30. nóvember 2022

Geðlestin hefur lokið yfirferð sinni í alla grunn- og framhaldsskóla Íslands

Geðlestin lauk ferðalagi sínu um landið með heimsókn í Flóaskóla þriðjudaginn 29. nóvember en það var 174. heimsókn Geðlestarinnar í grunn- og framhaldsskóla. Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla þar sem leitast er við að kynna mikilvægi þess að leggja stund á geðrækt frá fæðingu og út allt lífið. Staðreyndin er nefnilega sú að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta.

Ferðalag Geðlestarinnar hófst 1. nóvember 2021 og var stefnan sett á að heimsækja grunn- og framhaldsskóla landsins á nokkrum mánuðum en Covid setti strik í reikninginn og því teygðist úr ferðalaginu. Nú er hins vegar búið að heimsækja þá skóla sem sáu sér fært að taka á móti Geðlestinni en heimsóttir voru 133 grunnskólar og 30 framhaldsskólar víðsvegar um landið.

Um Geðlestina

Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvind og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af félags- og heilbrigðisráðuneytunum.

Geðlestinni er ætlað að vekja athygli á mikilvægi geðheilsu og verndandi þáttum hennar. Hver heimsókn fer þannig fram að fyrst er sýnt leikið myndband, þá segir ungur einstaklingur frá sinni persónulegu reynslu af geðrænum áskorunum, eftir það umræður og í lokin er stutt tónlistaratriði. Samtals tekur fræðslan um 50 mínútur.

Markmiðið með Geðlestinni er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Lífið býður upp á allskonar áskoranir og stundum þurfum við að leita okkur aðstoðar við verkefni lífsins. Það er eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins.

Myndir frá ferðalaginu

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram