8. október 2021

Er heimurinn afstaða okkar til hans?

Leiðari eftir Héðinn Unnsteinsson, formann Geðhjálpar

Maðurinn er drifinn áfram af rafmagni – heilinn, hjartað ganga hvoru tveggja fyrir sakir rafmagns – það er spenna í okkur – straumur – tíðni – orka eða á rafmáli; kílóvött. Við fæðumst inn í heiminn – nær oftast afsprengi kærleiks og boðspennu, samruna rafmagns. Svo göngum við jörðina – bindum okkur við hana, yrkjum hana, á meðan himinn hvílir yfir okkur og alheimurinn snýst um sjálfan sig og við með – við erum misstöðugur leiðari milli himins og jarðar. Leiðum og erum leidd áfram eftir því hvernig rafstraumur lífsins í höfði og hjarta efnisgerist og virkjar boðefnin – veldur raski – örvar líf – heldur okkur gangandi.

Í heilum okkar er áætlað að séu á bilinu 84-100 milljarðar taugafrumna – samansettar úr griplum, taugabol og taugasíma – miðlandi – leiðandi – boðandi á taugamótum. Hver taugafruma býður svo upp á allt að 15.000 tengingar- og móttökumöguleika – flókið þrívítt net tenginga. Í því neti býr öll okkar upplifun, vera og afstaða til heimsins – í gegnum til að mynda skynjun, hugsun, ímyndun, sköpun, hugmyndir og aðlögun okkar að lífinu og hvert öðru. Óteljandi mynstur, stjarnfræðilega margir möguleikar.

Allt er nýtt á einhverjum tíma og getur orðið nýtt aftur – allt er mögulegt – allt má endurskilgreina, endurmeta, meira að segja geðheilbrigði og geðheilbrigðiskerfið. Geðheilbrigði okkar er nefnilega svolítið eins og algeimurinn – óendilega vítt, huglægt og nærri óskiljanlegt – sérstaklega þegar notast þarf við sjálft grunn „kerfið“, heilann til að skilja það. Heilinn er svo flókinn, en samt svo einfaldur, þarf í vöku alltaf að hafa eitthvað að hugsa um, getur bara hugsað um eitt í einu og það sem hann hugsar um vex. Lyndissveiflur eru upp að vissu marki eðlilegar – lífið stöðug sveifla frá vanlíðan að vellíðan og öfugt og oft er líðanin best á „miðsvæðinu“.

Vanlíðan er fylgifiskur tilverunnar. En hvar liggja mörkin milli vanlíðanar og of mikillar vanlíðanar, milli vellíðanar og of mikillar vellíðanar? Hvar hefjast klínísk frávik? Hvar er línan? Hversu öðruvísi þarf öðruvísi að vera til að vera öðruvísi? Hver eru þessi hvörf? Hverfumst við ekki öll? – Þung lund og erfitt sinni yfir vetursins dimmu skuggastundir og svo stjórnlítil tengslahugsun að vori og yfir sumarið. En það marka- og stjórnleysi hugans og hugsanna sem getur leitt til annarrar afstöðu til veruleikans en flestra er engu að síður raunverulegt.

En saga frávika, saga meintra raskana á rafstraumi, geðraskanna hefur í orðræðunni farið frá tunglsýki, að geðveiki, geðsjúkdómi, geðröskun og nú síðast geðrænni áskorun eða jafnvel andlegri vanlíðan – hefur víkkað ört á síðustu 150 árum samhliða örri abnormaliseringu normsins. Frá sex frávikum árið 1883 í tæplega 600 í dag samkvæmt DSM5-greiningarkerfinu.

Árið 1950 var það mat stjórnvalda í Bretlandi að 1% íbúa Lundúna byggju við geðröskun, það hlutfall er í dag, 71 ári síðar, áætlað 20%. Getur það verið? Er slík þróun trúverðug? Viðleitni fræðasamfélagsins og fagfólks til að skilja og hjálpa er einskær en vanmátturinn oft alger og tilraunir til aðstoðar of oft háðar hendingum. Ekki má gleyma hagsmunum til að mynda lyfjafyrirtækja, en áætluð ársvelta geðlyfjaiðnaðarins er um 100.000 ma. íslenskra króna. En hvað hefur gerst á síðustu tveimur áratugum: sjúkdómum hefur fjölgað, sjúklingum hefur fjölgað, sjúklingar eru að greinast yngri, tíðni alvarlegra sjúkdóma aukist, innlagnir á spítala aukast – en styttast, lyfjakostnaður hefur margfaldast og geðheilbrigðiskerfið dýrara í rekstri.

Í blaðinu eru áhugaverð viðtöl um mögulega framtíð vitundarvíkkandi efna í geðlæknisfræði við Dr. George Goldsmith, stofnanda og forstjóra Compass Pathways, og Söru Maríu Júlíudóttur, frumkvöðul og nemanda í meðferð með notkun efnanna. Einnig fer Bergþór Grétar Böðvarsson, frumkvöðull og baráttumaður, yfir sögu sína, en hann hefur barist fyrir rétti og bættri meðferð fólks með geðrænar áskoranir í meira en 30 ár.

Árið 1999 tók samfélagið sig saman og ýtti verkefninu Geðrækt úr vör. Þá sögðum við: „Geðheilsa varðar alla. Geðraskanir eru algengar og hafa víðtæk áhrif, tilfinningaleg, samfélagsleg og fjárhagsleg. Geðraskanir er hægt að fyrirbyggja eða draga úr alvarleika þeirra og áhrifum. Til þess þarf geðrækt; að hlúa að geðheilsu og efla hana.“ Þegar litið er á þessa viðleitni nú er ljóst að flestir eru sammála um að okkur sem samfélagi hefur tekist að auka fræðslu og þekkingu á geðröskunum. Að einhverju leyti einnig á orsakaþáttum og vitund um geðheilbrigði.

Tölur um tíðni geðraskana og aukna örorku af þeirra völdum síðustu tuttugu ár benda til mikillar aukningar, samhliða hefur geðlyfjanotkun einnig aukist mikið. Aukning á örorku vegna geðraskanna síðastliðin 30 ár er nærri 250% á sama tíma hefur þjóðinni fjölgað um 43%. Það er mér til efs að okkur hafi tekist að draga úr áhrifum geðraskana á einstaklinga, fjölskyldur eða samfélagið í heild. Mat Landlæknisembættisins á andlegri líðan frá
2007 til 2020 sýnir að henni hefur hrakað mikið fremur en hitt.

„Vanlíðan er fylgifiskur tilverunnar. En hvar liggja mörkin milli vanlíðanar og of mikillar vanlíðanar, milli vellíðanar og of mikillar vellíðanar? Hvar hefjast klínísk frávik? Hvar er línan? Hversu öðruvísi þarf öðruvísi að vera til að vera öðruvísi? Hver eru þessi hvörf? Hverfumst við ekki öll?“

Við vitum ekki nóg um fordóma og mismunun til þess að meta hvort eitthvað hefur áunnist þar. Í hugum margra er alltaf gott að geta staðsett og skilgreint aðila út frá veikasta punkti þeirra – utan hringsins og þannig átt möguleika að mismuna í orði og gjörð er kemur að tengslum, æru, framgangi, virðingu og tilverunni almennt. Tölur um þá fjármuni sem renna af hálfu almannaþjónustunnar til geðheilbrigðismála af þeirri heild sem renna til heilbrigðismála endurspegla heldur ekki umfang geðheilbrigðismála. Áætlað er að umfang málaflokksins sé 30% af heilbrigðismálum en fjárveitingar áætlaðar um 12% af heild. Í ljósi þessa er eðlilegt að álykta að viðleitni okkar til að rækta geðheilsu og vinna með orsakaþætti geðheilbrigðis sé góðra gjalda verð en svo virðist sem okkur verði ekki nægilega ágengt. Við syndum á móti stríðum straumi og ber frekar niður ána en upp.

Eftir að hafa fylgst með fyrrnefndri þróun greiningarkerfisins undanfarin ár er ekki óeðlilegt að álykta að við sem samfélög ættum að staldra við. Geðlæknar og aðrir sérfræðingar, svo sem sérstakur talsmaður Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, hafa velt því fyrir sér hvort greiningarkerfið sé komið of langt, of nærri hverfandi normi, frávikin orðin of mörg og hugmyndafræðinni um að greina raskanir en ekki styrkleika þurfi að snúa við hægt og rólega.

Leggja aukna áherslu á styrkleika manneskjunnar á tímum þegar mennskan virðist eiga undir högg að sækja í samskiptum sínum við hvor aðra í gegnum gervigreindarsniðinn veruleika samfélagsmiðla. Velta því fyrir sér hvort of mikið vald liggi í kerfinu þegar ýmis önnur almannaþjónusta til að mynda í skólum og víðar tekur mið af því. Hvort skilgreiningarnar og „merkimiðarnir“ fylgi manneskjum sem búa oft við tímabundna röskun alla tíð. Fólk er og verður aldrei geðröskun eða sjúkdómur, eins og mörgum til dæmis í fjölmiðlum er tamt að segja þegar geðraskanir eiga í hlut.

Það er því eðlilegt að við sem þjóð lítum nú til ákveðinnar „afsjúkdómavæðingar“, að minnsta kosti „afeinkennavæðingar“. Við megum ekki verða raskanir – megum ekki leyfa orðræðu þeirrar narratívu að ráða. Geðheilbrigði allra kemur fyrst. Við erum ekki kvef, þótt við fáum kvef. (Og kvef er ekki hættulegt).

Samfélag okkar stendur frammi fyrir áskorun. Ljóst er að fé til almannaþjónustu ríkis og sveitarfélaga verður af skornum skammti næstu misserin en allar líkur eru á að þörfin fyrir þjónustuna aukist, biðlistar lengist enn. Nú er mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti og vörn í þeirri merkingu að bæta viðbragðskerfi okkar. Til verksins höfum við hugmyndafræði þar sem raskanir frá heild, frávikin, fá meira vægi og athygli en sú heild (heilbrigði) sem röskunin, frávikið, er dregið af.

Út frá þessari hugmynd og þeim gríðarlegu fjármunum sem liggja í röskunum hafa kerfi okkar þróast. Umræða um þessa þróun – hvort sem við breytum eða ekki – er að mínu mati afar brýn. Við þurfum að vera opin fyrir hugmyndum um framþróun og breytingar. Hvort sem þær hugmyndir snúast um mögulega notkun efna sem um skeið hafa verið utan ramma þess löglega, skjólshús, opnar deildir, umbyltingu á þjónustunni eða það hvernig við bætum tengsl okkar innan samfélagsins, sem eru ein mikilvægasta undirstaða geðheilsu.

Við þurfum að synda á móti straumi og hefja viðsnúninginn frá því að spyrja fólk hvað sé að því og spyrja frekar hvað hafi komið fyrir þau. Einnig ættum við sem allra fyrst að eiga samtal á sameiginlegum vettvangi. Fagfólk, notendur, aðstandendur og fleiri um geðheilsu, geðraskanir, skilgreiningar og almennt þá vegferð sem við erum á. Samtal á sameiginlegum vettvangi Geðráðs.

Öll erum við hluti af sameiginlegu, guðlegu, dreifikerfi rafmagns, boðspennu lífsins. Leiðir aðgreiningar innan þess hafa þróast yfir árhundruð. Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á hugsun, orðum og skilgreiningum aðgreiningar? Því þó að heimurinn sé í okkar hugum afstaða okkar til hans getum við minnt okkur á að raunveruleg tengsl, sameiginleg mennska og sameiginleg afstaða okkar getur skilað okkur nær heimi sem nærist minna á aðgreiningum.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram