Við höfum öll geð, og við verðum öll einhvern tímann veik á lífsleiðinni, en það er ekki þar með sagt að við verðum öll geðveik. Við þurfum hins vegar öll að sýna því skilning að það geti gerst hjá hverju og einu okkar og þessi skilningur hefur aukist á síðustu árum.
Stundum þegar ég hugsa um geðsjúkdóma hef ég hugsað til þess að þeir sem veikjast á geði þurfi sinn fána til að flagga fjölbreytileika, því geðröskun er svo mismunandi hjá hverju og einu okkar og hvernig hún birtist. Fjölbreyttni í meðferðarnálgun er þess vegna eitt af mikilvægustu baráttumálum okkar hjá Geðhjálp.
Geðheilbrigðisdagurinn sem er á morgun er til þess fallinn að flagga fyrir fjölbreytileika geðsjúkdóma og minna á að fólk sem veikist á geði þarf að fá tækifæri til að halda virðingu sinni og reisn í öllum aðstæðum. Við viljum öll skipta máli og lifa mannsæmandi lífi.
Betri staða geðheilbrigðismála
Það er ekki viðlíka skömm og ótti og áður að greinast með geðröskun, geðrænar áskoranir, geðrænum vanda, geðveiki eða hvað sem við kjósum að kalla það. Áður fyrr var það kallað að fara yfirum og átti þau sem það gerðu kannski ekki afturkvæmt í samfélag manna. Fólk er ekki heldur í viðlíkri hættu að lenda í félagslegri einangrun, ofbeldi, einsemd, fátækt, þvingun og vanmætti og áður fyrr, þótt það gerist enn. Margir lentu í kjölfar veikinda inni á stofnunum árum og áratugum saman. Möguleikar margra voru mjög takmarkaðir. Tækifærin til eðlilegrar þátttöku í samfélaginu voru fá sem engin.
Einstaklingarnir og aðstandendur þeirra stóðu frammi fyrir svo stórum áskorunum að vart er hægt að lýsa því álagi. Margir héldu veikindunum sinna nánustu í felum til að verða ekki fyrir sleggjudómum samferðamanna sinna. Feluleikurinn sem slíkur gat tekið sinn toll af aðstandendum.
Saga Geðhjálpar og annarra sem hafa unnið að málefnum geðsjúkra má líkja við ótrúlegan sigur; sigur á þröngsýni og skorti á samkennd.
Geðhjálp var stofnað í þessu andrúmslofti af aðstandendum geðveiks fólks þann 9. október 1979. Strax var ráðist í að fræða almenning og starfræktir voru sjálfshjálparhópar. Geðhjálp sá til dæmis reglulega um dálk í Morgunblaðinu um geðheilbrigðismál. Þannig að segja má að Geðhjálp hafi rutt veginn varðandi vakningu á málefnunum.
Það er himinn og haf milli þess sem fólk á þessum tíma glímdi við og það sem við gerum í dag. Í stefnumótun og umræðum um úrræði er í dag mun frekar hlustað á raddir þeirra sem glíma við veikindin og vonumst við sannarlega til að sjá aukningu þar á. Við sjáum að raunveruleg notendastýrð þjónusta er í sjónmáli. Þetta er nútíminn. Það er því ekki nóg að að notendur þjónustunnar fá að vera með í mótun hennar heldur verða þeirra áherslur og reynsla að eiga meira vægi.
Við höfum öll geð
Við höfum áttað okkur á að við erum öll með geð. Okkur líður öllum misvel. Stundum líður okkur beinlínis illa. Hver einasti landsmaður getur tengt sig við geðheilbrigði með einum og öðrum hætti, vegna síns eigins geðslags eða aðstandanda og vina. Nútímafólk lætur sig málið varða. Í dag gleðjumst við yfir því að svo sé, um leið og við fögnum 40 ára afmæli Geðhjálpar.
Það er dásamlegt að fylgjast með því hvernig kastljóstinu hefur i síauknum mæli verið beint að geðrænum vanda og mikilvægi góðs geðheilbrigðis í lífi okkar. Fólk kemur í auknum mæli fram og segir frá streitu, kvíða og þunglyndi. Það er ekki hægt að segja annað en skilningur og velvilji í samfélaginu í garð þeirra sem glíma við geðræna erfiðleika hafi aukist.
Flöggum því hvernig við erum
Við eigum að flagga því hvernig við erum. Við eigum að normalísera geð og fjölbreytileika. Okkur farnast best þegar við umvefjum hvert annað á vegferðinni til betri líðan.
Nú er tíminn þar sem tækifærunum hefur fjölgað gríðarlega. Nú er tími grósku, hraða og tækni. Það ættu að vera lykilorð í stefnumótun geðheilbrigðismála til framtíðar um leið og við horfum til betri heilsu, aukinna lífsgæða og meiri nándar.
Einkunnarorð Geðhjálpar eru:
Hugrekki, mannvirðing og samhygð
Einar Þór Jónsson, formaður Geðhjálpar