Geðvarpið er ný sjálfstæð þáttasyrpa innan Hlaðvarps Landspítalans. Stjórnandi Geðvarpsins er hjúkrunarfræðingurinn dr. Helga Sif Friðjónsdóttir, deildarstjóri geðþjónustu Landspítalans. Gestir
Geðvarpsins eru af ýmsum toga en eiga það þó sameiginlegt að starfa í geðheilbrigðisþjónustu og gefst þannig bæði notendum, aðstandendum og heilbrigðisstarfsfólki tækifæri til að heyra ólík sjónarmið úr geðheilbrigðisgeiranum. Hlaðvarpið er aðgengilegt á Spotify, Apple Podcasts, vef Landspítalans og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Normið er án efa eitt vinsælasta íslenska hlaðvarpið í dag en í Norminu fá þær Eva Mattadóttir og Sylvía Briem til sín góða gesti og ræða málin. Báðar eru Eva og Sylvía áhugakonur um geðheilsu og andleg málefni og hafa komið víða við í störfum sínum því tengdu, sem markþjálfar, athafnakonur og foreldrar. Í Norminu ná þær að spyrja
gesti sína erfiðra spurninga um lífið og tilveruna, sem gerir Normið að mannlegu, hráu og fræðandi hlaðvarpi um allt sem snýr að því að vera nútímamanneskja. Normið er aðgengilegt á Spotify, Apple Podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Í þessari tilraunastofu hamingjunnar fer dr. Laurie Santos, prófessor við Yale-háskólann, yfir það hvað
hamingja þýðir í raun og veru. Felst hamingjan í góðu starfi, fjárhæðum á bankabók eða stórkostlegum sumarfríum skráðum í fallegum myndum á samfélagsmiðlum? Eða er hamingjan kannski eitthvað allt annað? Dr. Santos byggir hér á eigin sálfræðirannsóknum og annarra og fer yfir gamalgrónar hamingjumýtur í hverjum þætti. The Happiness Lab er fróðlegt og skemmtilegt hlaðvarp sem veitir hlustendum innblástur að skapa sína eigin hamingju. Aðgengilegt á Spotify, Apple Podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Í þessu skemmtilega og fræðandi hlaðvarpi ráfa þær Eva Ágústa Aradóttir og Guðlaug Svala Kristjánsdóttir um einhverfurófið og ræða allt frá vináttu, samskiptum, geðheilsu til áhugamála og dúkkubarna. Til þeirra koma
góðir gestir sem hafa einstaka innsýn í líf einhverfra, bæði sem einhverft fólk sjálft eða sérfræðingar. Ráfað um rófið er einstaklega hrátt og skemmtilegt hlaðvarp, fullt af innsýn og húmor, gleði og ádeilu sem vert er fyrir öll að hlusta á. Ráfað um rófið er aðgengilegt á Spotify, Apple Podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Það ættu flestir að kannast við rithöfundinn og prófessorinn Brené Brown, sem hefur vakið mikla
athygli á undanförnum árum með hispurslausri umfjöllun sinni um geðrækt, vanmáttartilfinningu,
höfnun og skömm. Í hlaðvarpinu Unlocking Us fer Brown yfir það ásamt góðum gestum hvernig hlustendur geta eignað sér sína sögu og sinn uppruna, til þess að geta betur elskað sjálfa sig og alla sína kosti og galla.
Það fylgir því mikil óreiða að vera manneskja og Unlocking Us hjálpar hlustendum að greiða úr flækjunni. Unlocking Us er aðgengilegt á Spotify, Apple Podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Í hlaðvarpinu Feeling Good fer sálfræðingurinn Dr. David D. Burns, höfundur samnefndrar bókar,
yfir það hvernig hægt er að líða betur. Dr. Burns leiðir hlustendur í gegnum aðferðafræði sína og
verkfæri sem hann hefur þróað til þess að vinna á þunglyndi, kvíða og öðrum geðrænum áskorunum í daglegu lífi. Sálfræðingurinn velkunnugi fær til sín urmul góðra gesta sem miðla þekkingu sinni á sviði geðlækninga og sálfræði og tækla þau saman málefni eins og samskipti í hóp, félagskvíða einmanaleika, ástina og samkennd á fræðandi og upplýsandi máta. Feeling Gooder aðgengilegt á Spotify, Apple Podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum.