Maí er alþjóðlegur mánuður geðheilbrigðis en af því tilefni heldur Mental Health Europe geðheilsuviku í fjórða sinn 22. til 28. maí 2023 með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi geðheilbrigðis og þess að draga úr fordómum og mismunun fólks með geðrænar áskoranir.
Geðhjálp er fulltrúi Íslands innan samtakanna Mental Health Europe. Það eru samevrópsk hagsmunasamtök sem vinna að bættri geðheilsu almennings auk þess að berjast sérstaklega fyrir mannréttindum fólks með geðræn vandamál og aðstandenda þeirra. Samtökin vinna auk þess með umönnunar- og þjónustuaðilum að bættri þjónustu. Mental Health Europe eru regnhlífarsamtök bættrar geðheilsu og réttinda notenda og aðstandenda um alla Evrópu.
Heimsfaraldurinn, stríðið í Úkraínu og önnur áföll sem hafa dunið á heimsbyggðinni undanfarin ár hafa orðið til þess að valda áður óþekktum áskorunum þegar kemur að geðheilsu fólks. Þær áskoranir gera geðheilbrigði þjóða enn mikilvægara og áherslu þess að einstaklingar og samfélög þrói með sér aukinn skilning á geðheilbrigði og fjárfesti í nauðsynlegum úrræðum til þess að styðja við almenna vellíðan.
Þemað fyrir geðheilsuviku þessa árs er „Geðheilbrigð samfélög“. Geðheilsa er alhliða grunnur að lifandi og blómlegu samfélagi. Í þessari viku er áhersla lögð á að bæta þekkingu fólks á geðheilbrigði þegar kemur að skólum, vinnustöðum, heimilum og samfélaginu í heild, svo að allir fái þrifist á hverju stigi lífs síns.
Miðvikudaginn 24. maí verður viðburðurinn „How Mentally Healthy Communities Can Make Us Thrive“ haldinn á Evrópuþinginu í Brussel þar sem helstu stefnuáherslur verða birtar. Þessar áherslur munu snúast um það hvernig hægt sé að efla samfélög svo að þau taki tillit til allra og séu fær um að aðstoða einstaklinga með þeim stuðningi og kunnáttu sem þeir þarfnast til þess að blómstra.
Áherslurnar miða að því að veita skilning á félagslegum, menningarlegum og tengslaþáttum sem hafa áhrif á geðheilbrigði. Þó svo að einstaklingsfærni sé mikilvæg, verður að gera skipulagsbreytingar til að auka áherslu á verndandi þætti og draga úr áhættuþáttum innan víðtækari mengis félags-, efnahagslegra- og umhverfisáhrifaþátta geðheilbrigðis.
Á meðan á geðheilbrigðisvikunni stendur býður Mental Health Europe upp á fjölbreytt úrval af viðburðum yfir netið sem er ætlað að stuðla að bættri geðheilsu. Meðlimir Mental Health Europe, samstarfsaðilar og samtök um alla Evrópu munu einnig standa fyrir viðburðum og frumkvæði alla vikuna og leggja áherslu á mikilvægi geðheilbrigðis á öllum sviðum lífsins.
Geðheilsuvikan er tækifæri fyrir fólk til þess að koma saman, skiptast á skoðunum um geðheilbrigðismál, deila sögum og vekja athygli á þörfinni fyrir aukna þekkingu á geðheilbrigðismálum á öllum sviðum lífsins. Við hvetjum þig til þess að taka þátt með okkur í því að stuðla að geðheilbrigðum samfélögum um alla Evrópu.