Lög landssamtakanna Geðhjálpar

 1. gr.
  Félagið heitir Geðhjálp og er landssamtök þeirra, sem láta sig geðheilbrigðismál varða. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík og starfsvettvangur landið allt.
 2. gr.
  Tilgangur félagsins er að vinna að geðheilbrigðismálum og bæta hag þeirra, sem eiga við geðræn vandamál að stríða, barna og fullorðinna, svo og aðstandenda þeirra.
  Þessu markmiði verður náð með því, meðal annars:
 3. a) Að efla samtakamátt allra þeirra sem láta sig geðheilbrigðismál varða.
  b) Að sjá til þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að sé framfylgt. Að efla alla forvarnarvinnu og umbætur á sviði geðheilbrigðismála með fræðslu og vitundarvakningu, m.a. til að draga úr fordómum. Að stuðla að endurbótum í þjónustu við geðsjúka og þá sem eru með geðræn vandamál. Að gera tillögur í þessum efnum og skapa umræður um þau í samfélaginu.
  c) Að efla gagnrýna og málefnalega umræðu um geðheilbrigðisþjónustu og þann grundvöll sem hún hvílir á.
  d) Að stuðla að því að þeim sem eru með geðræn vandamál, verði búin skilyrði til að njóta hæfileika sinna, menntunar og starfsorku og taka virkan þátt í samfélaginu.
  e) Að hafa samvinnu við önnur félagasamtök og hópa, er vinna að sömu eða svipuðum markmiðum, eða gerast aðili að þeim.
 4. gr.
  Félagar geta orðið allir þeir einstaklingar sem áhuga hafa á og styðja vilja tilgang landssamtakanna Geðhjálpar. Kosningarétt og kjörgengi í félaginu hafa allir fullgildir félagsmenn. Fullgildir félagsmenn teljast þeir er skráðir hafa verið í félagið mánuð fyrir aðalfund og greitt hafa styrktargjald í einn mánuð eða árgjald fyrir yfirstandandi ár. Ef félagsbundnir launaðir starfsmenn félagsins ná kjöri til stjórnarsetu, hætta þeir samhliða störfum sínum sem þeir þiggja laun fyrir.
  Stjórn er heimilt að greiða meðlimum stjórnar þóknun fyrir störf sem þeir vinna fyrir samtökin. Nánari reglur um slíka greiðslur skulu koma fram í starfsreglum stjórnar sem skulu vera aðgengilegar öllum félagsmönnum og birtar á heimasíðu samtakanna.
 5. gr.
  Rekstur félagsins skal tryggður með styrktar- og árgjöldum félagsmanna og öðrum þeim úrræðum, sem félagsstjórn ákveður. Hver félagsmaður greiðir frjálst mánaðarlegt styrktargjald eða árgjald og skal upphæð árgjaldsins ákveðin á aðalfundi. Gjöld félagsmanna renna í félagssjóð. Gjalddagi árgjalda skal vera hinn 1. febrúar ár hvert nema aðalfundur ákveði annað.
 6. gr.
  Aðalfundur, sem er æðsta vald félagsins, er haldinn í marsmánuði ár hvert, og skal til hans boðað með rafrænum hætti með tölvupósti (nema beðið sé um tilkynningu í hefðbundnum pósti), á heimasíðu félagsins og með auglýsingu í einu dagblaði með minnst þriggja vikna fyrirvara.

Tillögur um lagabreytingar skulu berast til stjórnar tveim vikum fyrir aðalfund.
Tillögur um framboð til formennsku og stjórnar skulu berast skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.
Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Fastir dagskrárliðir aðalfundar eru þessir:

1. Tillögur um framboð til formennsku og stjórnar kynntar.
2. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
3. Skýrsla gjaldkera og staðfesting reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár.
4. Ákvörðun um félagsgjald næsta árs.
5. Tillögur til lagabreytinga.
6. Kosning formanns.
7. Kosning annarra stjórnarmanna og skoðunarmanna.
8. Önnur mál.

Tillögur til lagabreytinga þurfa 2/3 greiddra atkvæða.

 1. gr.
  Félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins ákveður eða 15 félagsmenn krefjast þess skriflega og greina fundarefni. Er formanni þá skylt að boða til fundar sem haldinn er innan tveggja vikna frá því að honum barst krafan. Auglýsa skal hann fyrir félagsmönnum með rafrænum hætti í tölvupósti og á heimasíðu félagsins og tilgreina fundarefni.
 2. gr.
  Aðalfundi og öðrum félagsfundum stjórnar formaður félagsins eða sérstakur fundarstjóri, sem hann kveður til með samþykki fundarins.
  Fundargerð skal færa í gerðarbók félagsins og skrá þar ályktanir fundar og úrslit atkvæðagreiðslna og geta stuttlega annarra fundarmála.
  Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum.
 3. gr.
  Stjórn félagsins er skipuð 6 einstaklingum auk formanns og skulu þeir kosnir á aðalfundi. Formann skal kjósa sérstaklega til tveggja ára í senn. Meðstjórnendur skulu kosnir 3 í einu til tveggja ára og ganga árlega 3 úr stjórninni á víxl. Einnig skal kjósa 2 varamenn í stjórn til eins árs og 2 skoðunarmenn til eins árs. Ef aðalmenn hverfa úr stjórn skulu varamenn taka sæti þeirra í samræmi við atkvæðamagn að baki hverjum þeirra í kosningu á aðalfundi. Enginn skal sitja lengur samfellt í stjórn landssamtakanna Geðhjálpar en í 6 ár.
 4. gr.
  Stjórn félagsins skiptir með sér verkum eins og þurfa þykir.

Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim en skylt er honum að boða fund að ósk þriggja stjórnarmanna félagsins. Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna er mættur. Stjórn setur sjálf nánari reglur um starfshætti og tíðni stjórnarfunda.

Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða. Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins milli aðalfunda og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Undirskrift formanns og meðstjórnenda skuldbindur félagið. Jafnframt getur stjórn falið einstökum mönnum umboð vegna tiltekinna málefna og falið þeim að inna af hendi störf í þágu félagsins og einnig skipað sérstakar nefndir í því skyni.

Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjórinn fer með daglegan rekstur og fjármál félagsins í umboði stjórnar.

10. gr.
Auk stjórnar geta starfað stuðningshópar og hópar sem starfa að sérstökum verkefnum. Hópar þessir eru öllum opnir en stjórn landssamtakanna Geðhjálpar getur skipað fulltrúa í hópana.

11. gr.
Reikningar félagsins skulu fullgerðir svo fljótt sem unnt er og liggi frammi einni viku fyrir aðalfund til athugunar fyrir félagsmenn. Reikningsár er almanaksárið.
Reikningar félagsins skulu kannaðir og eða endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

12. gr.
Landshlutadeildir starfa á vegum landssamtakanna innan sveitarfélaga um landið allt. Deildirnar starfa í samræmi við lög landssamtakanna og eigin starfsreglur.

Tilgangur deildanna er að vinna að geðheilbrigðismálum og bættum hag fólks með geðrænan vanda með áherslu á aðstæður í viðkomandi sveitarfélagi. Deildirnar hafa sjálfstæðan fjárhag, þ.e. félagsgjöld og sjálfsaflafé rennur til starfsemi viðkomandi deildar.

Aðalfundur landshlutadeilda fer fram eigi síðar en mánuði fyrir aðalfund landssamtakanna í Reykjavík. Deildirnar skila ársskýrslum sínum til landssamtakanna í kjölfar ársfunda sinna. Bókhaldsgögnum vegna undangengis árs er skilað eigi síðar en í lok janúar til að að fella megi rekstrarlegar upplýsingarnar inn í ársreikning landssamtakanna.

Landshlutadeildir njóta faglegs stuðnings frá stjórn og starfsmönnum landssamtakanna í Reykjavík. Náið samráð skal vera um útgáfu fréttatilkynninga og annars efnis í nafni samtakanna á milli landssamtakanna og einstakra landshlutadeilda.

Stefnt skal að því að fulltrúi/ar landssamtakanna sæki einstakar landshlutadeildir heim á hverju ári.

13. gr

Tillögur um að slíta félaginu eða sameina það öðru félagi öðlast því aðeins gildi, að þær séu ræddar og samþykktar á tveimur félagsfundum í röð, með ekki minna en eins mánaðar millibili, og sé annar þeirra aðalfundur. Þarf jafnframt sama atkvæðamagn og við lagabreytingar. Auk þess þarf að liggja fyrir samþykki aðalstjórnar.
Samþykkt á aðalfundi landssamtakanna Geðhjálpar þann 19. mars árið 2016.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram