11. október 2022

Staðan í geðheilbrigðismálum

Landssamtökin Geðhjálp hafa um langt árabil bent á þá staðreynd að geðheilbrigðiskerfið er vanfjármagnað. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðiskerfið, sem kom út í vor, þá eru fjárframlög til málaflokksins tæplega 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála.  Á sama tíma er áætlað umfang geðheilbrigðismála af heildinni í kringum 25%. Í samantekt frá árunum 2007 til 2009 var framlag til geðheilbrigðismála áætlað í kringum 8%¹.

Það bera að hafa í huga að aðferðarfræðin var ekki sú sama við útreikningana en þetta er þó vísbending um að framlög til málaflokksins hafa dregist umtalsvert saman þessum árum. Fjárframlög til málaflokksins, af heildarframlögum til heilbrigðismála, hafa þannig dregist saman um tæp 40% á þeim rúma áratug sem liðinn er. Geðheilbrigðiskerfið hefur verið vanfjármagnað í áratugi og það er áhyggjuefni hve lítinn gaum stjórnvöld hafa gefið málaflokknum.

Afleiðingar þess að setja ekki geðheilsu í forgang og þá sérstaklega þegar horft er til forvarna og heilsueflingar birtast okkur m.a. í þessum staðreyndum²:

  • Árið 2014 mátu 81% barna í 8. til 10. bekk geðheilsu sína góða eða mjög góða. Árið 2021 var þetta hlutfall aðeins 57%.
  • Brottfall úr framhaldsskólum á Íslandi er 100% meira en á hinum Norðurlöndunum.
  • Árið 2021 féllu 18 einstaklingar á aldrinum 18 til 29 ára fyrir eigin hendi eða tóku of stóran skammt.
  • Öryrkjum vegna geðrænna áskoranna hefur fjölgað um 250% sl. 30 ár.
  • 36% þeirra sem létust á árunum 2016 til 2020 og voru á aldrinum 18 til 29 ára tóku eigið líf.
  • 35% þeirra sem létust á árunum 2016 til 2020 og voru á aldrinum 11 til 17 ára tóku eigið líf.
  • 70% þeirra sem létust árið 2021 og voru á aldrinum 18 til 29 ára tóku eigið líf eða tóku of stóran skammt.

Það er okkar sem samfélags að bregðast við þeirri óheillaþróun sem tíunduð hefur verið hér á undan. Afleiðingar vanfjármögnunar geðheilbrigðiskerfsins birtast okkur m.a. með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Þetta er hins vegar ekki tæmandi útlistun á afleiðingum þessa og má þar m.a. nefna geðheilbrigði eldri borgara og fjölgun öryrkja vegna geðrænna áskoranna svo eitthvað sé nefnt. Geðheilbrigði barna og það að styðja við foreldra er hins vegar mikilvægasta verkefnið. Það að beina sjónum að orsökum í stað afleiðinga er leiðin sem kemur til með að gagnast okkur best.

Eftirfarandi eru níu aðgerðir sem ráðast þarf í til þess að setja geðheilbrigði í forgang (sjá nánar á www.39.is):

  1. Gera heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi
  2. Efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og gera þjónustuna þverfaglegri
  3. Stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra
  4. Hefja niðurgreiðslu viðtalsmeðferða
  5. Gera geðrækt hluta af aðalnámskrá grunnskóla
  6. Fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir
  7. Byggja nýtt húsnæði geðsviðs LSH, og á Akureyri, og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar
  8. Útiloka nauðung og þvingun við meðferð
  9. Koma á fót Geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál

Fyrir hönd stjórnar landssamtakanna Geðhjálpar


¹Héðinn Unnsteinsson. Geðheilsa á Íslandi – Staða og þróun til framtíðar. Geðvernd – Rit Geðverndarfélags Íslands 2011; 6-14.
²Unnið úr gögnum Embættis landlæknis og Norrænu ráðherranefndarinnar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram