21. október 2023

Grófin Geðrækt: Valdefling, bati og jafningjastuðningur

Grófin geðrækt er starfrækt á Akureyri. „Áherslan hjá okkur er að Grófin sé staður sem fólk getur nýtt sér til að vinna í batanum og bæta lífsgæði sín,“ segir Pálína Sigrún Halldórsdóttir, iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Grófarinnar. Ýmiss konar dagskrá er í gangi og skiptir þar miklu máli að þátttakendur sjálfir komi með hugmyndir að hópum eða námskeiðum og taki þátt í framkvæmd.

Grófin geðrækt er afrakstur grasrótarhóps sem vann að undirbúningi að stofnun Grófarinnar á árunum 2011-2013. Starfið þróaðist í svipaða átt og Hugarafl hafði verið að vinna og fengu stofnaðilar aðstoð og efni frá þeim til að byrja með svo segja má að í upphafi hafi Grófin þróast sem nokkurs konar systursamtök Hugarafls. Grófin geðverndarmiðstöð var stofnuð 10. október 2013 en nafninu var síðar breytt í Grófina geðrækt í takt við þróun starfsins og áherslur,“ segir Pálína Sigrún Halldórsdóttir, iðjuþjálfi og framkvæmdastjóri Grófarinnar.

„Grasrótarhópurinn samanstóð af fólki með reynslu af andlegum erfiðleikum sem hafði nýtt sér heilbrigðiskerfið vegna þess, aðstandendum þeirra og fagaðilum. Á meðal stofnfélaga var meðal annars fólk úr Geðverndarfélagi Akureyrar. Þetta var fólk sem trúði því að það þyrfti svona stað í okkar samfélag. Það er skortur á opnum úrræðum sem fólk getur nýtt sér þegar því finnst þörf vera á og gengið inn í hvenær sem er og fengið þar stuðning jafningja. Það var það sem fólk vildi. Það vildi líka skapa samfélag þar sem það gæti tengst öðrum sem hafa svipaða reynslu og að staðurinn gæti verið vettvangur fyrir aðra til að koma og vera með fræðslu eða annað tengt geðvanda eða geðrænum málum.

Við höfum sótt í að fá fólk til okkar og hafa verið opnir fyrirlestrar frá ýmsum fagaðilum eftir því sem þátttakendur Grófarinnar hafa óskað eftir. Einnig eru ADHD samtökin dæmi um fræðslu sem var um nokkurra ára skeið í Grófinni og fengu þau aðgang að salnum okkar. Hugmyndin með stofnun Grófarinnar er þó aðallega að hérna verði til samfélag fólks með reynslu sem getur deilt til annarra og miðlað í þeim tilgangi að auka lífsgæði sín og vinna í bataferli sínu. Það hefur verið rauði þráðurinn í starfi og Grófin hefur svo byggt ofan á þann grunn.“

Sjálfboðavinna

Grófin er notendastýrt úrræði og þar er níu manna stjórn. „Ég er ekki í stjórn og hef því ekki atkvæðarétt en ég sit stjórnarfundi og kem með málefni inn á fund eftir þörfum. Um er að ræða aðalstjórn og varastjórn og eru allir lykilmenn í aðalstjórn notendur eða fyrrum notendur Grófarinnar. Þannig að allar grundvallarákvarðanir er varða Grófina og stefnumótun svo sem hvar og hvernig Grófin starfar, fyrir hvaða hóp hún er, fjármögnun og annað slíkt fer fyrir stjórnina. Dagleg starfsemi er unnin gegnum vikulega kjarnafundi og dagskrárgerðardaga sem haldnir eru þrisvar til fjórum sinnum á ári. Allir sem sækja Grófina geta komið með tillögur um hópastarf, einstaka viðburði, fræðsluerindi eða annað slíkt sem þau myndu vilja sjá í Grófarstarfinu. Sé fólk búið að stunda Grófina um nokkurt skeið og komið á þann stað í bataferlinu að það vilji bjóða upp á dagskrárlið eða einstaka viðburði eða hjálpa til við dagskrárlið þá getur það komið með það tilboð inn á kjarnafundinn líka.

Við erum með ýmislegt á dagskránni bæði sem þátttakendur bjóða upp á en líka utanaðkomandi aðilar. Við erum til dæmis með „líkamsrækt í Eflingu“ en henni stýrir sjúkraþjálfari. Þetta er ókeypis fyrir okkar þátttakendur og með þessu móti fá þátttakendur tækifæri til að fá ráð hjá sjúkraþjálfara sem og að taka þátt í þrekhring með tilsögn og hvatningu þjálfara. Í slíkum hópi myndast oft góð stemmning sem gerir hreyf­­inguna skemmtilega. Einnig höfum við verið með sönghóp sem er annar utanaðkomandi dagskrárliður en þar er spilað á gítar og sungin íslensk lög. Sem dæmi um dagskrárliði sem komnir eru frá þátttakendum eru til dæmis jóga, kínaskák, umhyggjufundur, spilakvöld, spænka, English talk circle, hreyfing og tónlistarhópur. Þetta er dagskrá sem verður til út frá hugmyndum notenda og kröftum þeirra sem eru komnir á þann stað að þeir geta og vilja bjóða fram sína krafta í að hjálpa öðrum en það er í senn gefandi og valdeflandi.“

Sumir koma í Grófina til að spjalla við aðra og sækja hóptíma til að bæta sína líðan og lífsgæði en svo eru aðrir sem vilja auka virkni sína og sjá um ákveðin verkefni, jafnvel ákveða tíma sem þeir velja að vinna í sjálfboðavinnu og stundum hefur það leitt til næsta skrefs hjá fólki í endurhæfingu sem stefnir á vinnumarkað sem er vinnusamningur gegnum VMST í hlutastarfi. „Það er þá fólk sem kemur í Grófina í þeim tilangi til að ná ákveðnum stað hvað varðar úthald, félagslega og vinnugetu með því að sinna einhverjum störfum innan Grófarinnar. Til að nýta Grófina þarf að taka ábyrgð á eigin bata, það er enginn sem ákveður fyrir fólk hvernig það eigi að vinna í sínum málum. Þetta gengur svolítið út á að fólk finni hjá sér hvað það er sem vantar og leiti eftir því.

Við sem hér störfum dagsdaglega reynum að aðstoða og finna leiðir til þess að fólk geti fengið það sem það er að leita eftir. Það skiptir miklu máli að þeir sem hér starfa hafi reynslu til að miðla af og því er mikilvægt að ná að halda í fólk sem hefur það og er komið langt í bataferli og líka er gott þegar það fer saman að fólk hafi menntun á heilbrigðis- eða félagssviði, reynslu af slíkum störfum en einnig lifaða reynslu af andlegum veikindum og bataferli. Þetta er þá fólk sem er komið á þann stað að treysta sér til að skuldbinda sig til að mæta til vinnu og sinna vinnunni og er jafnframt tilbúið að miðla af reynslu sinni á jafningjagrundvelli. Fólkið sem kemur í Grófina er oftast að leita að jafningjastuðningi en mörgum gagnast líka mjög vel að geta fengið faglega aðstoð hjá þeim sem hafa jafnframt menntunina og geta veitt slíka aðstoð.“

Svo er margt fólk sem sækir Grófina en vinnur þar ekki hlutastörf en deilir samt reynslu sinni af því hvað hefur gagnast því í bataferlinu sem þá gagnast öðrum. „Það gerir það markvisst og tekur þá að sér að stýra einhverjum hópi eða vera með einhverja fræðslu innan einhvers hópsins eins og í geðrækt. Áherslan hjá okkur er hvernig fólk getur nýtt Grófina til að bæta lífsgæði sín og til þess að vinna í batanum, til þess að valdefla sig og komast á þann stað sem það vill vera á í lífinu. Hugmyndafræðin sem leiðir starfið er: Valdefling, bati og jafningjastuðningur. Það er fókusinn. Og það var ákveðið í upphafi að þetta yrði fókusinn og svoleiðis verður það áfram. Starfsemin hefur þróast í gegnum árin en formið hvað varðar ákvarðanatöku er alltaf það sama og þar er þessi hugmyndafræði leiðandi.“

Vinna gegn fordómum

Pálína segir að Grófin sé núna í góðum tengslum við göngudeild geðdeildar á sjúkrahúsinu á Akureyri. „Á göngudeildinni hefur undanfarið verið unnið markvisst með batahugmyndafræðina í uppsetningu innra starfs og í þeirri vinnu var leitað eftir því að setja Grófina á dagskrá göngudeildarinnar sem val einu sinni í viku síðasta vetur.

Það hefur gengið vel og mjög margir mætt hingað og allmargir einstaklingar hafa svo haldið áfram að stunda Grófina í framhaldinu. Hér í Grófinni er tekið á móti þeim og þau taka þátt í því sem er í gangi í húsinu í hópastarfinu eða spjalla við þá sem hér eru. Út frá þessu samstarfi hefur það þróast svo að nú er hér hópur sem hittist einu sinni í viku og spilar kínaskák og er sá hópur í umsjón þátttakenda sem komu með þá tillögu að setja hann á dagskrá. Sá hópur er opinn öllum sem langar til að læra kínaskák og vera með að sjálfsögðu. Nú þegar hefur verið haldið eitt opið kínaskákmót sem alfarið var skipulagt og framkvæmt af aðilum úr þessum hópi.

Það er valdefling í verki sem er akkúrat það sem Grófarstarfið gengur út á. En við finnum að það þarf oft svolítið til þess að fólk vilji gefa stað eins og Grófinni tækifæri og tíma til að sjá hvort sú þátttaka hefur jákvæð áhrif á líf viðkomandi. Þannig að við þurfum alltaf að vera á tánum til að allir viti af okkur og heyri af því hversu fjölbreyttar leiðir eru innan Grófarinnar til að nýta í bataferlinu. Þá er að sjálfsögðu mikilvægt að heyra raddir þeirra sem hafa nýtt Grófina og hvernig sú reynsla hefur skilað þeim betri lífsgæðum. Þetta snýst líka um að skora á hólm innri fordóma og prufa að mæta, labba inn og gefa þessu starfi sem fram fer í Grófinni tækifæri.“

Geðfræðsluteymi Grófarinnar hefur verið með fræðslu um geðheilsu, geðræn veikindi, batavinnu og bjargráð í grunnskólum og framhaldsskólum. ,,Það er eitt mikilvægasta verkefnið sem Grófin vinnur að sem samfélagsúrræði en jafnframt mjög vandasamt. Fólkið sem fer í skólana þarf að vera búið að vinna í sínum bata og komið á ákveðinn stað þannig að það geti sagt frá því hvernig það hafi náð bata og hvaða bjargráð það nýti til að takast á við vanlíðan og erfiðar tilfinningar. Það er mikilvægt að hægt sé að svarað spurningum frá krökkunum út frá reynslunni og þar af leiðandi að hafa verið á þeim stað sem einhver ungmenni munu lenda í eða eru á þegar í 9. bekk.

Markmiðið er að vinna gegn fordómum, opna augu krakkanna um afleiðingar ýmissa erfiðleika á tilfinningalífið og hvernig hægt sé að takast á við þær en líka vinna forvörnina; koma sér upp bjargráðum og kunnáttu til að rækta geðheilsuna rétt eins og líkamann. Það þarf að auka skilning á þessu málefni en krakkarnir tengja ekki enn mikið við orðið geðrækt og þátt geðræktar í heilbrigði. Þannig að við erum meðal annars að vinna gegn fordómum í þessu í gegnum geðfræðsluna og að þau viti hvar og hvernig hjálp er að finna í samfélaginu. Undanfarin tvö ár hefur Grófin einnig nýtt samfélagsmiðlana meira til þess að vinna gegn fordómum, sérstaklega Instagram.“

Pálína segir að þau hjá Grófinni vilji vinna meira í vitundarvakningu; vinna gegn fordómum. „Fordómarnir koma alltaf aftur og aftur upp. Grófin verður 10 ára 10. október næstkomandi og þá verður afmælisvika með ýmsum viðburðum. Eitt af því sem okkur langar að gera er að halda málþing um hvernig við getum unnið með innri fordóma­ fólks. Við höfum leitað til Háskólans á Akureyri um samstarf og vonandi kemur eitthvað spennandi út úr því. Ég hef svo margoft heyrt um og hitt fólk sem kemur hingað og sem hafði verið að hugsa um að koma í Grófina af og til í nokkur ár en hélt að Grófin væri ekkert fyrir það; sumir halda að þeir þurfi að passa inn í ákveðið mót, hafa ákveðnar greiningar og þess háttar til að koma. Fólk er líka hrætt við stimplun, að það fréttist af því að það sé hér og það er auðvitað af því að fólk þekkir ekki Grófina og heldur að hún sé nokkurs konar endastöð sem er alls ekki. Við þurfum að vera dugleg að láta vita af Grófinni, að hún sé fyrir marga góð leið í bataferlinu. Sú rödd þarf að heyrast meira.“

Pálína vill að allir viti af Grófinni geðrækt og samskonar úrræðum. „Það getur komið fyrir alla að veikjast andlega. Ég vil ekki að fólk líti á það sem ósigur að koma á svona stað, hvort sem það er í kjölfar innlagnar eða vegna vanlíðanar og óvirkni. Við þurfum einhvern veginn að vinna í þessu og við vitum að einvera og vanvirkni er engum holl. Við þurfum að horfa til framtíðar og vinna saman sem heild. Við erum til að mynda að vinna í því að auka samstarf við úrræði sem eins og VIRK, Vinnumálastofnun og Starfsendurhæfingu Norðurlands sem og velferðarsvið Akureyrarbæjar.

Við þurfum að skoða hvort við getum ekki betur nýtt það sem er til staðar í samfélaginu, unnið saman í að búa til sem fjölbreyttust tilboð í batavinnu út frá þörfum þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Við viljum gjarnan geta nýtt krafta okkar til að hjálpa fólki að nýta Grófina sem part af sínum endurhæfingaáætlunum fremur en að vera í því að gera endurhæfingarsamninga með fólki. Þannig sjáum við fyrir okkur hópa sem höfða þá til þess fólks en til að það geti orðið þurfum við að gera þetta að formlegum samningum á milli Grófarinnar og viðkomandi úrræðis sem vísar til okkar.“

Pálína segir að þó að mestu skipti auðvitað að Grófin sé hlýlegt og gott samfélag sem gott sé að koma inn í sé það líka mikilvægt að geta boðið upp á einstaklingsaðstoð þegar þess er þörf og hreinlega nauðsynlegt oft og tíðum og það sé vissulega gert en gæti verið meira og markvissara.

„Það er nokkuð sem okkur langar að geta gert enn betur í framtíðinni og þá þurfum við að bæta við stöðugildi og okkur langar líka til að geta bætt húsakost okkar og erum reyndar byrjuð að vinna að því. Akkúrat núna erum við með þrjú stöðugildi og það er það mesta sem við höfum nokkurn tímann haft en stöðugildin verða 2,5 í upphafi vetrar. Það er svolítill barningur að ná í fjármagn eins og þekkt er í þriðja geiranum en auðvitað þarf fjármagn til þess að svona starfsemi nái að þróast áfram svo það þarf að breytast.

Grófin geðrækt hefur vaxið og dafnað í þau 10 ár sem hún hefur verið starfandi þökk sé mörgu góðu fólki, ekki síst öflugum frumkvöðlum með fallega hugsjón. Í Grófinni verða áfram fjölbreytt verkefni sem í senn reynast Grófarfólki valdeflandi og nærandi og áfram mun byggt á lýðræðislegum grunni í starfseminni. Aðsókn í Grófina hefur aldrei verið meiri en síðustu tvö árin og verkefnið er að leita leiða til að það fólk sem hingað sækir fái sem mest út úr því að gerast Grófarfélagi og taka þátt í því góða starfi sem fer fram.“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram