18. október 2022

Geðhjálp mælir með: Áhugaverðar bækur

Desperate Remedies: Psychiatry and the Mysteries of Mental Illness eftir Andrew Schull

Saga geðsjúkdóma og greininga, fordóma og hræðslunnar sem fylgdi, og fylgir því jafnvel enn, að veikjast á geði. Í bók sinni Desperate Remedies, rekur félagsvísindaprófessorinn Andrew Schull, sögu geðlækninga í Bandaríkjunum síðustu 200 árin. Gefur hann ekkert eftir í skrifum sínum um þá örvinglun, fordóma, vanskilning og misnotkun
sem átti sér stað víða í geðheilbrigðiskerfinu og gerir jafnvel enn.

Sagan er vissulega erfið og flókin en Schull hefur lagt mikið upp úr rannsóknum sínum á geðlækningum og er textinn vandaður og skrifaður af virðingu á sama tíma og prófessorinn er áleitinn og gagnrýninn á kerfið. Þótt lesturinn sé á köflum átakanlegur, er margt broslegt og skilningur á geðlækningum, geðveikum og mannlegri flóru eykst. Höfundurinn er gagnrýninn á öfgakenndar og um margt ómannúðlegar aðferðir geðlækna og sálfræðinga til forna og spyr hvort framtíðin muni ekki dæma okkur með sama hætti.

The Body Keeps the Score; Brain, Mind and Body and the Healing of Trauma eftir Bessel van der Kolk, M.D.

Á síðustu áratugum hefur skilningur okkar á áföllum tekið algjörum stakkaskiptum. Skilningur á því víðfeðma hugtaki „áfall“ er því sífellt að breytast og í þessu mikla þrekvirki, The Body Keeps the Score, fjallar áfallasérfræðingurinn Bessel van der Kolk um það hvernig áföll skilja eftir för í sálarlífi okkar og bókstaflega í genum okkar. Eins og titill inn gefur til kynna, er það meining van der Kolk að áföllin búi í líkömum okkar og komi þannig óhjákvæmilega til með að hafa áhrif á líf okkar, samskipti og sambönd. Sé ekki unnið með þau muni hringrás sársaukans halda sífellt áfram.

Bókin er afrakstur yfir þriggja áratuga vinnu van der Kolk með áfallasjúklingum og umbreyta skrif hans algjörlega nútímalegum skilningi okkar á áfallastreitu. Bókin útskýrir með óyggjandi hætti hvernig áföll bókstaflega endurforrita heila okkar og sérstaklega þær heilastöðvar sem lúta að ánægju, skuldbindingargetu okkar, tilfinningastjórnun og trausti.

Reasons to Stay Alive eftir Matt Haig

Haig leiðir lesandann í gegnum töfraraunsæi og fjarstæðukenndan vísindaskáldskap á sama tíma og hann færir okkur nær okkar mannlegu eðli, sjálfsathugun og mildi. Í Reasons to Stay Alive, sem er í senn skáldsaga og æviminning, fjallar Haig um eigin reynslu af þunglyndi, kvíðaröskun, taugaáfalli og tilraun til sjálfsvígs. Haig var 24 ára gamall þegar hann stóð á klettabrún og ætlaði stytta sér aldur.

Hann áttaði sig á að sjálfsvígið myndi aðeins skapa meiri ótta og sorg í kringum hann, steig til baka og ákvað að takast á við þunglyndið. Hann sökkti sér í lestur, skrif og sögur annarra af lífinu með þunglyndi, til að betur skilja þessar áskoranir og finna ástæður til að lifa. Haig leitar eftir tengingunni sem við missum stundum af, að öll munum við kynnast geðrænum áskorunum á lífsleiðinni og að tíminn muni að endingu lækna sárin.

Furiously Happy eftir Jenny Lawson

Jenny Lawson hélt lengi uppi stórskemmtilegu „mömmubloggi“ þar sem hún skrifaði um eigið líf og móðurhlutverkið sem var ólíkt öðrum fullkomnum birtingarmyndum mömmunar á samfélagsmiðlum. Líf hennar var litað þunglyndi, kvíða, vefjagigt og öðrum kvillum sem hún veigraði sér ekki við að skrifa um á opinskáan og hnyttinn hátt.

Furiously Happy er einstaklega fyndin, sjálfsgagnrýnin og skemmtileg lesning um lífið með bilaðan, beyglaðan og brotinn heila. Lawson kafar djúpt ofan í eigið þunglyndi og kvíða og hvernig áföll hennar hafa mótað hana og kennt henni, þrátt fyrir allan sársaukann, að lifa lífi sínu til fulls. Furiously Happy fjallar umfram allt um leitina að hamingjunni og hver óskar ekki eftir aðeins meiri hamingju í líf sitt.

How to Change your Mind: What the New Science of Psychedelics Teaches Us about Consciousness, Dying, Addiction, Depression, and Transcendence eftir Michael Pollan

Í bókinni How to Change Your Mind, sem var innblástur fyrir samnefnda Netflix-seríu, fjallar rithöfundurinn og blaðamaðurinn Michael Pollan um sögu hugvíkkandi efna og notkun þeirra í gegnum tíðina. Pollan kafar djúpt í viðburðaríka og flókna sögu efnanna, allt frá fyrstu uppgötvunum vísindamanna á LSD og fyrstu öldu vísindalegra rannsókna, að andmenningunni, fordómunum, stríðinu gegn fíkniefnum og að algjöru banni á hugvíkkandi
efnum, notkun þeirra og rannsóknum.

Óhætt er þó að segja að síðustu tuttugu ár hafi orðið endurreisn í vísindalegum rannsóknum á hugvíkkandi efnum og vakti það áhuga Pollans sem blaðamanns, þegar hann las um hugvíkkandi rannsóknir á tilvistarkvíða deyjandi krabbameinssjúklinga. Hér er hvorki verið að lofsyngja né dæma of harkalega, heldur farið yfir staðreyndir, rannsóknir með vönduðum skrifum og eigin reynslu.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram