Í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum 10. október og yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum sendi Geðhjálp í dag öllum formönnum stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, eftirfarandi bréf:
Við óskum þér til hamingju með kosningu til Alþingis Íslendinga þann 25. september sl. Í dag 10. október er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn haldinn hátíðlegur á Íslandi og víðar og við óskum þér einnig til hamingju með hann.
Nú standa yfir stjórnarmyndunarviðræður þar sem áherslumál stjórnarsáttmála eru reifuð og framtíðarsýn, meginmarkmið og verklag næstu fjögurra ára mótað. Landssamtökin Geðhjálp vilja minna á mikilvægi þess að setja geðheilbrigði á oddinn næstu fjögur ár. Samfélag okkar stendur frammi fyrir áskorun. Ljóst er að tekist verður á um fjármagn til almannaþjónustu ríkis og sveitarfélaga næstu misserin en allar líkur eru á að þörfin fyrir þjónustuna aukist, biðlistar lengist enn. Því er nú sem aldrei fyrr mikilvægt að huga bæði að sókn og vörn. Sókn í þeirri merkingu að vinna með orsakaþætti geðheilbrigðis og vörn í þeirri merkingu að bæta öll þrjú stig viðbragðskerfa okkar.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) sendi strax í upphafi Covid faraldursins frá sér yfirlýsingu þar sem varað var við áhrifum faraldursins á geðheilsu til skemmri og lengri tíma. Kreppur sl. 100 ára voru fyrst og fremst efnahagslegar og því er erfitt að leita í söguna til að spá fyrir um afleiðingar. Einangrun, ótti, samfélagsmiðlar, falsfréttir o.fl. gera þessa kreppu flóknari en aðrar kreppur í sögunni. Líkindi er helst að finna í löndum þar sem einstaklingar hafa búið við skert frelsi vegna stjórnmálaskoðana eða stríðsástands.
WHO sendi síðan frá sér yfirlýsingu þann 8. október sl. þar sem m.a. eftirfarandi kom fram:
Samantekt, sem birt er í nýjum gagnagrunni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um geðheilbrigðismál, sýnir svart á hvítu að þjóðum heimsins hefur mistekist að bjóða þegnunum viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu. Þetta gerist á þeim tíma sem mikilvægi þess að setja geðheilbrigðismál á oddinn hefur aldrei verið jafn brýnt.
Þrátt fyrir að okkur hafi gengið betur í sóttvörnum en flestum þjóðum er ljóst að faraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á samfélagið og valdið miklu tjóni. Atvinnuleysi er meira en það hefur áður verið á lýðveldistímanum og voru um tíma á þriðja tug þúsunda án atvinnu á Íslandi og langtíma atvinnuleysi var í sögulegu hámarki. Slíkt ástand, þar sem mjög hæft fólk er án vinnu, hefur mikil áhrif á þá sem eru að koma út á vinnumarkaðinn í fyrsta sinn eða þá sem lengi hafa verið án vinnu. Hætt er við að þessir hópar verði undir í baráttunni um störfin. Ungu fólki og einstaklingum sem búa við hvers konar áskoranir þarf að gefa sérstakan gaum.
Við finnum öll fyrir þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til en mismikið. Börn og ungmenni eru þannig talsvert berskjölduð fyrir geðrænum fylgikvillum þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í baráttunni. Á mikilvægum mótunartíma í þroska þeirra snýst tilvera þeirra á hvolf. Skóli, tómstundir, samvera, nánd, hreyfing, rútína o.s.frv. Mánuður getur verið langur tími í lífi þeirra sem eru að ljúka grunnskóla eða byrja í framhaldsskóla. Þegar langir kaflar í lífi þessara einstaklinga eru undirlagðir skerðingu lífsgæða í formi fjöldatakmarkana og lokana þá hefur það áhrif á geðheilsu þeirra. Við þurfum því að vera á varðbergi og huga með markvissum hætti sérstaklega að geðheilsu ungs fólks.
Geðheilbrigðismál hafa verið talsvert í umræðunni þessi misserin og stjórnvöld og stjórnmálafólk gaf það út fyrir kosningar að þau væru forgangi og er það vel. Það hefur hins vegar skort á aðgerðir og hafa landssamtökin Geðhjálp bent á hvar skóinn kreppir helst. Nú þegar rofa tekur í heimsfaraldrinum og afleiðingar til lengri tíma fara að koma í ljós viljum við árétta eftirfarandi aðgerðir til þess að setja geðheilsu í forgang. Það er ljóst að við munum glíma við afleiðingar faraldursins í mörg ár og þess vegna er mikilvægt að bregðast við og setja eftirfarandi á oddinn:
Nánar: Úttektin er nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari.
Nánar: Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður í flestum tilfellum. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar geta verið ákveðin fyrirmynd að þjónustu þar sem sjónarmið notenda hafa aukið vægi. Innan heilsugæslunnar ættu að starfa félagsráðgjafar, notendafulltrúar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar o.fl. stéttir við hlið lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga.
Nánar: Liður í því að huga að áhrifaþáttum geðheilbrigðis er að styðja foreldra í uppalendahlutverki sínu. Að auka mæðraeftirlit, foreldrafræðslu og ungbarnaeftirlit með það fyrir augum að fræða foreldra um mikilvægi tengslamyndunnar fyrstu 1.000 dagana í tilveru hvers barns. Á leikskóla- og grunnskólaaldri þarf einnig að styðja við foreldra og draga þannig úr árekstrum og erfiðleikum síðar meir í lífi barnsins.
Nánar: Að framfylgja samþykkt Alþingis um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Samþykktin er enn óútfærð hvað varðar fjármögnun og brýnt er að skýra framkvæmdina.
Nánar: Það er ein besta fjárfesting hvers samfélags að kenna börnum frá unga aldri um verndandi þætti geðheilbrigðis og hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi. Mikilvægt er að geðrækt verði kennd á menntavísindasviði til að styðja við getu kennara við að miðla þessari fræðslu.
Nánar: Við viljum tryggja ungmennum virkni eða nám við hæfi. Við 16 ára aldur flyst ábyrgð á nemendum frá sveitarfélögum til ríkisins. Á aldrinum 16 til 18 ára er umtalsvert brottfall úr námi og virkni oft lítil. Á þessum árum er veruleg hætta á að ungmenni detti alveg úr virkni sem hefur slæm áhrif á geðheilsu þeirra.
Einnig býr fólk með geðrænar áskoranir, á öllum aldri, gjarnan við lítinn hvata til virkni.
Nánar: Hugmyndafræði og innihald meðferða þarfnast endurskoðunar og færast nær 21. öldinni. Geðhjálp vill vera opin fyrir nýjungum við meðferð sem eru fjölmargar í löndunum í kringum okkur og má þar nefna lyfjalausar deildir, opna samræðu (Open dialogue), skjólhús o.fl. Áherslur Geðhjálpar miða að því að það heyri til undantekninga í framtíðinni að þurfa að leggjast inn á geðdeild en sé þess þörf verði þjónustan nútímaleg, þjónandi og framsækin. Húsnæði geðsviða LSH og SAK eru óhentug og löngu úr sér gengin. Mikilvægt að ráðast í úrbætur jafnhliða því sem hugmyndafræði er endurskoðuð.
Nánar: Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er hvers kyns nauðung og þvingum óheimil. Ísland hefur enn ekki lögfest þennan samning. Ítrekað hefur verið bent að nauðung og þvingun í meðferð einstaklinga með geðrænar áskoranir standist ekki lög. Þetta hefur OPCAT eftirlit staðfest en því sinna óháðir aðilar og heimsækja þeir staði sem hýsa einstaklinga sem eru sviptir frelsi sínu. Samhliða núverandi endurskoðun lögræðislaga leggur Geðhjálp til að Ísland verði gert að þvingunarlausu landi sem tilraunarverkefni til þriggja ára.
Nánar: Undanfarna áratugi hafa geðheilbrigðismál iðulega verið rædd í ólíkum hópum á ólíkum stöðum en þessir hópar tala mismikið saman og vita jafnvel ekki hver af öðrum. Ábyrgð á samhæfingu og upplýsingamiðlun þvert á alla þessa hópa og stjórnsýslustig getur verið óljós. Geðráði er ætlað að breyta þessu með því að kalla að sama borðinu stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur til þess að fjalla á hlutlægan hátt um málaflokkinn og leggja grunn að stefnumótun og aðgerðum.