Geðhjálp

Geðhjálp eru samtök 7.500 félaga, notenda, aðstandenda, fagfólks og áhugafólks um bættan hag fólks sem býr við geðrænar áskoranir í samfélaginu. Samtökin vinna að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf, upplýsinga- og þekkingarmiðlun. Gildi Geðhjálpar eru hugrekkimannvirðing og samhygð.

Hagsmunagæsla Geðhjálpar felst í því að aðstoða fólk við að leita réttar síns, t.d. með því að veita upplýsingar um kæruleiðir og koma ábendingum á framfæri við viðkomandi úrræði, stofnanir, fyrirtæki og stjórnvöld. Geðhjálp skrifar umsagnir um lagafrumvörp um breytingar í heilbrigðiskerfinu og tekur þátt í starfi nefnda um stefnumótun á vegum hins opinbera svo dæmi séu tekin. Frekari upplýsingar veitir Grímur Atlason, framkvæmdarstjóri Geðhjálpar.

Ráðgjöf Geðhjálpar felst í síma-, tölvupósts- og viðtalsráðgjöf við notendur, aðstandendur, vinnuveitendur og aðra í nánast umhverfi fólks með geðraskanir og geðfötlun. Hvorki er farið fram á tilvísun né aðild að Geðhjálp þó aðild sé vel þegin. Ráðgjöfin er ókeypis og yfirleitt stutt bið eftir viðtölum. Frekari upplýsingar veitir Helga Arnardóttir, ráðgjafi Geðhjálpar.

Geðhjálp gengst fyrir fundum, fyrirlestrum og ráðstefnum um málefni fólks með geðraskanir og geðfötlun. Starfsmenn félagsins eru boðnir og búnir til að miðla fræðslu og þekkingu um geðheilbrigði og starfsemi samtakanna þegar eftir því er óskað. Reglulegir viðburðir eru haldnir á vegum félagsins yfir vetrartímann.

Geðhjálp beitir sér í þágu fólks með geðraskanir og geðfötlun í opinberri umræðu. Jafnframt hefur félagið lagt ríka áherslu á að raddir einstakra notenda heyrist í fjölmiðlum. Markmiðið með þátttöku í opinberri umræðu er m.a. að vinna gegn fordómum gagnvart fólki með geðraskanir og geðfötlun. Ekki veitir af því að þessi hópur verður fyrir hvað mestum fordómum í samfélaginu af einstökum hópum fatlaðra og ófatlaðra. Öryrkjar á grundvelli geðraskana eru ríflega 38% öryrkja eða ríflega 8.000 manns. Því til viðbótar er talið að  nálægt 25% íbúa hins vestræna heims eigi einhvern tíma á lífsleiðinni við geðröskun að stríða.

Með því að gerast félagi í Geðhjálp leggur þú þitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni fyrir betri þjónustu og réttindum fólks með geðraskanir og geðfötlun. Hægt er að gerast félagi með því að fylla út skráningareyðublað. Frekari upplýsingar um Geðhjálp er hægt að nálgast á meðfylgjandi heimasíðu og Facebook-síðu félagsins.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram