Flestir sem verða fyrir einhvers konar áfalli finna fyrir tímabundinni andlegri vanlíðan sem veldur þó ekki varanlegum skaða. Flestir ná að vinna sig úr vandanum og geta haldið áfram að lifa á svipaðan hátt og þeir gerðu fyrir áfallið.

Áfallaröskun eða áfallastreita birtist oftast eftir að einstaklingur hefur upplifað atburð sem ógnar lífi, heilsu eða öryggi. Viðbrögðin einkennast af skelfingu, hjálparleysi eða hryllingi. Til að áfallaröskun sé greind sem geðröskun, en ekki sem tímabundin eðlileg viðbrögð, þurfa einkennin að hafa verið til staðar í a.m.k. 6 vikur. Í flestum tilfellum er meðferð árangursrík.

Eftirfarandi einkenni fylgja oft áfallaröskun:

 • Stöðugar hugsanir um eða endurupplifun áfallsins
 • Martraðir og slæmir draumar
 • Hræðsla um að atburður endurtaki sig
 • Ofsafengin tilfinningaleg og líkamleg viðbrögð við atburðum og hlutum sem minna á áfallið
 • Fælni við allt sem minnir á áfallið
 • Skert minni og einbeiting
 • Tilfinningalegur doði
 • Styttri framtíðarsýn og hræðsla við að vona
 • Stöðug andleg og líkamleg spenna
 • Svefnörðugleikar
 • Pirringur og reiðiköst
 • Að vera í stöðugri viðbragðsstöðu

Hafið í huga við þessa lesningu að ofangreind viðbrögð þurfa að hafa varað í a.m.k. 6 vikur og að þau verða að hafa skerðandi áhrif á lífsgæði viðkomandi.

Nánar má lesa um áfallaröskun á vefnum undir leitarorðunum:

Áfallaröskun
Áfallastreituröskun
Post Traumatic stress disorder