7. september 2022

Fræðsludagskrá Geðhjálpar veturinn 2022-2023

Geðhjálp mun í vetur standa fyrir fræðsludagskrá um geðheilbrigðismál í vetur. Erindin verða haldin í sal Hlutaverkaseturs í Borgartúni 1, 105 Reykjavík kl. 20:00 og fara fram einn þriðjudag í mánuði, auk þess sem þau verða einnig í beinu streymi á Facebook síðu Geðhjálpar. Boðið verður upp á kaffi og spjall að fyrirlestrunum loknum.

27. september kl 20:00
Kynning á nýrri meðferð við meðferðarþráu þunglyndi: TMS – Dagur Bjarnason geðlæknir

Heilaörvunarmiðstöðin (HÖM) er ný meðferðareining innan Geðheilsuteyma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en þar er nú er veitt svokölluð TMS-meðferð við meðferðarþráu (unipolar) þunglyndi. TMS er skammstöfun á því sem á ensku nefnist Transcranial Magnetic Stimulation sem þýða mætti sem segulörvunarmeðferð á heila en meðferð beinist að afmörkuðu svæði heilans og hefur ekki bein áhrif á önnur líffærakerfi, ólíkt t.d. virkni margra lyfja.

TMS-meðferð er ekki ífarandi sem þýðir að meðferðin krefst hvorki svæfingar, deyfingar né skurðaðgerðar. Skjólstæðingur er vakandi meðan á meðferð stendur og getur haldið sína leið að meðferð lokinni. TMS-meðferð byggir á endurtekningu og krefst þess að skjólstæðingar mæti í meðferð alla virka daga vikunnar í fjórar til sex vikur. Sumir finna fljótt fyrir breytingu á líðan á meðan áhrifin koma seinna hjá öðrum.

25. október kl 20:00
Meðvirkni: „Hvað er það eiginlega?“ – Anna Sigríður Pálsdóttir ráðgjafi

Meðvirkni er alvarlegt vandamál sem snertir flestalla strengi lífs þeirra sem við hana etja. Hún er falin, sorgleg, öflug, lamandi, eyðandi og vekur upp fjölmargar vondar tilfinningar innra með okkur. Hugtakið meðvirkni er mikið notað og áhugi fyrir því hefur aldrei verið meiri. Þó svo að margir telji sig vita hverjar birtingamyndir meðvirkni geta verið þá vita fáir hver raunveruleg orsök hennar er og hvað hún hefur mikil áhrif á öll okkar sambönd, samskipti og líðan.

Meðal þeirra tilfinninga, upplifana og erfiðleika sem meðvirkni getur skapað eru skömm, öryggisleysi, undanlátsemi, framtaksleysi, þunglyndi, sektarkennd, samskiptaörðugleikar, vandi í samböndum, ótti við álit annarra, stjórnsemi, fíknir, tómleiki og lágt sjálfsmat svo eitthvað sé nefnt.

29. nóvember kl 20:00
Áföll, EMDR og listmeðferð – Rósa Richter sálfræðingur og listmeðferðarfræðingur

Í þessum fyrirlestri mun Rósa fjalla um áföll, hvað veldur þeim, afleiðingar þeirra og hvernig er hægt að öðlast bata eftir þau. Hún lýsir EMDR áfallameðferð, uppruna meðferðarinnar og árangur hennar. Rósa mun einnig lýsa EMDR meðferð fyrir hópa, og hvernig listmeðferð er vafið saman við EMDR meðferð í hópvinnu. Rósa mun kenna virka aðferð til að draga úr bæði andlegri og líkamlegri vanlíðan.

17. janúar kl 20:00
Samskipti foreldra og barna – Elísabet Ýrr Steinarsdóttir fjölskyldufræðingur

Krefjandi hegðun og skapofsaköst ungra barna er eitt af því erfiðasta sem foreldrar upplifa, það er slítandi, erfitt og oft á tíðum mjög mikill streituvaldur sem getur haft áhrif á samskipti í fjölskyldum. Með bættum samskiptum og sjálfsskoðun má stuðla að góðri tengslamyndun, minni streitu og meiri hamingju í foreldrahlutverkinu. Farið verður yfir tengslamyndun, mögulega streituvalda, samskipti, heilbrigð mörk, bjargráð og sjálfsmildi.

21. febrúar kl 20:00
Atvinnuþátttaka og virkni: Fræðsla um vinnumarkaðinn, fjölgun hlutastarfa og hvernig berum við okkur að – Hlynur Jónasson atvinnuráðgjafi á Geðsviði LSH

Hlynur Jónsson hefur mikinn áhuga á því að stuðla að aukinni þátttöku í atvinnulífinu en hann hefur starfað við atvinnuráðgjöf með Geðsviði LSH eftir IPS hugmyndafræðinni í sex ár, auk þess sem hann hefur síðastliðin ár starfað við innleiðingu þessarar hugmyndafræði hjá Velferðarsviði Reykjavíkur fyrir mun breiðari hóp.

28. mars kl. 20:00
Börn foreldra með geðrænan vanda – Okkar heimur

Sigríður Gísladóttir, framkvæmdastjóri og Þórunn Edda Sigurjónsdóttir, félagsráðgjafi hjá Okkar heimi munu fjalla um börn foreldra með geðrænan vanda en Okkar heimur starfar í þágu barna sem eiga foreldra með geðvanda. Farið verður yfir stöðu þessa hóps hér á landi, neikvæð áhrif, verndandi þætti og starfsemi Okkar heims verður kynnt.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram