Erfðagjafir

 

Æ fleiri kjósa að styðja við ákveðin málefni eða baráttu góðgerðarfélaga með erfðagjöf eftir sinn dag. Geðhjálp hafa borist þónokkrar fyrirspurnir um hvernig slíku sé háttað gagnvart Geðhjálp og öðrum sambærilegum samtökum.

Nokkuð er um að notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigði styðji við baráttu samtaka eins og Geðhjálpar með erfðagjöfum.
Slíkur stuðningur ber vott um einstakan hlýhug og velvilja í garð viðkomandi samtaka.

Besta leiðin til að tryggja að erfðagjafir skili sér til viðkomandi góðgerðarsamtaka er með gerð erfðaskrár. Ef viðkomandi á maka eða börn er honum/henni heimilt samkvæmt erfðalögum að ráðstafa þriðjungi eigna sinna með þeim hætti. Ef viðkomandi á hvorugt er honum/henni heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá.

Hægt er að tengja erfðagjafir almennri starfsemi eða einstökum verkefnum viðkomandi samtaka. Geðhjálp leggur áherslu á að fara í hvívetna að fyrirmælum arfleifanda um ráðstöfun erfðagjafa.

Enginn erfðafjárskattur er greiddur af gjöfum til félagasamtaka eða sjálfeignarstofnana sem starfa að almannaheillum.

Nánari upplýsingar um erfðagjafir veitir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar,  í síma 570 1701.