30. mars 2022

Geðlestin aftur komin á fulla ferð

Það er vor í lofti og loksins hefur daginn tekið að lengja. Slíkt hefur eitt og sér oft jákvæð áhrif á líðan og geðheilsu fólks en þó þarf að hlúa að geðinu með því að leggja rækt við það, rétt eins og ávinningur þess að hreyfa sig, borða hollan mat og fá nægan svefn skilar sér í betri heilsu.

Inntaka G-vítamíns er ein leið til að stunda geðrækt en G-vítamín dagatali Geðhjálpar var afar vel tekið á þorranum. Hlutverk dagatalsins er að styrkja geðheilsu landsmanna og þannig verja okkur og styrkja í mótbyr. Það bauð upp á 30 skammta af G-vítamíni, einföldum ráðum sem eru verndandi þættir geðheilsunnar.

Við fengum Gallup til að kanna viðhorf landsmanna til dagatalsins. Niðurstaðan var á þá leið að 75% landsmanna yfir 18 ára aldri tóku eftir verkefninu. Tæp 40% aðspurðra fóru mikið eftir geðræktarráðum dagatalsins og 98% þeirra sem tóku þátt fylgdu daglegu ráðleggingunum að nokkru leyti.

Verkefnið stækkar ár frá ári og fylgir því vel stefnu Landssamtakanna Geðhjálpar sem er að rækta geðheilsu Íslendinga.

Geðlestin

Geðlestin hefur heimsótt 66 skóla víðsvegar um landið

Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla sem byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Fræðslan fer þannig fram að fyrst er spilað myndband, því næst segir ungur einstaklingur frá sinni persónulegu reynslu af geðrænum áskorunum, eftir það eru umræður og loks stutt tónlistaratriði.

Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvindi og þá er eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp. Öflug geðrækt frá unga aldri er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins.

Í dag hefur Geðlestin stoppað í 66 skólum víðsvegar um landið og stefnir á að fara í 143 skóla um allt land. Covid-takmarkanir settu strik í reikninginn svo lestin neyddist til að taka hlé í nóvember á síðasta ári en hélt aftur af stað undir lok febrúar. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af félags- og heilbrigðisráðuneytunum.

Geðhjálp er leiðandi afl í geðheilbrigðismálum Íslendinga sem stendur að gerð geðræktarefnis fyrir alla aldurshópa, notendur og aðstandendur. Fræðsla upprætir fordóma og gerir samfélagið að betri stað fyrir okkur öll. Því öll erum við jú með geð.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram