Flosi Þorgeirsson missti föður sinn átta ára gamall sem hafði mikil áhrif. Hann fór að drekka 12 ára gamall, misnotaði áfengi og önnur vímuefni um árabil og hélt alltaf að andleg vanlíðan væri drykkjunni að kenna. Sjálfsvísgshugsanir gerðu vart við sig og hann skaðaði sjálfan sig. Svo kom að því að hann fór á geðdeild árið 2009. Það breytti öllu. Hann hélt svo áfram í hugrænni atferlismeðferð og þrátt fyrir um fjögur árleg þunglyndistímabil síðustu ár, sem standa yfirleitt yfir í nokkrar vikur, líður honum almennt vel og horfir á framtíðina björtum augum.
Hann fæddist árið sem Hey Jude með Bítlunum sló í gegn sem og (Sittin’ On) The Dock of the Bay með Otis Redding og ólst upp í Kópavogi.
Pabbi dó af slysförum þegar ég var bara átta ára og ólst ég upp hjá einstæðri móður. Svo á ég hálfsystkini sem eru öll töluvert eldri en þau hafa öll sinnt mér vel og sambandið er gott.“ Faðir Flosa Þorgeirssonar vann hjá Vegagerðinni. „Hann keyrði þunga vinnuvél og vegurinn gaf sig undir Ólafsvíkur-renni.“ Flosi segist stundum hafa farið með föður sínum í vinnuferðir og svo var í þetta skipti; hann varð þó ekki vitni að slysinu og var sagt að pabbi hans hafi meitt sig aðeins og hafi þurft að fara á spítala.
Flosi segir að það hafi orðið það mikil breyting á sér eftir að faðir hans dó að ákveðið hafi verið að senda hann til sálfræðings. „Ég hafði verið ofsalega líflegt og skemmtilegt barn; systkini mín hafa sagt að ég hafi alltaf verið hress og kátur og fljótur að læra að lesa og góður í að læra utan að og ég fór með alls konar vísur og sagði sögur og var áhugasamur um ýmislegt. Þetta breyttist. Ég hætti að tala og fór inn í sjálfan mig. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort þetta hafi ýtt undir þunglyndið en það þarf ekkert að vera. Það getur vel verið að ég hefði hvort sem er orðið þunglyndur. Mér finnst það ekkert vera ólíklegt miðað við hvað þunglyndi er algengt. Þetta hjálpaði allavega ekki til.“
Hann segist hafa komist að mestu út úr skelinni en hann varð hins vegar mjög myrkfælinn.
Flosi var lagður í einelti í skólanum.
„Það var kannski út af því að ég var skrýtinn og afskiptur. Ég var stundum með allt of sítt hár og var oft illa lyktandi og í sömu fötunum. Sumum krökkum var ekki sama og einn strákur kom reglulega og fylgdi mér í skólann af því að ég vildi ekki fara í skólann. Minnihlutinn tók þátt í eineltinu. Meirihlutinn gerði ekki neitt. Mér leið hræðilega út af eineltinu og brást við með ofbeldi og sló til baka; einu sinni sló ég strák sem gekk alltaf hart fram í einelti gegn mér það illa að hann fékk blóðnasir og þá kom kennari og þá var allt mér að kenna. Eineltið hætti svo smám saman.“
Flosi segir að hann hafi síðar farið sjálfur að leggja í einelti. „Mér líður miklu verr með að hafa lagt í einelti heldur en að hafa verið lagður í einelti.“
Hann segist hafa staðið sig vel í skóla og tónlistin heillaði. Hann átti sér samt enga drauma. Segist telja að það tengist áfallinu. Föðurmissinum.
„Ég gat aldrei svarað þeirri spurningu hvað mig langaði til að verða þegar ég yrði stór. Ég fór að leita mikið í músík og fór hún að verða rosalegt haldreipi þegar ég var 10 - 11 ára. Ég vildi verða eins og gæjarnir í Smokie og Slade og margar konur höfðu líka áhrif eins og til dæmis Suzi Quatro sem mér fannst vera flott en hún var í rauðum leðursamfestingi með bassa. Þetta fólk virtist vera svo fullt af sjálfsöryggi.“
Sjálfur segist hann hafa verið mjög týndur á þessum tíma og skort sjálfsöryggi. „Músíkin breytti því þó dálítið. Hún er mikið haldreipi. Mamma studdi mig í þessu og ég fékk gítar 13 ára gamall og svo gaf hún mér líka rafmagnsbassa þegar ég var 15 ára. Þannig að þetta er mikið henni að þakka.“
Flosi lærði á gítar hjá Ólafi Gauki og svo var hann í Tónlistarskóla Kópavogs.
Ólga kraumaði undir niðri.
„Ég var farinn að koma mér í meiri og meiri vandræði. Ég var að verða óknyttastrákur. Ég var farinn að leggja aðra í einelti eins og ég sagði og var kominn í hálfgert gengi þegar ég var 12 ára. Þetta var pönkaragengi sem allir krakkar í Kópavogi voru skíthræddir við.“
Flosi er spurður hvers vegna hann hafi verið í þessu gengi.
„Einhvern veginn æxlaðist þetta. Það voru einhver vandamál hjá langflestum vinum mínum. Ég held við höfum rottað okkur saman; við vorum ekki frá fullkomnum fjölskyldum.“
Flosi er spurður hvers vegna hann hafi verið í þessu gengi. „Einhvern veginn æxlaðist þetta. Það voru einhver vandamál hjá langflestum vinum mínum. Ég held við höfum rottað okkur saman; við vorum ekki frá fullkomnum fjölskyldum.“
Hann segist halda að hann hafi verið með innri sár eftir föðurmissinn sem átti eftir að taka á. „Það voru smá þjófnaðir og skemmdarverk og á endanum var ég rekinn úr skólanum en átti það kannski ekki skilið af því að aðrir í þessu gengi höfðu brotist inn í skólann og unnið þar einhver skemmdarverk. Ég var ekki með í því. Svo var lögreglan farin að hafa afskipti af mér og eitt sinn þegar löggan keyrði mig heim voru öll systkini mín mætt og sögðu að þetta gengi ekki. Þau eru frábær. Þau eru alltaf til staðar. Það mikilvægasta í heiminum finnst mér vera að það sé einhver sem sýni að honum er ekki sama.“
12 ára í gengi sem krakkar voru hræddir við. Hvernig leið Flosa á þessum tíma?
„Mér leið ögn skár. Ég átti allavega vini. Við vorum ofsalega áhugasamir um tónlist og ég tengdi rosalega við pönkið. Ég fór fljótlega að leita í þannig tónlist sem var dálítið hörð og grimm og sem hreyfði dálítið við manni. Ég held að þetta tengist innri sársauka og svona tónlist vill bara koma í staðinn. Að sama skapi fann ég að hryllingsmyndir höfðu sömu áhrif. Þær slógu á deyfðina í mér og sköpuðu samkennd með fólki sem var á flótta undan brjálæðingum með keðjusagir. Mér finnst í dag hörð og grimmileg músík alveg frábær og róandi ef eitthvað er. Ég er sannfærður um að þetta geti slegið á einhverja innri vanlíðan.“
Hann segist eiginlega hafa verið sama um allt á þessum tíma og ekki verið með neinn metnað. „Mér stóð þó ekki á sama þegar ég var á lögreglustöðinni 12 ára og þeir voru að taka af okkur fingraför og sögðu að nú værum við komnir á lista yfir glæpamenn og að þetta væri ömurleg leið sem við værum á. Ég held þeir hafi verið að hræða okkur. Það virkaði svo sem á okkur. Mér leist ekkert á þetta. Ég hafði séð fingraför tekin í Andrésblöðum og í bíómyndum.“
Flosi byrjaði að reykja og drekka 12 ára gamall. „Við stálum vodka frá pabba vinar míns,“ segir hann um fyrsta sopann. „Mér fannst það frábært þegar ég fór að finna áhrifin. Þetta var málið; það komu allt í einu einhver áhrif og allt var í lagi. Það var engin vanlíðan. Allt var æðislegt og ég var frábær. Allir voru svo fyndnir og skemmtilegir. Þetta vildi ég! Allir alkóhólistar þekkja þetta.“
Hann segir að móðir sín hafi ekki haft neina stjórn á sér og að ákveðið hafi verið að hann byggi hjá einum bróður sínum sem bjó úti á landi. Flosi var þá 13 ára og þar var hann í eitt og hálft ár auk þess sem hann var um tíma líka hjá systur sinni sem bjó á Akureyri. „Hann vissi að það þurfti að aga mig og byrjaði strax á því að neyða mann til að gera skelfilega hluti eins og að ganga frá disknum mínum eftir matinn og jafnvel hjálpa til við að vaska upp.“
Svo vildi Flosi fara aftur suður og hann segir að móðir sín hafi líka viljað að hann kæmi suður. Hann segir að hann hafi þó ekki verið erfiður á þeim tíma sem hann bjó hjá systkinum sínum.
„Ég fór aftur dálítið í rugl og vitleysu og fór að hanga á Hlemmi með krökkum sem áttu við einhver vandamál að stríða.“ Flosi segir að ef eitthvað annað en áfengi var í boði þá hafi hann klárlega prófað það.
„Á þessum tíma, í kringum 1981 - 1982, var litið á hass eins og litið er á heróín í dag. Ég kunni aldrei sérstaklega að meta það - ég kunni aldrei að meta hass eða maríjúana og mér fannst það ekki virka - en við sniffuðum líka lím. Mér fannst samt áfengi eiginlega duga. Þessi vímuefni slá á einhverja vanlíðan en það hefur alltaf verið rauður þráður í minni neyslu.“
Hann segist hafa verið mjög týndur á aldrinum frá tvítugu og upp í þrítugt. „Ég vissi ekkert hvað ég vildi í þessu lífi. Ég hafði flosnað upp úr skóla en vissi að ég var ágætlega gefinn og mér gekk ekki illa í skóla. Það vantaði að hafa markmið til að stefna að. Ég vissi um krakka sem gekk verr en ég en þeir höfðu markmið og stuðning. Bakland. Ég hætti í skóla 18 ára og sá eftir því síðar. Það var mikill persónulegur sigur þegar ég fór í háskólann orðinn rúmlega fertugur,“ segir Flosi sem er ekki með stúdentspróf en komst inn í Háskóla Íslands til að læra dönsku, en hann hafði búið í Danmörku, og eftir fyrsta árið skráði hann sig í sagnfræði. Hann lauk BA-náminu og tók öll námskeið í meistaranáminu í sagnfræði en skrifaði aldrei meistararitgerðina en er nú í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun ásamt því að vera með hlaðvarpið Drauga fortíðar.
„Ég kynntist konu þegar ég var 22 ára. Við tókum saman og eignuðumst síðan tvö börn en hún átti eitt barn fyrir. Ég ákvað að hætta að drekka 24 ára og reyna að vera fjölskyldufaðir. Það var alveg fínt og fluttum við svo til Danmerkur. Mér leið mjög vel fyrst eftir að ég hætti að drekka en smátt og smátt fór allt að verða litað af þunglyndinu. Allt varð grárra, tilgangslausara og ég varð týndari. Mér leið eins og svellið undir fótum mínum væri að minnka. Það fór að braka meira í því; það var einhvern veginn sú tilfinning.“
Flosi fór til sálfræðings í Danmörku og var greindur með þunglyndi. „Þá var ég ekki búinn að drekka í mörg ár og ég hélt ég væri bara alkóhólisti; það var alveg nóg. Það eru fá vandamál sem áfengi gerir ekki verra. Geðsjúkdómar og áfengi eru ómöguleg blanda.“
Hann tók þunglyndislyf en fannst þau ekki virka.
Flosi fór í skóla í Danmörku og rúmlega þrítugur útskrifaðist hann sem sjúkraliði og vann hann á geðdeildum þar en þess má geta að hann hafði unnið á geðdeild Landspítalans áður en hann flutti til Danmerkur og svo fór hann aftur að vinna þar eftir að hann flutti aftur til Íslands. „Ég fékk innsýn inn í geðsjúkdóma og ég held að það hafi hjálpað mér mikið.“ Flosi var 23 ára þegar hann sótti fyrst um vinnu á geðdeild Landspítalans. „Það var af því að ég hafði svo mikinn áhuga á þessu. Kannski af því að ég er geðveikur sjálfur! Þetta var bara eitthvað öðruvísi og þetta var svo ofboðslega mikið tabú.“
Flosi er spurður hvaða heimi hann hafi kynnst þegar hann vann á geðdeildunum. „Ég kynntist rosalega mikilli eymd. Það er það fyrsta sem mér dettur í hug. Ég vissi varla að svona mikil eymd gæti verið til. Ég hætti að vorkenna sjálfum mér þegar ég kynntist svona frábæru fólki sem átti svona ofboðslega erfitt. Ég held ég hafi ómeðvitað farið að hugsa þá um að það væri einhver brotalöm í geðheilbrigðiskerfinu á Íslandi og ég styrktist endanlega í þeirri trú þegar ég kláraði sjúkraliðanámið og fór að vinna á geðdeild í Danmörku. Ég vann á geðdeild á Íslandi á árunum 2002 - 2005 en þá gat ég ekki verið þar lengur; mér fannst svo ofsaleg viðbrigði að koma af geðdeildinni í Danmörku. Munurinn var svo ofboðslega mikill. Mér fannst ég einhvern veginn taka mörg skref aftur á bak. Það er til dæmis ófaglært starfsfólk að vinna á geðdeildum á Íslandi,“ segir Flosi sem var jú einu sinni í þeim sporum sjálfum.
Hann er spurður hvort honum hafi fundist hann eiga eitthvað sameiginlegt með sjúklingunum á geðdeildunum. „Jú, reyndar fór ég að sjá það. Ég vann fyrst á áfengisgeðdeild og svo fór ég að fatta að ég gat sýnt samkennd og talað við fólk og ég skildi það. Ég þekkti það að vera þungur og finnast allt vera tilgangslaust. Og þá átti ég oft auðveldara með að tala við fólk. Maður þarf að opna sig sjálfur til að aðrir opni sig fyrir manni. Það hjálpar alltaf.
Hann segir að árin á mili þrítugs og fertugs hafi verið losaraleg. „Ég skipti oft um vinnu af því að þunglyndi er svo lamandi. Ég gat ekki gert neitt þegar það lagðist yfir mig. Og hvað þá mætt í vinnu. Og ef ég mætti í vinnu þá var ég bara mjög lélegur og ekki hjálpaði til að ég var oft illa haldinn af mígreni; það er annar sjúkdómur sem hefur plagað mig. Þetta var mikil vanlíðan og ég var allavega búinn að læra það að það að drekka var ekkert að hjálpa. Ég var að reyna að halda mér frá því en það gekk misvel.“
Eitt árið þar sem hann lá uppi í rúmi og leið illa gerði Flosi sér ekki grein fyrir því að hávaðinn úti tengdist því að það var gamlarskvöld og að fólk var að sprengja rakettur og flugelda. „Jólin höfðu farið fram hjá mér. Margir halda að þunglyndi sé depurð en depurð er falleg, lýrísk og ljóðræn tilfinning sem ljóðskáld hafa leikið sér með. En þunglyndi er eins og frost í heilanum. Maður getur ekkert gert.“
Flosi hugsaði ekki út í það að vanlíðanin sem hann fann fyrir í mörg ár gæti einmitt verið þunglyndi - þrátt fyrir að sálfræðingur í Danmörku hafði sagt að hann væri þunglyndur. „Ég held að það hafi enn verið dálítið lokað fyrir mér. Ég hélt alltaf að fíknin væri aðalvandamálið. Ég held ég hafi ekki alveg skilið þennan sjúkdóm.“ Hann segist ekki hafa mætt undir áhrifum þegar hann vann á geðdeild eftir að hann fór aftur í neyslu rúmlega þrítugur. „Neyslan var minni framan af. Ég var í sambandi sem mig langaði virkilega til að halda góðu. Hún sá að það var heilmikið vandamál og var alltaf að hvetja mig til að taka á þessu. Ég sagði alltaf að ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera, ég væri búinn að fara til sálfræðings og geðlækna en ekkert lagaðist. Svo endaði það samband. Þá var ég aftur einn og ekki með neitt haldreipi. Það var ljómandi fínt; það var það sem þurfti til. Það var 2009. Þá var ég 41 árs.“
Og það ár lagðist Flosi inn á geðdeild.
Hann er spurður um tilurð þess að hann var lagður inn.
„Samband mitt og konunnar endaði þegar við bjuggum á Húsavík og eiginlega um leið og það endaði þá var ég kominn í miklu meiri neyslu en ég hafði verið að halda aftur af henni. Og á Húsavík var ég strax búinn að verða mér úti um amfetamín og róandi efni og farinn líka að drekka. Þá kom kvíðinn ofsalega sterkt inn og hann varð lamandi. Ég gat ekki farið út. Hendin á mér vildi bara ekkert grípa í húninn. Það var ótrúleg tilfinning hvað kvíði getur verið svakalegur. Ég man eftir að hafa hugsað hvað væri að gerast en þetta tók alveg yfir. Mér hraus hugur við því að fara út í göngutúr. Ég fór einn að sjá Harry Potter þegar ég var á geðdeildinni á Akureyri og ég man hvað ég var ofboðslega kvíðinn að ganga inn í salinn. Kvíði er svo furðulegur; alveg órökrænn. Gjörsamlega. Þegar ljósin slokknuðu í salnum þá var mér svo létt.“
Flosi var á þessum tíma kominn með miklar sjálfsvígshugsanir og farinn að skaða sig en sjálfsvígshugsanir höfðu farið að gera vart við sig eftir að hann flutti til Íslands. „Ég var í svakalegri vanlíðan heima og mundi þá eftir stúlku sem ég var oft að líta eftir á geðdeildinni í Danmörku en við náðum vel saman. Hún endaði á því að taka eigið líf. Ég man að hún hafði skorið sig mjög illa og ég fylgdi henni upp á slysadeild. Ég spurði af hverju hún hefði gert þetta. Hún sagði að þetta linaði svo andlega sársaukann. Ég man að ég velti því fyrir mér hvort þetta gæti verið rétt hjá henni. Og ég ákvað að prófa þetta. Þetta er alveg rétt. Þetta segir eitthvað um það hvað þessi andlegi sársauki getur verið svakalegur,“ segir Flosi og brettir upp aðra ermina og þá sést langt ör á handleggnum. Í dag myndi Flosi aldrei gera þetta. Aldrei. Enda andlega líðanin miklu betri eftir viðeigandi aðstoð.
„Ég skar mig með dúkahníf. Ég hafði legið í sófanum í tvo daga með ekkasog og prófaði þetta.“
Flosi hringdi svo í lækni sem vildi leggja hann inn á geðdeild. Vinur hans kom síðan og sótti hann og ók honum á geðdeildina við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en Flosi lagðist ekki inn en það gerði hann í annarri tilraun. Honum fannst þetta vera niðurlægjandi.
„Ég hugsaði eins og meginþorri þjóðarinnar sem er með fordóma gagnvart geðsjúkdómum; þrátt fyrir að ég taldi mig ekki vera með fordóma þá geta þeir verið svo djúpir. Ég hugsaði með mér hvort ég væri virkilega kominn á þennan stað. Svo liðu tveir til þrír dagar og þá hringdi ég aftur í vin minn. Þetta var ekkert að virka; þetta varð verra og verra. Það er svo mikilvægt að viðurkenna að maður þurfi aðstoð og geri það sem manni er bent á að gera.“
Og vinur Flosa náði í hann og ók honum aftur á geðdeildina á Akureyri.
„Ég lá fyrstu vikuna í fósturstellingu og með ekkasog uppi í rúmi og vildi ekki fara út. Ég var með rosakvíða.“ Og þarna var Flosi í þrjár vikur og fékk viðeigandi aðstoð. „Starfsfólkið var svo frábært og þetta var allt fagmenntað fólk. Ég fór svo suður og hélt áfram í hugrænni atferlismeðferð. Það hjálpaði mikið. Þarna lögðu geðlæknarnir mikla áherslu á að ég yrði að hætta að drekka og að ég næði ella engum árangri. Þarna var ég farinn að sjá að neyslan var bara fylgifiskur; það hefur eitthvað annað verið þarna fyrir. Hún var afleiðing. Ekki orsök.“
Svo hætti Flosi að drekka í nóvember 2009 og hefur ekki drukkið síðan. „Hlutirnir fóru að lagast ótrúlega fljótt. Þarna var ég svo ofsalega meðvitaður um að kvíðinn og þunglyndið var það sem þyrfti að taka á. Hugræna atferlismeðfeðin er bara galdrar. Hún er alveg frábær. Ég vil gefa henni rosalega mikið kredit. Ég var búinn að vera með niðurrifshugsanir í um áratug og það safnaðist alltaf meira kjöt á þær og á endanum voru þær orðnar svo sterkar og stór hluti af hugarfarinu. Og það þurfti að vinda ofan af þessu. Þar finnst mér hugræna atferlismeðferðin, HAM, hjálpa svo svakalega.“
Þess má geta að Flosi hefur um árabil verið gítarleikari hljómsveitarinnar HAM. „Það passar svo vel í tvöföldum skilningi. HAM hjálpar mér svakalega,“ segir hann en tónlistin hefur líka hjálpað mikið í gegnum árin. „Maður er ómögulegur og vonlaus en það er þessi heimspeki á bak við hugrænu atferlismeðferðina: Þú ert með þessa kjarnahugsun sem er ráðandi þannig að manni finnst maður vera einskis virði og vonlaus. Og þá þarf að grípa þessar hugsanir og ráðast á þær með skynsemi. Skynsemin er beittasta sverðið.“
Flosi er enn á þunglyndislyfjum. Hann segist oft hætta á þeim en finnur þá að þau hjálpa mikið.
„Mér líður miklu betur.“
Hann fór í AA-samtökin, ákveðinn í að nýta sér þau. „Mér finnst þau vera frábær. Ég held að 12 spora-spekin passi vel við hugræna atferlismeðferð; að viðurkenna vandann og taka þetta í skrefum. Að ráðast á þessar hugsanir með skynsemi.“
Svo var sjálfstraustið lítið sem ekkert í gegnum árin. „Það var í núlli. Ég held að þetta séu allt samverkandi þættir - föðurmissirinn, misnotkun vímuefna og þunglyndi og kvíði; sérstaklega þunglyndi. Og vera alltaf í svona lausu lofti: Hvað vill ég? Þessar hugsanir urðu íþyngjandi um að ég gæti aldrei klárað neitt, að ég væri einskis virði og heimskur. Það bættist alltaf í sarpinn. Eftir að hafa krufið þessar hugsanir þá finnur maður að þær eiga ekki alveg við rök að styðjast. Einn sálfræðingurinn benti mér á að áður en ég fer að sofa eigi ég að hugsa um hvort ég hafi ekki gert eitthvað jákvætt þann daginn hvort sem ég hringdi í einhvern, brosti til afgreiðslufólks, hrósaði einhverjum eða setti í þvottavélina. Minnstu hlutir geta verið uppbyggjandi.
Eins og fyrir algjöra galdra fór ég allt í einu að geta gert allt sem mig langaði til að gera. Mig langaði að fara aftur í skóla en mér fannst alltaf fúlt að hafa ekki haldið áfram. Ég er ekki einu sinni með stúdentspróf en ég kom mér samt inn í háskólann sem er eiginlega ótrúlegt afrek.“
Hvernig er lífið og líðanin í dag?
„Alveg frábær. Ég á mjög gott líf,“ segir Flosi og nefnir sérstaklega hlaðvarpsþáttinn Drauga fortíðar sem hann segir að njóti sívaxandi vinsælda. Þátturinn á að vera sagnfræðilegs eðlis en þáttastjórarnir tveir, Flosi og Baldur Ragnarsson, eru þar opnir um reynslu sína af þunglyndi og ADHD. „Við höfum alltaf talað mjög opinskátt um þetta og jafnvel grínast með þetta. Við hættum því ekkert í þáttunum. Við tókum eftir því að þetta fór vel í fólk og ég fæ oft skilaboð þar sem fólk þakkar mér fyrir að ræða um reynslu mína. Þetta hefur bústað mitt egó en ég mætti alveg klappa sjálfum mér meira á öxlina.“
Þetta styrkir sjálfsagt sjálfstraust Flosa.
„Já, ég hefði haldið að það ætti að gera það meira en ég er alltaf að draga úr því. Kannski er ég hræddur við að verða montinn og drýgindalegur.“
Hann viðurkennir þó að þunglyndið og niðurrifshugsanirnar hverfi aldrei. „Þær sitja um mann og gefast aldrei upp á að ná aftur yfirhöndinni. Þetta er eins og púkinn á fjósbitanum; ef þú færir púkanum sífellt fóður þá bara stækkar hann. Það er alveg eins með kvíðann. Ef þú gefur kvíðanum þá mun hann koma tvíefldur til baka.“
Flosi þekkir sig í dag. Hann þekkir það þegar þunglyndið læðist aftan að honum nokkrum sinnum á ári. „Þá tek ég á því og færist ekki of mikið í fang. Ég er heppinn þar sem ég er sjálfstætt starfandi og ég passa mig á að taka ekki of mörg námskeið í háskólanum. Þunglyndið hamlar allt. Maður verður bara að taka því. Ég passa mig á að setja markið ekki of hátt. Ég reyni að taka hvern dag fyrir í einu og fyrir mann eins og mig er það alveg nóg.
Sumir eru með marga bolta á lofti. Ég ræð stundum ekki við nema tvo og stundum einn. Það verður bara að hafa það.“
Flosi er spurður hvað hann hafi lært af því að ganga þennan veg þunglyndis og kvíða.
„Ætli það sé ekki fyrst og fremst hvað allar þessar hugsanir geta verið ofsalega raunverulegar og maður er svo sannfærður um að líf manns sé vonlaust. Þetta er oft ekki rétt hvort sem maður kallar þetta djöfla, röskun eða galla. Þetta er eitthvað sem er á ská, skakkt, og sem þarf að rétta af. Það er eins og þú sért að horfa á fallegt landslag í gegnum skítugt gler. Þú þarft bara að þrífa glerið. Og maður þarf að laga sjálfan sig. Rétta sjálfan sig af og fara að skoða sínar hugsanir þegar maður er kominn í lag og meta þetta þá. Það er alltaf von en maður þarf virkilega að vilja þetta og viðurkenna og bara sætta sig við að það er eitthvað til staðar sem er að angra mann og sem þarf að taka á.“
Texti: Svava Jónsdóttir / Myndir: Alda Valentína Rós