Geðklofi (schizophrenia) hefur ekki einfalda greiningu heldur samanstendur hún af hegðun og einkennum sem hafa verið til staðar meirihluta eins mánaðar, jafnhliða því að ákveðnir þættir hafa verið til staðar í allt að sex mánuði. Hér er aðallega verið að vísa í skerðingu á félagslegum og starfstengdum þáttum.

Einkenni geðklofa ná til fjölda tilfinningalegra og hugrænna þátta þ.m.t. skynjunar, afleiðuhugsunar, tungumáls, samskipta, hegðunarstjórnunar, og talmáls, flæði og sköpun hugsunar, ákvarðanatöku, virkni og eftirtektar. Greining tekur mið af heildarmynd á ástandi einstaklings auk viðmiða um hve hamlandi einkennin sem fram koma eru hvað varðar félagstengsl og atvinnumöguleika.

Á breiðum grunni er hægt að líta svo á að einkenni geðklofa liggi á tveim sviðum, vexti og samdrætti. Vöxturinn felur í sér aukningu eða jafnvel ýktri eðlilegri hæfni á meðan samdrátturinn felur í sér að minnkun eða jafnvel brottfall eðlilegrar hæfni.

Vaxtareinkenni geta falið í sér brenglun í innihaldi hugsana (ranghugmyndir), skynjunar (ofskynjanir), talmáli og hugsunarferli (óskipulegt tal). Þessum vaxtareinkennum er síðan skipt upp í tvo hópa, sem líklegt er að stafi af mismunandi ástæðum. Annars vegar er um að ræða sýkióska vídd sem innibera ofskynjanir og ranghugmyndir. Hins vegar er um að ræða óskipulega vídd sem stuðlar að óskipulegri hegðun og tali.

Samdráttareinkennin innibera hömlur í vídd og dýpt tilfinningarlegra tengsla (affective flattening), í flæði og myndun orða og hugsana (alogia) og framkvæmd, skipulagningu og hegðun sem hefur markmið (avoliation).

Í ljósi þess hve birtingarmynd geðklofa er margþætt og mismunandi eftir einstaklingum er hægt að líta á geðklofa sem sjúkdómsheilkenni, sem þýðir að einkennin eru margvísleg og einstaklingsbundin. Dæmigerð einkenni geðklofa geta komið fram í öðrum geröskunum, svo sem eins og ranghugmyndum í oflætiskasti geðhvarfa sjúklings og erfiðleikum með tilfinningatengsl þess sem er þjakaður af þunglyndi.
Helstu einkenni geðklofa eru:

 • Ranghugmyndir, ofskynjanir og óskipulegt tal
 • Tilfinningaleg flatneskja, sést oft á litlum svipbrigðum
 • Málfar verður hikstandi og óskipulagt
 • Ósamhæfni hreyfinga, stífni í hreyfingum og jafnvel stjarfi
 • Hreyfingar stuðla ekki að því að einstaklingur framkvæmi það sem hann ætlaði eða átti að gera
 • Fælni og ofsahræðsla gagnvart umhverfinu
 • Félagsleg einangrun og lítil tengsl
 • Minnkuð virkni, hægagangur og áhugaleysi
 • Einbeitingarleysi
 • Viðvarandi kvíði
 • Þunglyndi
 • Sjálfsvígsatferli
 • Líkamleg vanhirða
 • Hreinlæti bæði líkamlegu og nánasta umhverfi verður verulega ábótavant

Hafa ber í huga að við greiningu á geðklofa þá hefur alvarleiki hegðunar eða hugrofsins veruleg áhrif á greiningu, þar sem t.a.m. það getur nægt að einstaklingur fái alvarlegar ofskynjanir (sem eru ekki tilkomnar vegna neyslu (eiturlyfja) til að vera greindur með geðklofa.

Sjúkdómurinn hefst að meðaltali rétt eftir tvítugt hjá körlum og rétt fyrir þrítugt hjá konum. Stundum hefst sjúkdómurinn með látum, alvarlegu kasti, en í flestum tilfellum er aðdragandi að fyrsta kastinu til staðar. Þetta sést oft ef litið er til baka. Einkenni eins og það að draga úr félagslegu samneyti, missa áhuga á skóla eða vinnu, minnkað hreinlæti, óvenjuleg hegðun og reiðiköst, geta verið mælistikur á þróun sjúkdómsins. Það er þó oft ekki fyrr en virkir þættir koma fram í hegðun einstaklingsins að hægt er að festa fingur á að viðkomandi sé með geðklofa.
Á Íslandi er talið að um 1% landsmanna sé með geðklofa. Því miður er geðklofi kannski sú geðröskun / geðfötlun sem helst verður fyrir neikvæðum viðbrögðum í samfélaginu. Hinar ýktu birtingarmyndir geðklofa verða frekar fyrir umræðu og aðkasti en nokkur önnur hegðunarfrávik. Almenningur virðist oft halda að fólk með geðklofa sé ofbeldishneigt, en rannsóknir sýna að tíðni slíkrar hegðunar er ekki meiri heldur en gengur og gerist á meðal almennings. Hins vegar er einstaklingum sem þjást af geðklofa hættara við sjálfsvígi og þó sérstaklega ungum karlmönnum, en almennt gerist.

Á undanförnum árum hefur náðst verulegur árangur í meðferð fyrir einstaklinga með geðklofa. Meðferð stuðlar að bættum lífsgæðum til handa einstaklingum með geðklofa. Hún miðar oft að því að ná tökum á einkennum sjúkdómsins auk þess sem mikið kapp er lagt á að viðhalda tengslaneti við aðstandendur og vini.

Ívar Rafn Jónsson sálfræðikennari í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ gaf út rafbók á dögunum sem hægt er að sækja frítt á netinu. Rafbókin er reynslusaga Garðars Sölva Helgasonar, sem hefur glímt við geðsjúkdóminn geðklofa frá unga aldri. Garðar veiktist mjög ungur og í kjölfarið skertust tækifæri hans til þátttöku í daglegu lífi í samfélaginu. Saga hans er í senn falleg, fræðandi og gefur góða innsýn í reynsluheim manns með geðklofa. Í bókinni gerir hann ítarlega grein fyrir veikindum sínum, aðdraganda þeirra og hvernig hann á hverjum degi með atferliskerfi, sem hann þróaði sjálfur, tekst á við sjúkdóminn. Í sögunni lýsir hann því hvernig lífið hrundi við að veikjast og upplifun sinni á að lifa með sjúkdómnum.
Á heimasíðu bókarinnar er hægt að finna fræðsluefni, myndbönd og umbunarkerfi Garðars Sölva.
http://glimtvidgedklofa.wix.com/glimtvidgedklofa

 

Nánar má lesa um geðklofa á vefnum undir leitarorðunum:

Geðklofi
Schizophrenia