Fimmtudaginn 14. október fór fram fyrsta úthlutun Styrktarsjóðs geðheilbrigðis í Sunnusal Iðnó. Alls bárust 54 umsóknir til Styrktarsjóðs geðheilbrigðis samtals að upphæð 137.275.000 kr. Margar þessara umsókna þóttu til fyrirmyndar en sjóðurinn hafði yfir að ráða 10 m.kr. til þessarar fyrstu úthlutunar og því ljóst að ekki yrði hægt að styrkja mörg góð verkefni.
Á meðfylgjandi mynd má sjá styrkþega auk Héðins Unnsteinssonar, formanns stjórnar (Mynd: Nanna Guðrún Bjarnadóttir)
Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði íbúa Íslands og/eða skilning þar á.
Í ár var horft sérstaklega til eftirfarandi yfirþátta þegar umsóknir voru metnar:
a. Valdefling notenda
b. Valdefling aðstandenda
c. Mannréttindi og jafnrétti
d. Nýsköpun
Árið 1998 eignaðist Geðhjálp fasteignina Túngötu 7 í Reykjavík. Húsnæðið var gjöf til félagsins frá ríkissjóði en ríkið eignaðist húsið við lát Önnu E.Ó. Johnsen, ekkju Gísla Johnsens konsúls. Það var vilji Gísla og Önnu að húsnæðið yrði notað fyrir heilbrigðistengda starfsemi. Geðhjálp starfaði í húsinu næstu 15 árin en viðhaldsþörf sligaði rekstur samtakanna og því var húsið selt árið 2013. Með því var hægt að greiða skuldir samtakanna að kaupa annað ódýrara og hentugra húsnæði. Frá þeim tíma hefur Geðhjálp ávaxtað það sem eftir stóð af söluhagnaðinum með það fyrir augum að hann kæmi að notum í góðum verkefnum í geðheilbrigðismálum. Þessar ráðstafanir gera Geðhjálp kleift að leggja til 100 milljóna króna stofnframlag í Styrktarsjóð geðheilbrigðis.
Fimm manna fagráð, skipað þeim Birni Hjálmarssyni, Hrannari Jónssyni, Huldu Dóra Styrmisdóttur, Svövu Arnardóttur og Helgu Sif Friðjónsdóttur, en hún var formaður fagráðsins, fór yfir umsóknirnar og lagði tillögur sínar í hendur stjórnar. Stjórn sjóðsins skipa þau: Héðinn Unnsteinsson, formaður, Guðrún Sigurjónsdóttir og Haraldur Flosi Tryggvason.
Stjórn samþykkti tillögur fagráðs og hlutu eftirfarandi verkefni styrk að þessu sinni:
Verkefnið gengur út á að þróa nýja nálgun við starfsþjálfun til að koma ungu fólki, sem hefur verið fjarverandi á vinnumarkaði og er í áhættuhópi að verða öryrkjar, í virkni. Um er að ræða tvö þróunartímabil (pilot) þar sem aðferðir verða reyndar og kannað hvernig þær reynast. Fagráð metur að verkefnið falli vel að markmiðum sjóðsins um að bæta geðheilsu íbúa Íslands. Virkni og þátttaka í samfélaginu getur verið lykillinn að góðri geðheilsu. Verkefnið er valdeflandi og nýsköpunarvægi þess mikið.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 1.000.000 kr.
Verkefnið er að vinna að því að hanna kennslukerfi sem styðst við gervigreind til að skilja upplifun og þarfir notenda með það að markmiði að gera námsupplifun sem jákvæðasta og byggja upp sjálfstraust og geðheilbrigði nemenda. Það er vitað að mörgum börnum gengur illa að fóta sig innan skólakerfisins sem aftur getur haft áhrif á geðheilsu þeirra og möguleika seinna meir í lífinu. Verkefnið er spennandi nýsköpun hvers markmið falla að mati fagráðs í öllum megin atriðum.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 1.000.000 kr.
Verkefnið er framhald af Kordu Sinfóníu sem var starfrækt veturinn 2020 til 2021 og lauk starfsári sínu með tónleikum í Eldborgarsal Hörpu. Markmiðið er að hljómsveitin, sem skipuð er einstaklingum með geðrænar áskoranir annars vegar og klassískmenntuðum tónlistarmönnum hins vegar, hittist og semji tónlist sem verði síðan frumflutt fyrir áhorfendur í maí 2022. Verkefnið er að mati fagráðs valdeflandi fyrir notendur og nýtir listræna nálgun og sköpun í bataferli einstaklinga.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 1.000.000 kr.
Verkefnið gengur út á að vinna að gerð fræðslu- og forvarnarefnis um átröskun fyrir heilsugæslu, skóla, líkamsræktarstöðvar og íþróttafélög. Með auknum sýnileika, vitundarvakningu og fræðslu megi stuðla að bættu geðheilbrigði ungs fólks sem er í áhættuhópi átröskunar. Samtökin stefna á að vinna efni, setja það upp með aðgengilegum hætti á heimasíðu og standa fyrir málþingi á vormánuðum 2022. Fagráð styrktarsjóðs geðheilbrigðis metur að verkefnið falli vel að markmiðum sjóðsins. Verkefnið er valdeflandi og unnið í nánum tengslum grasrótar og fagaðila.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 1.000.000 kr.
Verkefnið gengur út á eins og kemur fram í heiti þess að efla þrautseigju fanga eftir afplánun og þannig draga úr líkum á bakföllum og endurteknum athöfnum sem geta leitt til fangelsisvistar. Um er að ræða jaðarsettan hóp í samfélaginu sem býr við landlæga fordóma og jafnvel útskúfun. Það er mat fagráðs að verkefnið falli vel að öllum lykilviðmiðum sjóðsins sem eru valdefling notenda og aðstandenda, mannréttindum og jafnrétti og nýsköpun.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 1.000.000 kr.
Verkefnið snýr að valdeflingu notenda um áfallamiðaða nálgun í framhaldsskólum auk fræðslubæklings með verkfærum fyrir kennara þegar kemur að áfallasögu nemenda. Mikilvægi starfsmanna framhaldsskóla og framlag þeirra í tengslum við vinnu með áfallasögu nemenda er verulegt. Verkefninu er ætlað að árétta þetta mikilvægi og hjálpa starfsfólki með því að færa þeim réttu verkfærin. Verkefnið fellur að mati fagráðs vel að markmiðum Styrktarsjóðs geðheilbrigðis.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 800.000 kr.
Verkefnið er að gefa nýútkomna bók Boðaföllin út á hljóðbók. Nálgun höfunda er í anda nýrrar hugmyndafræði í geðheilbrigðismálum er snúa m.a. að sjúkdómsvæðingu tilfinninga, valdaójafnvægi milli þjónustuþega og þjónustuveitenda og nýjum jafnvel óhefðbundnum leiðum til bata. Það er mat fagráðs að hljóðbók geti náð til stærri hóps en hið hefðbundna bókarform býður upp á.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 750.000 kr.
Verkefnið er spilastokkur og hugbúnaðartækni hugsuð sem heildræn lausn ætluð sem hjálpartæki til að vinna með andlega þætti núvitundar og hugleiðslu. Getur verið notað í hóp eða á einstaklingsgrunni. Verkefnið er langt komið en vinna þarf markaðs og rekstraráætlanir auk þess sem hanna þarf smáforritið sem fylgja á með. Fagráð metur nýsköpunargildi verkefnisins hátt og vinna með geðheilsu íþróttamanna geti verið valdeflandi og dregið úr fordómum.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 700.000 kr.
Verkefnið gengur út á kynningu fyrir nemendur í framhaldsskólum á reynslu höfundar á því að fara í geðrof, vinna sig í gegnum það og hvernig list og tjáning hjálpaði höfundi. Verkefnið er að mati fagráðs Styrktarsjóðs geðheilbrigðis valdeflandi fyrir notendur og fellur vel að þeim markmiðum sjóðsins að efla geðheilsu íbúa Íslands.
Samþykkt að styrkja verkefni um 650.000 kr.
Verkefnið er að þýða gagnreynda aðferð sem kennir börnum og fullorðnum leiðir til betri sjálfsþekkingar og tilfinningastjórnunar. Því er ætlað auka við bjargir og verkfæri einstaklinga sem eiga langa sögu um vanda tengdum áfengis- og vímuefnaneyslu. Tilgangur verkefnisins er jafnframt að efla getu einstaklinga til takast á við bata frá neyslu og þeim verkefnum sem bataferlinu fylgir. Það er mat fagráðs að verkefnið sé valdeflandi fyrir notendur og aðstandendur og mikilvægt fyrir jaðarsettan hóp sem glímir við tvíþættan vanda.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 480.000 kr.
Verkefnið er styrkleikatengdur vettvangur fyrir spjall, stuðning og fræðslu meðal fullorðinna með ADHD. Um er að ræða fræðslu sem byggir á nálgun, viðhorfum og inngripum úr heimi jákvæðrar sálfræði. Umsækjandi hefur nú þegar keyrt tilraunarverkefni fyrir 50 einstaklinga með góðum árangri og er markmiðið núna að færa reynslu þess yfir á aðra sértækari hópa sem hafa takmarkaðan stuðning og aðgengi að hefðbundnari úrræðum innan heilbrigðiskerfisins. Fagráð telur verkefnið falla vel að markmiðum Styrktarsjóðs geðheilbrigðis.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 450.000 kr.
Verkefnið snýst um að framleiða vikulega þætti um geðheilbrigðismál fyrir visir.is og samfélagsmiðla. Markmiðið er að fræða og opna umræðuna í tengslum við geðheilbrigðismál. Fagráð telur verkefnið geta aukið skilning í samfélaginu og þannig verið valdeflandi fyrir notendur.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 400.000 kr.
Verkefnið er að stækka og efla fræðslu í heimi langveikra barna. Aðstandendur langveikra barna búa við viðvarandi áskoranir á fjölmörgum sviðum lífsins sem aftur hefur áhrif á geðheilsu þeirra. Markmiðið er m.a. að setja á stofn athvarf fyrir aðstandendur, standa fyrir fræðslukvöldum, gefa út fræðsluefni, vera stuðningur, veita leiðsögn og stuðla að bættu geðheilbrigði þeirra og slökun frá amstri dagsins. Um er að ræða afar þarft mál að mati fagráðs. Verkefnið er stutt á veg komið og ljóst að talsvert er í land.
Samþykkt styrkja verkefnið um 200.000 kr.
Verkefnið er myndlistarsýning á vetrarsólstöðum. Markmiðið er að valdefla listamenn sem glíma hvers kyns fötlun og aðstandendur þeirra. Ljá þessum hópi rödd þar sem hæfileikar þeirra fá að njóta sín á þeirra forsendum. Fagráð telur verkefnið falla að markmiðum styrktarsjóðs geðheilbrigðis.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 200.000 kr.
Verkefnið er að ljúka við stuttmyndina Sprungur sem tekin var upp í sumar og núna er verið að leggja lokahöndina á. Um er að ræða listrænt fræðsluverkefni sem á að upplýsa almenning um fordómana, einangrunina og einmanaleikann sem margir einstaklingar sem glíma við geðrænar áskoranir þekkja. Fagráð telur verkefnið falla að markmiðum styrktarsjóðs geðheilbrigðis.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 250.000 kr.
Verkefnið er að halda tvö skákmót í haust og nota styrkinn til þess að fjármagna bikara og annað tengt mótshaldinu. Fagráð telur verkefnið falla að markmiðum Styrktarsjóðs geðheilbrigðis.
Samþykkt að styrkja verkefnið um 100.000 kr.