðan eru til að mynda félagsleg einangrun frá vinum, fjölskyldu og samfélagi, áhættuhegðun, misnotkun áfengis eða annarra vímuefna, skapsveiflur, stuttur þráður, kæruleysi, hvatvísi eða er sama um allt, hugsanir eða tal um tilgangsleysi eða vonleysi, svo dæmi séu tekin.

Hægt er að hafa samband við símaráðgjöf Heilsuveru 1700 og netspjallið heilsuvera.is (opið alla daga frá 8-22), Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið 1717.is (opið allan sólarhringinn) eða Píetasímann 552 2218 (opið allan sólarhringinn), auk þess sem hægt er að afla sér upplýsinga á Sjálfsvíg.is.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram