Ofsakvíði (eða felmtursröskun) er óskaplega óþægilegur og hamlandi kvilli sem einkennist meðal annars af hræðslu, hröðum hjartslætti, skelfingu, feigðartilfinningu og svima. Um átta af hverjum fimm hundruð (1,6%) þjást af ofsakvíða einhvern tímann á ævinni, og þar af eru tvöfalt fleiri konur en karlar. Röskunin kemur yfirleitt fram snemma á fullorðinsárum, en getur einnig komið fram hjá börnum og eldra fólki. Ofsakvíði fyrirfinnst um allan heim og hrjáir fólk af öllum stéttum og þjóðernum, þótt einkennin virðist að einhverju leyti menningarbundin. Sumir fá eitt kast yfir ævina og aðrir fá kast öðru hverju án þess að það hafi teljandi áhrif á daglegt líf þeirra. Það kannast allir við að vera áhyggjufullir, taugastrekktir og kvíðnir af og til, en lögð skal áhersla á það að tilfinningarnar sem fylgja ofsakvíða eru af allt annarri styrkleikagráðu. Þær eru gjarnan svo yfirþyrmandi og ógnvekjandi að viðkomandi er sannfærður um að hann sé að deyja, missa vitið eða verða sér til ævarandi skammar, þótt í raun sé að sjálfsögðu lítil hætta á slíkum ógnar afleiðingum.  Þegar um eiginlega röskun er að ræða eru köstin hins vegar þrálát og regluleg og valda miklum þjáningum og félagslegum hömlum.

Horfurnar eru þó góðar, því meðferðir hafa reynst afar áhrifaríkar, og er því afskaplega mikilvægt að fólk sem þjáist af ofsakvíða leiti sér upplýsinga um vandann og nýti sér þær meðferðir sem eru í boði. ef meðferð er veitt nógu snemma má koma í veg fyrir að ofsakvíði nái efri stigum og víðáttufælni þróist.

Hugræn atferlismeðferð og  lyf hafa reynst vel til að meðhöndla ofsakvíða.
Margir telja að samsettar meðferðir, þar sem lyf eru gefin samhliða hugrænni atferlismeðferð, gefi bestan og varanlegastan árangur á skemmstum tíma. Misjafnt er hvað reynist hverjum og einum best og hafi enginn árangur náðst að sex til átta vikum liðnum er mælt með því að meðferðaráætlun sé endurskoðuð. Mikilvægt er einnig að gangast undir læknisskoðun þvíi ofgnótt af skjaldkirtilshormóni, ákveðnar gerðir flogaveiki og hjartsláttartruflanir geta valdið einkennum sem svipar til einkenna ofsakvíða.

Einkenni ofsakvíða
Sum eða öll eftirfarandi einkenni komið fram í kvíðakasti:

 • Skelfing og vanmáttarkennd – tilfinning um að eitthvað hræðilegt sé um það bil að gerast.
 • Hraður hjartsláttur
 • Brjóstsviði
 • Svimi
 • Ógleði
 • Öndunarerfiðleikar
 • Doði í höndum
 • Roði og hiti í andliti eða hrollur
 • Tilfinning um að maður sé að missa sjónar á veruleikanum
 • Ótti við að glata sjálfsstjórn, missa vitið eða verða sér til skammar
 • Feigðartilfinning

Endurtekin ofsakvíðaköst valda gjarnan mikilli hræðslu við frekari köst, og líf einstaklingsins getur orðið undirlagt af ótta og kvíða inn á milli kastanna. Oft fælist fólk einnig þær aðstæður sem kvíðakast hefur orðið við og forðast þær í lengstu lög. Til dæmis verður fólk sem upplifað hefur kvíðakast undir stýri oft mjög hrætt við að keyra.

Hér að neðan eru nokkrar aðferðir til að takast á við ofsakvíða

 • Mundu að þótt tilfinningar þínar og einkenni séu ógnvekjandi er þér ekki hætta búin.
 • Áttaðu þig á því að Það sem þú ert að upplifa er ekki annað en ýkt líkamleg viðbrögð við streitu.
 • Ekki streitast á móti tilfinningum þínum eða óska þess að þær hverfi. Eftir því sem þú ert staðráðnari í að horfast í augu við þær, þeim mun veikari verða þær.
 • Ekki auka á uppnám þitt með því að hugsa um það sem “gæti” gerst. Ef þú stendur þig að því að hugsa “hvað ef…?”, skaltu svara með því að hugsa “og hvað með það?”.
 • Einbeittu þér að stað og stund. Taktu eftir því sem raunverulega er að gerast í stað þess að hugsa um hvað gæti gerst.
 • Reyndu að meta ótta þinn á skalanum 1-10 og fylgstu með því hvernig hann rénar og færist í aukana. Taktu eftir því að óttinn nær ekki hæstu stigum nema í örfáar sekúndur í senn.
 • Þegar þú stendur þig að því að hugsa um óttann skaltu forðast “hvað ef” hugsanir. Einbeittu þér að einföldum verkefnum í staðinn, svo sem eins og að telja niður frá hundrað í þriggja eininga skrefum (100, 97, 94…).
 • Taktu eftir því að óttinn fer að dvína þegar þú hættir að hugsa ógnvekjandi hugsanir.
 • Þegar hræðslan færist yfir þig skaltu vera við henni búin og sætta þig við hana. Bíddu og leyfðu skelfingunni að ganga yfir í stað þess að reyna að komast undan henni.
 • Vertu stolt/ur yfir framförum þínum og hugsaðu um hversu vel þér mun líða þegar allt er afstaðið.

 

 

Fylgikvillar

Algengir fylgifiskar ofsakvíða eru sértæk fælni þar sem óstjórnleg og órökræn hræðsla við ákveðna atburði eða aðstæður sem það tengir kvíðaköstunum, félagsfælni sem er þrálátur ótti við félagslegar aðstæður og um helmingur fólks með ofsakvíða þjáist af þunglyndi einhverntímann á ævinni. Um þriðjungur ofsakvíðasjúklinga á við drykkjuvanda að stríða. Þegar áfengisvandi fer saman með ofsakvíða þarf að meðhöndla hann sérstaklega. Eins er misnotkun lyfja tíðari meðal fólks sem þjáist af ofsakvíða og oft þarf að leysa lyfjavandann áður en meðferð við ofsakvíðanum hefst.
Nýlegar rannsóknir gefa til kynna að ofsakvíði auki hættu á sjálfsvígum, sérstaklega ef hann fer saman með þunglyndi. Ef sjálfsvígstilhneiginga verður vart skal samstundis leita faglegrar ráðgjafar. Með viðeigandi ráðgjöf og meðferðum má koma í veg fyrir að illa fari. Líkamleg einkenni eins og ristilkrampar hrjá oft einstaklinga með ofsakvíða og vegna þess hversu áberandi einkennin eru, láist stundum að greina ofsakvíðann hjá þessum einstaklingum.

Hvað veldur ofsakvíða?

Ofsakvíði gengur í ættir, til dæmis hefur komið í ljós að einstaklingur er líklegri til þess að þjást af ofsakvíða ef hann á eineggja tvíbura með ofsakvíða heldur en ef foreldri hans, systkini eða tvíeggja tvíburi þjáist af ofsakvíða. Rannsóknir hafa bent til þess að ofsakvíði kunni að tengjast aukinni virkni í dreka (hippocampus) og coeruleus kjarna (locus coeruleus), svæðum í heila sem bregðast við áreitum frá líkama og umhverfi. Einnig hefur verið sýnt að nýrnakerfið er óeðlilega virkt í fólki sem þjáist af ofsakvíða, en það stjórnar til dæmis hjartsláttarhraða og líkamshita. Þó er ekki ljóst hvort þessi aukna virkni sé orsök eða afleiðing einkenna ofsakvíða.

Aðrar rannsóknir hafa bent til þess að ofsakvíði kunni að stafa af afbrigðileika í benzodiazepín viðtakanemum (benzodiazepine receptors), heilafrumum sem eru viðriðnar losun kvíðastillandi efna.

Hvert er hægt að leita sér hjálpar?

Eins og greint er frá hér að framan hafa bæði lyfjameðferðir og hugrænar atferlismeðferðir reynst áhrifaríkar lausnir við ofsakvíða. Strangt til tekið er öllum læknum heimilt að ávísa geðlyfjum, en ráðlegt er að leitað sé til læknis sem er sérfróður um ofsakvíða svo að greining og meðferðarval verði eins og best er á kosið. Að sama skapi ætti einungis að leita hugrænnar atferlismeðferðar hjá sálfræðingi eða öðrum fulltrúa heilbrigðisstéttarinnar sem hefur tilhlíta sérhæfingu og reynslu. Eftirtaldir aðilar og stofnanir ættu að geta vísað á sérhæfða meðferðaraðila:

 • Heimilislæknar og aðrir læknar
 • Geðheilbrigðisstarfsmenn, svo sem geðlæknar og sálfræðingar.
 • Heilsugæslustöðvar
 • Geðdeildir sjúkrahúsa
 • Geðheilbrigðissamtök, svo sem Geðhjálp

Sjálfshjálparhópar og stuðningshópar eru ódýrar meðferðarleiðir sem geta reynst sumum gagnlegar. Venjulega er um að ræða 5-10 manna hóp sem hittist reglulega til að ræða vandann og miðla ráðleggingum og stuðningi.