Í almennri umræðu hættir fólki til að rugla saman eðlilegum skaplægðum sem m.a. geta stafað af atburðum í lífi einstaklinga og depurð eða þunglyndi. Þegar einstaklingur missir vinnu ellegar missir ástvin er eðlilegt að geðið þyngist og lundin með. Slík viðbrögð teljast eðlileg.Samkvæmt upplýsingum frá Landlæknisembættinu er talið að 1 af hverjum 5 upplifi depurð eða þunglyndi einhvern tíman á ævinni.  Á Íslandi þjást 12-15 þúsund manns af þunglyndi á hverjum tíma svo dæmi sé tekið. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telur þunglyndi vera fjórða stærsta heilbrigðisvandamál heimsins og að það virðist fara vaxandi.Rannsóknir benda til þess að konum sé hættara við að þróa með sér þunglyndi en karlar.

Þegar rætt er um þunglyndi þá er vísað í lengri tímabil þar sem andleg vanlíðan er farin að há viðkomandi í daglegu lífi. Samkvæmt greiningarviðmiðum þá er rætt um að þunglyndi sé komið þegar einstaklingur er þjakaður af depurð í a.m.k. tvær vikur samfleytt. Þetta þýðir að viðkomandi hefur misst áhuga og / eða ánægju á nærri öllum sviðum lífs síns. Hafið í huga að hér er um að ræða verulega skerðingu á lífsgæðum sökum geðlægðar.

Þunglyndi getur verið skilgreint sem stöðugt lækkað geðslag þar sem einstaklingurinn hefur misst hæfileikann til þess að gleðjast yfir hlutum og atburðum sem áður vöktu ánægju. Þessu fylgir einnig vonleysi um að líðanin muni batna.

Helstu einkenni þunglyndis eru:

  • Þreyta og / eða líkamlegir verkir
  • Skortur á frumkvæði
  • Erfiðleikar með að taka ákvarðanir
  • Pirringur og reiði
  • Svefntruflanir
  • Breytingar á matarlyst
  • Breytingar á kynþörf
  • Sjálfseyðandi hegðun
  • Sjálfsvígshugsanir / sjálfsvígsatferli

Engin ein skýring virðist vera á þunglyndi, heldur er líklegt að um samspil margra þátta sé að ræða. Sálfræðilegir þættir, umhverfisþættir, líkamlegir sjúkdómar og líkamlegt ástand, erfðir, streita, aukaverkanir lyfja, aðrar geðraskanir og vímuefnaneysla eru þeir þættir sem geta haft áhrif á hvort þunglyndi þróast.

Meðferðir við þunglyndi eru árangursríkar og geta veitt góðan bata.Rannsóknir benda til að blönduð meðferð, þ.e. lyfja og hugræn atferlismeðferð skili hvað bestum árangri.

Nánar má lesa um þunglyndi á vefnum undir leitarorðunum:

Depurð
Þunglyndi
Depression
Mood disorder