Maí er alþjóðlegur mánuður geðheilbrigðis en af því tilefni heldur Mental Health Europe geðheilsuviku í fimmta sinn 13. til 19. maí 2024 með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og þess að draga úr fordómum og mismunun fólks með geðrænar áskoranir.
MHE (Mental Health Europe) er í forsvari fyrir geðheilsuvikuna ásamt samstarfsaðilum sínum og samtökum um Evrópu vítt og breitt, sem munu standa fyrir viðburðum og frumkvæði alla vikuna og leggja áherslu á mikilvægi geðheilbrigðis, en frekari dagskrá fyrir vikuna er að finna á mentalhealtheurope.org.
Geðhjálp er fulltrúi Íslands innan samtakanna MHE en þau eru samevrópsk hagsmunasamtök sem vinna að bættri geðheilsu almennings auk þess að berjast sérstaklega fyrir mannréttindum fólks með geðræn vandamál og aðstandenda þeirra. Samtökin vinna auk þess með umönnunar- og þjónustuaðilum að bættri þjónustu. MHE eru regnhlífarsamtök bættrar geðheilsu og réttinda notenda og aðstandenda um alla Evrópu.
Þemað fyrir geðheilsuviku þessa árs er „Betri saman: Sköpum framtíð geðheilbrigðis í sameiningu“. MHE skilgreinir samsköpun (e. co-creation) á eftirfarandi hátt: sem leið fyrir aðila í geðheilbrigðismálum til þess að vinna saman á jafnréttisgrundvelli að því að þróa og innleiða stefnu, þjónustu, áætlanir og samskipti sem stuðla að jákvæðri geðheilsu samkvæmt sálfélagslegu líkani og mannréttindatengdri nálgun.
Evrópsk vika geðheilsu er tækifæri fyrir einstaklinga hvar sem er í Evrópu og víðar til þess að taka þátt í umræðum um ýmsa þætti er viðkoma geðheilbrigðismálum, deila persónulegum sögum af því að glíma við geðrænar áskoranir, leggja áherslu á nauðsyn þess að berjast gegn fordómum, mismunun og útilokun, og standa vörð um góða geðheilsu fyrir alla.