Geðhjálp mun standa fyrir fræðsludagskrá um geðheilbrigðismál í vetur. Erindin verða haldin í sal Hlutaverkaseturs í Borgartúni 1, 105 Reykjavík kl. 20:00 og fara fram einn þriðjudag í mánuði, auk þess sem þau verða einnig í beinu streymi á Facebook síðu Geðhjálpar. Boðið verður upp á kaffi og spjall að fyrirlestrunum loknum.
19. september kl 20:00
„Áfall, hvað svo?“ – Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri
Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, fjallar um áföll, afleiðingar þeirra og mismunandi heildrænar leiðir til úrvinnslu og samþættar (e. integrative) meðferðir. Hún mun einnig fjalla um ACE-spurningalistann (e. Adverse Childhood Experience), þar sem spurt er um erfiða upplifun í æsku og mikilvægi hans í starfi fagfólks.
Sigrún er fædd og uppalin á Ísafirði en hún hefur m.a. starfað sem lögregluþjónn, hjúkrunarfræðingur, aðstoðarrektor við Kvikmyndaskóla Íslands og sem jógakennari. Sigrún er með doktorsgráðu í hjúkrunarfræði og fjalla rannsóknir hennar um áhrif ofbeldis í æsku á líf og heilsu á fullorðinsárum. Hún hefur m.a. haft yfirumsjón og skipulagt námskeið á meistarastigi um sálræn áföll, ofbeldi og áfallamiðaða nálgun.
17. október kl 20:00
Bataskóli Íslands: Þróun og starfsemi – Helga Arnardóttir, verkefnastjóri Bataskólans, Sigrún Sigurðardóttir, starfsmaður og jafningjafræðari hjá Bataskólanum og Kristján Örn Friðjónsson, jafningjafræðari og fyrrum nemandi hjá Bataskólanum
Bataskólinn byggir á svo kallaðri batahugmyndafræði og eru sambærilegir skólar (e. recovery college) starfræktir víða um heim. Fyrstu bataskólarnir voru stofnaðir í Bandaríkjunum í kringum 1990 og á næstu áratugum voru sambærilegir skólar stofnaðir víða um heim, en Bataskóli Íslands er byggður upp af fyrirmynd Nottingham Recovery College og er starfræktur í samstarfi við hann. Kristján Örn Friðjónsson segir frá reynslu sinni sem fyrrum nemandi og núverandi jafningjafræðari hjá skólanum.
21. nóvember kl 20:00
Jafningjastuðningur í geðheilbrigðisgeiranum – Nína Eck, teymisstjóri jafningja á Landspítala og IPS þjálfari
Jafningjastuðningur er ákveðin aðferð eða tækni til samskipta, stunduð víða um heim með góðum árangri í margvíslegu samhengi. Aðferðin gengur meðal annars út á að einstaklingur nýtir bæði þjálfunina og sína eigin reynslu af erfiðum tímum til þess að tengjast og styðja aðra einstaklinga.
Intentional Peer Support jafningjanámskeiðin eru að mörgu leyti vannýtt auðlind. Námskeiðið kennir fólki ekki aðeins að byggja upp sambönd sem byggja á sameiginlegri ábyrgð, samkennd og trausti í atvinnuskyni, heldur læra nemendur einnig hversu mikilvæg slík sambönd eru fyrir okkur sem mannverur og hvernig lífsreynsla okkar hefur áhrif á getu okkar og vilja til þess að eiga uppbyggileg sambönd.
Þetta hljómar allt kannski frekar vel og skemmtilega, en hvernig nákvæmlega er þessi tengslaaðferð? Hvernig vinna jafningjar í Geðþjónustu Landspítala? Hvaða hlutverki sinna jafningjar innan stofnunarinnar? Nína Eck er teymisstjóri jafningja í Geðþjónustu Landspítala, meistaranemi til starfsréttinda í félagsráðgjöf og Intentional Peer Support þjálfari. Hún hefur reynslu sem fyrrum notandi geðheilbrigðisþjónustu en hún hefur meðal annars verið greind með jaðarpersónuleikaröskun og hefur 15 ára reynslu af sjálfsvígshugsunum.
16. janúar kl 20:00
TRE: áhrifarík leið til að takast á við líkamlega og andlega streitu – Svava Brooks, TRE leiðbeinandi
TRE® (Tension, Stress & Trauma Releasing Excersises) er leið til að hjálpa líkamanum að losa um spennu, streitu og áföll sem liggja djúpt í vöðvum líkamans. Viðbrögð við streitu og áföllum orsakast af uppsafnaðri, ólosaðri spennu (lífefnafræðilegri orku) sem myndast þegar streitan eða áfallið á sér stað. Með TRE er hægt að virkja náttúrlega slökunarferli líkamans, styrkja flökkutaugina, byggja up seiglu og þolmörk til að takast á við daglegt líf sem og efla einstaklinga í streitustjórnun.
Farið verður yfir áhrif streitu á líf og líðan, hvernig unnið er með streitu og varnarviðbrögð líkamans og mikilvægi psoas/lundarvöðvans þegar unnið er með taugakerfið. Minna er meira þegar kemur að því að vinna með líkamann og munu hlustendur læra einfaldar aðferðir til að auka tengingu við líkamann sem með reglulegri notkun geta haft mikilvæg áhrif á heilsu og líðan.
20. febrúar kl 20:00 – AFLÝST
19. mars kl. 20:00
Bati góðgerðarfélag kynnir Batahús og Breathwork – Agnar Bragason og Guðrún Ebba Ólafsdóttir forstöðumenn Batahúsanna og Theódór Gunnar Smith öndunarleiðbeinandi
Tilgangur Bata er að aðstoða þau sem hafa þurft að sæta réttargæslu við að komast út í samfélagið að nýju að lokinni afplánun með fræðslu, útvegun atvinnu og húsaskjóli. Bati rekur tvö Batahús, annað fyrir karla og hitt fyrir konur. Batahúsin er einstaklingsmiðað bataúrræði við enda afplánunar, unnið er með einstaklingum á jafningjagrundvelli út frá hugmyndum um áfallamiðaða nálgun.
Eitt af megin markmiðum Batahúsanna er að skapa aðstæður þannig að einstaklingur geti beint sjónum sínum frá neyslu og afbrotum og að sjálfsstyrkingu, vinnu, námi og samfélagslegri virkni. Aðstæður eru skapaðar með virðingu og kærleik að leiðarljósi.
Öndunartækni (e. Breathwork) er sérsmíðuð til að vinna úr áföllum, sleppa tökunum á fortíðinni, fyrirgefa sjálfum okkur og öðrum. Eftir 15 mín af öndun erum við komin í dáleiðslu ástand þar sem við erum eins og svampar fyrir nýjum hugmyndum og höfum aðgang að undirmeðvitundinni þar sem margt sem við höfum byrgt inni í okkur leynist.
23. apríl kl. 20:00 – AFLÝST