9. maí 2016

Heilbrigðisráðherra lækki komugjöld til geðlækna

5. maí 2016

Stjórn Geðhjálpar skorar á heilbrigðisráðherra að lækka komugjöld til geðlækna í fyrirliggjandi frumvarpi um sjúktratryggingar. Ef frumvarpið verður að lögum hækkar meðalkostnaður öryrkja við geðlæknisþjónustu úr um 20.000 kr. í 63.500 kr. eða um 43.000 kr. á ári. Stjórnin lítur svo á að stefna beri að því að íslensk heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls og því eigi ekki að  þyngja byrðar öryrkja og almennings eins og gert sé með frumvarpinu.

Öryrki með geðfötlun leitar að meðaltali sex sinnum til sjálfstætt starfandi geðæknis og nokkrum sinnum til lækna á heilsugæslu og sjúkrahúsum á hverju ári. Nú fær öryrki afsláttarkort eftir að hafa greitt 8.500 kr. eða fyrir ríflega tvö viðtöl hjá geðlækni samkvæmt verðskrá fyrir þjónustu geðlækna við öryrkja og ellilífeyrisþega. Í framhaldi af því greiðir hann svo 1.098 kr. fyrir hvert viðtal upp í sex viðtöl eða samtals um 13.000 kr. á ári. Að viðbættum nokkrum heimsóknum á heilsugæslustöð og sjúkrahús hækkar upphæðin upp í 20.000 kr. á ári.

Ef frumvarp heilbrigðisráðherra verður að lögum greiðir sami öryrki 16.148 kr. fyrir hvert viðtal hjá sjálfstætt starfandi geðlækni og ætti því að greiða samtals 96.888 kr. fyrir sex viðtöl að viðbættum um 5.000 kr. kostnaði vegna heilsugæslu- og sjúkrahúskostnaðar ef ekki kæmi til 63.500 kr. kostnaðarþak öryrkja samkvæmt frumvarpinu. Öryrkinn þyrfti með öðrum orðum að greiða 63.500 kr. fyrir þjónustuna í staðinn fyrir 20.000 kr. eða um 43.000 kr. hærri upphæð en í dag ef frumvarpið verður að lögum. Með hliðsjón af ofangreindu er ljóst að breytingin mun skerða til muna aðgengi öryrkja með geðfötlun að geðlæknaþjónustu. Aðeins lítill hluti þess hóps fer yfir kostnaðarþak öryrkja upp á 63.500 kr. og mun því hagnast á breytingunni.

Breytingin kemur ekki aðeins við öryrkja heldur allan almenning í landinu því að almennt verð fyrir fyrsta viðtal hjá geðlækni hækkar úr 13.696 kr. í 25.690 kr. eða um hátt í 12.000 kr. samkvæmt frumvarpinu. Verð fyrir hefðbundið langt viðtal hækkar úr 9.879 kr. í 16.148 kr. eða um ríflega 6.000 kr. Sú breyting veldur því að nánast ógerlegt verður fyrir lágtekjufólk og barnmargar fjölskyldur að sækja sér þjónustu geðlækna. Greiðsluþak almennings verður 95.200 kr. á ársgrundvelli samkvæmt frumvarpinu.

Geðsjúkdómar eru alvarleg veikindi. Þau skerða lífsgæði einstaklinga og eru dýr fyrir samfélagið, einkum þegar fólk hefur ekki tækifæri til að leita sér viðeigandi hjálpar með þeim afleiðingum að einkenni viðkomandi sjúkdóms aukast. Þess vegna skýtur skökku við að öryrkjum og öllum almenningi sé hamlað að leita sér bata með aðstoð geðlækna eins og raunin verður ef frumvarp heilbrigðisráðherra verður að lögum. Skorað er á hann að bera velferð almennings fyrir brjósti og lækka komugjöld til geðlækna samkvæmt frumvarpinu hið fyrsta.

Frekari upplýsingar veita Hrannar Jónsson, formaður Landssamtakanna Geðhjálpar s. 857 0463, og Anna G. Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna í s. 693 9391.Fleiri fréttatilkynningar

Geðhjálp
Borgartúni 30, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
Fylgstu með
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram