13. október 2023

Geðhjálparblaðið 2023

Í blaðinu að þessu sinni er rætt við Helgu Arnardóttur, kennara og fyrrum verkefnastjóra í Bataskóla Íslands, sem segir frá tilurð skólans sem býður upp á námskeið tengd geðheilsu og leiðum til að hlúa að geðheilsu. Sérstaða skólans er sú að hann byggir á batahugmyndafræði og er kjarninn í henni að þeir sem glíma við geðrænar áskoranir eigi að stýra því hvernig þjónustu gagnvart þeim er háttað og stýra eigin bataferli í samræmi við eigin vilja og lífsgildi.

Pálína Sigrún Halldórsdóttir, iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Grófarinnar á Akureyri, segir frá starfinu og þeirri dagskrá sem boðið er upp á en þar skiptir mestu máli að þátttakendur sjálfir komi með hugmyndir að hópum eða námskeiðum og taki þátt í framkvæmd. Dröfn Árnadóttir og Elín Ósk Arnarsdóttir lýsa því hvernig starfsemi Grófarinnar hefur hjálpað þeim með þeirra bataferli.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, skoðar tölfræði yfir notkun geðlyfja á Íslandi yfir 10 ára tímabil. Í aldurshópunum 6 til 17 ára annars vegar og 18 til 44 ára hins vegar, koma áhugaverðar og um margt sláandi niðurstöður í ljós.

Flosi Þorgeirsson missti föður sinn átta ára gamall sem hafði mikil áhrif. Hann fór að drekka 12 ára gamall, misnotaði áfengi og önnur vímuefni um árabil og hélt alltaf að vanlíðan væri drykkjunni að kenna. Sjálfsvísgshugsanir gerðu vart við sig og hann skaðaði sjálfan sig. Svo kom að því að hann fór á geðdeild árið 2009. Það breytti öllu. Hann hélt svo áfram í hugrænni atferlismeðferð og þrátt fyrir um fjögur árleg þunglyndistímabil síðustu ár, sem standa yfirleitt yfir í nokkrar vikur, líður honum almennt vel og horfir á framtíðina björtum augum.

Rætt er við Ólaf Sveinsson, sem hefur upplifað þunglyndi og kvíða frá því á barnsaldri. Hann fékk viðeigandi aðstoð á fullorðinsárum og tók þá þunglyndislyf um tíma sem hjálpuðu en virkilega vellíðan fór hann að finna fyrir þegar hann byrjaði í göngum og það varð til þess að hann hætti að taka þunglyndislyf. Ólafur vann um árabil sem leiðsögumaður á fjöllum.

Í blaðinu er einnig sagt frá ráðstefnu Geðhjálpar um samfélagsbreytingar sem haldin var í apríl á þessu ári og fræðsludagskrá vetrarins, auk þess sem fólk úr ýmsum áttum segir frá því hvað það telji einkenna gott geðræktandi samfélag. Þá er að lokum fjallað um athyglisverðar bækur og fræðandi og áhugaverð hlaðvörp um geðheilbrigðismál.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram