27. desember 2021

Framtíð geðheilbrigðismála

Á hverjum degi síðastliðna 22 mánuði hafa íslensk stjórnvöld birt tölulegar upplýsingar um Covid-faraldurinn. Hversu margir greinast, eru í sóttkví, eru inniliggjandi, eru á gjörgæslu, eru á öndunarvél og hafa látist. Haldnir hafa verið hundruð upplýsingafunda og að afloknum nær öllum ríkisstjórnarfundum tímabilsins inna fjölmiðlar ráðherra viðbragða við minnisblöðum sóttvarnarlæknis.

Hvað veldur því að við sem samfélag tökum á faraldri sem hefur dregið samtals 37 til dauða á 22 mánuðum með þeim hætti sem við gerum? Á sama tíma hafa tæplega 100 manns tekið eigið líf og fleiri hundruð látist vegna fjölþættra afleiðinga fíknar.

Engir upplýsingafundir hafa verið haldnir, fá minnisblöð skrifuð, ekki efnt til markvissra mótvægisaðgerða né samfélagið stöðvað til þess að fyrirbyggja þau dauðsföll.

Covid-faraldurinn er vissulega erfiður viðureignar og áskorun fyrir heilbrigðiskerfið en 30 af þeim 37 sem hafa látist af völdum Covid voru eldri en 70 ára, 20 eldri en 80 ára og þrír yngri en 60 ára. Til samanburðar voru 35 af þeim 47 sem tóku eigið líf árið 2020 yngri en 60 ára. 17 voru yngri en 29 ára og þrír yngri en 18 ára.

Ótímabær dauðsföll eru alltaf sorgleg og valda harmi fyrir marga en tilgangsleysi þess að börn og ungt fólk deyi úr geðrænum áskorunum er algjört og í raun óásættanlegt. Þegar hlutdeild sjálfsvíga í andlátum yngri en 30 ára er skoðuð sést það svart á hvítu hversu alvarleg þróunin er.

Upplýsingar úr dánarmeinaskrá Embættis landlæknis.

Samkvæmt tölum landlæknisembættisins meta fleiri geðheilsu sína slæma og lélega en fyrir 22 mánuðum. Það má færa fyrir því ákveðin rök að það kunni að litast af þeim sóttvarnaaðgerðum sem gripið hefur verið til og stöðugs upplýsingaflæðis af fjölda smita, fjölda andláta, fjölda afbrigða o.s.frv.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi strax í upphafi Covid faraldursins frá sér yfirlýsingu þar sem bent var á að áhrif faraldursins á geðheilsu til skemmri og lengri tíma verði áskorun. Kreppur sl. 100 ára voru fyrst og fremst efnahagslegar og því er erfitt að leita í söguna til að spá fyrir um afleiðingar. Einangrun, ótti, samfélagsmiðlar, falsfréttir o.fl. gera þessa kreppu flóknari en aðrar kreppur í sögunni. Líkindi er helst að finna í löndum þar sem einstaklingar hafa búið við skert frelsi vegna stjórnmálaskoðana eða stríðsástands.

Þegar fjárlagafrumvarpið er rýnt, áherslur stjórnmálaflokka, stofnana og samfélagsins alls skoðaðar, virðist eins og sá mikli stöðugi faraldur, sem sjálfsvíg og ótímabær dauðsföll vegna geðræns vanda eru, komi okkur lítið við. Langvarandi fjárskortur í geðheilbrigðiskerfinu og áhugaleysi stjórnvalda blasir við öllum þeim sem á líta.

Það verður ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að um langt árabil hafa geðheilbrigðismál verið undirfjármögnuð á Íslandi. Umfang málaflokksins innan heilbrigðiskerfisins er áætlað um 30% en fjármagnið sem veitt er til hans er á sama tíma áætlað í kringum 12% af heildarfjármagni sem rennur til heilbrigðismála. Þegar búið er við slíka undirfjármögnun í ár og jafnvel áratugi er ljóst að eitthvað lætur undan. Þess ber að geta að þessi staða var uppi áður en Covid faraldurinn skall á fyrir tveimur árum.

Þrátt fyrir að okkur hafi gengið betur í sóttvörnum en flestum þjóðum er ljóst að faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið. Atvinnuleysi hefur verið meira en það hefur áður verið á lýðveldistímanum og voru um tíma á þriðja tug þúsunda án atvinnu á Íslandi og nú er langtíma atvinnuleysi í sögulegu hámarki. Slíkt ástand, þar sem mjög hæft fólk er án vinnu, hefur mikil áhrif á þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn eða þá sem lengi hafa verið án vinnu. Því er mikilvægt að gefa þeim hópi, ungu fólki og einstaklingum sem búa við hvers konar áskoranir, sérstakan gaum.

Við finnum öll mismikið fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til. Börn og ungmenni eru viðkvæmur hópur og á margan hátt berskjaldaðri fyrir þeim mögulegu geðrænum fylgikvillum sem aðgerðum þeim sem gripið hefur verið til í baráttunni kann að fylgja. Á mikilvægum mótunartíma í þroska snýst tilvera þeirra á hvolf. Skóli, tómstundir, samvera, nánd, hreyfing, rútína o.s.frv. Mánuður getur verið langur tími í lífi þeirra sem eru að ljúka grunnskóla eða byrja í framhaldsskóla. Þegar langir kaflar í lífi þessara ungmenna eru undirlagðir skerðingu lífsgæða í formi fjöldatakmarkana og lokana þá hefur það áhrif á geðheilsu þeirra.

Geðheilbrigðismál hafa verið talsvert í umræðunni þessi misserin og stjórnvöld og stjórnmálafólk gaf það út fyrir kosningar að þau væru forgangi og er það vel. Það hefur hins vegar skort á aðgerðir og hafa Landssamtökin Geðhjálp lagt til 9 aðgerðir sem endurspegla breytta framtíðarsýn í málaflokknum. Nú þegar rofa tekur í heimsfaraldrinum og afleiðingar til lengri tíma koma betur í ljós viljum við árétta eftirfarandi aðgerðir til þess að setja geðheilsu í forgang. 

Afleiðingar faraldursins á geðheilsu almennings geta varað í mörg ár og þess vegna er mikilvægt að fulltrúar löggjafans útfæri fjárlög þannig að þau tryggi góða viðspyrnu og skýra framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum. Framtíðarsýn þar sem endurspeglast nýsköpun, aukið vægi notenda, stóraukin samfélagsgeðþjónusta og endurskoðuð og umfangsminni sjúkrahúsþjónusta samhliða endurskoðuðum greiningarviðmiðum og stóraukinni áherslu á forvarnir, heilsueflingu og styrkleikaþætti mannsins. Að við hverfum markvisst frá því að leyfa orðræðu raskana að umlykja málaflokkinn – að heilbrigðismál snúist meira um heilbrigði en veikindi, frávik og raskanir. Um nýja framtíðarsýn og leiðir að markmiðunum vill Geðhjálp ræða málin t.d. á vettvangi Geðráðs. Mun Geðhjálp þá koma með þessar áherslur að borðinu:

1. Gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi

Nánar: Úttektin er nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari.

2. Efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og gera þjónustuna þverfaglegri

Nánar: Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í flestum tilfellum. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi. Innan heilsugæslunnar ættu að starfa félagsráðgjafar, notendafulltrúar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar o.fl. stéttir við hlið lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga.

3. Stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra

Nánar: Liður í því að huga að áhrifaþáttum geðheilbrigðis er að styðja foreldra í uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðravernd, foreldrafræðslu og ungbarnavernd með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunnar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þarf einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins.

4. Hefja niðurgreiðslu viðtalsmeðferða

Nánar: Að framfylgja samþykkt Alþingis um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu að viðbættum öðrum gagnreyndum aðferðum. Samþykktin er enn óútfærð hvað varðar fjármögnun og brýnt er að skýra framkvæmdina.

5. Gera geðrækt hluta af aðalnámskrá grunnskóla

Nánar: Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu.

6. Fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir

Nánar: Við viljum tryggja ungmennum virkni eða nám við hæfi. Við 16 ára aldur flyst ábyrgð á nemendum frá sveitarfélögum til ríkisins. Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil. Á þessum árum er veruleg hætta á að ungmenni detti alveg úr virkni sem hefur slæm áhrif á geðheilsu þeirra.

Einnig býr fólk með geðrænar áskoranir, á öllum aldri, gjarnan við lítinn hvata til virkni.

7. Endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferða ásamt því að byggja nýtt húsnæði geðsviða LSH og SAK
Nánar: Hugmyndafræði og innihald meðferða þarfnast endurskoðunar og færast nær 21. öldinni. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), skjólhús o.fl. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg, þjónandi og framsækin. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.

8. Útiloka nauðung og þvingun við meðferð

Nánar: Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.

9. Koma á fót Geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál

Nánar: Undanfarna áratugi hafa geðheilbrigðismál iðulega verið rædd í ólíkum hópum á ólíkum stöðum en þessir hópar tala mismikið saman og vita jafnvel ekki hver af öðrum. Ábyrgð á samhæfingu og upplýsingamiðlun þvert á alla þessa hópa og stjórnsýslustig getur verið óljós. Geðráði er ætlað að breyta þessu með því að kalla að sama borðinu stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur til þess að fjalla á hlutlægan hátt um málaflokkinn og leggja grunn að stefnumótun og aðgerðum.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar
Sigrún Sigurðardóttir, dósent við HA og stjórnarkona í Geðhjálp

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram