Við þurfum öll að rækta og vernda geðheilsu okkar. Rétt eins og með líkamlega heilsu, þar sem öllum er ráðlagt að taka vítamín daglega, gerir margt smátt eitt stórt í geðrækt.
Geðhjálp býður því 30 skammta af G-vítamíni á þorranum; ráðleggingar sem er ætlað að bæta geðheilsu. Dagatal með G-vítamínsskömmtum verður sent á hvert heimili á Íslandi. Auk þess verður hægt að nálgast dagatalið í völdum sundlaugum og verslunum um allt land.
Markmiðið er að styrkja geðheilsu landsmanna en um leið að fyrirbyggja bresti og verja okkur í mótbyr. Með daglegri inntöku G-vítamíns myndum við sterkara ónæmi, því þessi einföldu ráð eru verndandi þættir geðheilsu.
Í hverjum glugga dagatalsins er einn skammtur og daglega birtast góð ráð á gvitamin.is, Facebook og Instagram. Fylgist endilega vel með þar, ekki síst á miðvikudögum þegar stærri G-vítamínskammtar verða birtir.
Fjöldi mergjaðra geðræktandi vinninga verða gefnir heppnum þátttakendum. Það eina sem þú þarft að gera er að taka þátt og nýta þér G-vítamínið, sem er ókeypis og án aukaverkana!
G-vítamínið er byggt á Geðorðunum 10 og 14 Lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. Sjá nánar á landlaeknir.is og hedinn.org/lifsordin14