14. október 2022

Geðhjálparblaðið 2022

Í Geðhjálparblaðinu að þessu sinni er vakin athygli á þeirri staðreynd að geðheilbrigðiskerfið sé vanfjármagnað, eins og Geðhjálp hefur bent á um árabil. Fjárframlög til málaflokksins eru tæplega 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála en það megi áætla að umfang geðheilbrigðismála af opinberri heilbrigðisþjónustu sé í kringum 25%.

Elín Ebba Ásmundsdóttir, iðjuþjálfi og varaformaður Geðhjálpar, segir frá ferð til Norðurlandanna þar sem hún ásamt fulltrúum frá Heilbrigðisráðuneytinu, Geðsviði Landspítala og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar kynnti sér nýjungar í geðheilbrigðisþjónustu, m.a. Open Dialogue (opinni samræðu).

Í blaðinu er auk þess rætt við Nínu Eck, jafningja á Geðsviði Landspítalans, sem og Helgu Bjargar Baldvinsdóttur, mannréttindalögfræðing og þroskaþjálfa, sem fjallar um nauðungarvistun sem er róttæk aðgerð þar sem einstaklingur er sviptur frelsi og vistaður á sjúkrahúsi gegn vilja sínum og jafnvel beittur þvingaðri lyfjameðferð.

Héðinn Unnsteinsson hefur verið viðloðandi Geðhjálp í 30 ár og formaður samtakanna í tæp þrjú ár. Hann segir ýmislegt hafa breyst á þessum árum, margt jákvætt en að lyfjanotkun hafi margfaldast og æ fleiri greinist með geðraskanir.

Í blaðinu er einnig sagt frá verkefnum Geðhjálpar um þessar mundir, líkt og Geðlestina og fræðsludagskrá vetrarins, fólk úr ýmsum áttum gefur góð ráð um hvernig það ræktar geðheilsuna og fjallað er um athyglisverðar bækur og fræðandi og áhugaverð hlaðvörp um geðheilbrigðismál.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram