Lögð er áhersla á batamiðað nám tengt geðheilsu og bættum lífsgæðum í Bataskóla Íslands. „Sérstaða Bataskóla Íslands er að hann byggir á batahugmyndafræði og er kjarninn í henni að þeir sem glíma við geðrænar áskoranir eigi að stýra því hvernig þjónustu gagnvart þeim er háttað,“ segir Helga Arnardóttir, verkefnastjóri hjá skólanum.
„Tilurðin að Bataskóla Íslands er að Geðhjálp og velferðarsvið Reykjavíkurborgar ákváðu að fara í samstarf um að opna bataskóla á Íslandi og var árið 2016 farið í vettvangsferð til Bretlands til þess að kynnast þar starfsemi nokkurra bataskóla til að kanna hvaða skóli gæti verið fyrirmyndin að íslenska bataskólanum og varð Nottingham Recovery College fyrir valinu. „Haustið 2017 var haft samband við mig og ég spurð hvort ég vildi koma með í vinnuferð til Nottingham Recovery College og vera með í stofnun skólans og verða hugsanlegur kennari hjá skólanum,“ segir Helga Arnardóttir, verkefnastjóri hjá skólanum sem þá starfaði við fræðslu um geðrækt og jákvæða sálfræði, meðal annars hjá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu.
„Þetta var um 15 manna hópur sem fór þá út og samanstóð meðal annars af fulltrúum frá Geðhjálp, Reykjavíkurborg, Rauða Krossinum og Námsflokkunum ásamt einstaklingum með notendareynslu af geðheilbrigðiskerfinu.“ Hópurinn kynntist í þessari ferð fyrrnefndum skóla betur. „Við lærðum hvernig á að byggja upp svona skóla og fræddumst um leiðir til að semja námskeiðin en ákveðnum reglum er fylgt þegar námskeið eru samin fyrir bataskóla. Þetta er samvinna á milli einstaklinga með reynslu af geðrænum áskorunum og sérfræðinga í efni hvers námskeiðs.“ Fyrstu námskeiðin voru samin sumarið 2017 og kennsla hófst svo um haustið. „Það gekk mjög vel, áhuginn á skólanum var mikill og margir skráðu sig í nám. Við vorum með tvo bekki þannig að kennd voru tvö námskeið í einu og kennt þrjá daga vikunnar eftir hádegi.“
Helga segir að batahugmyndafræði sé mikilvægur hluti af skólanum. „Námskeið tengd geðheilsu og leiðum til að hlúa að geðheilsu eru kennd á fleiri stöðum en sérstaða Bataskóla Íslands er að hann byggir á batahugmyndafræði og er kjarninn í henni að þeir sem glíma við geðrænar áskoranir eigi að stýra því hvernig þjónustu gagnvart þeim er háttað og stýra eigin bataferli í samræmi við eigin vilja og lífsgildi. Batahugmyndafræðin varð í rauninni til þegar notendur tóku sig saman sem voru ósáttir við geðheilbrigðiskerfið og fannst eins og þeim væri þar ekki sýnd mikil virðing sem notendur kerfisins og að vilji þeirra væri ekki virtur þegar kom að því hvernig þeir sáu fyrir sér bataferli sitt.
„Það var eins og þeir sjálfir hefðu lítið um það að segja heldur réði þar frekar forræðishyggja og stjórnsemi af hálfu heilbrigðisstarfsfólks. Þannig að upphaf batahugmyndafræðinnar fólst að miklu leyti í að flytja völdin og valið yfir til notenda kerfisins. Svo birtist batahugmyndafræðin kannski með ólíkum hætti á mismunandi stöðum þannig að batahugmyndafræðin í Bataskóla Íslands er kannski ekki nákvæmlega eins og annars staðar en það er samt þessi kjarni sem er heiðraður þar sem batahugmyndafræði er notuð; það er að notandinn ræður för. Þetta er bataferli hans og hann hefur val um hvað hann vill læra. Í skólanum er fjölbreytt námskeiðsúrval og svo velur hver og einn hvað hentar sér.“
Helga segir að gildi bataskóla víða um heim sé að virða sjálfræði einstaklingsins. „Og gildi þeirra er líka að ala á von. Margir upplifa í geðheilbrigðiskerfinu að það sé svolítið verið að taka vonina frá fólki; það er jafnvel sagt að nú sé viðkomandi með alvarlegan geðsjúkdóm og muni aldrei ná bata. Margir upplifa að þeir hafi fengið neikvæð skilaboð um lífsgæði sín til frambúðar. Þannig að hluti af gildum bataskóla er að ala á von; að það geti allir öðlast betri lífsgæði og hver og einn þarf að skilgreina fyrir sjálfum sér í hverju bati felst fyrir honum.
Bati er ekki endilega að losna við einkenni geðrænna áskorana. Stundum er það ekki hægt og stundum er það ekki einu sinni það sem manneskjan vill. Þannig að bati getur verið að viðkomandi bæti lífsgæði sín út frá því sem skiptir hann máli. Það er þessi von að allir geti unnið í sínum bata; það séu aldrei neinar dyr lokaðar. Og bati getur líka falist í því að batna af geðsjúkdómi; það er alltaf von um það líka, hvaða geðsjúkdómur sem það er. Hver og einn verður að ákveða þetta fyrir sjálfan sig hvert hans markmið er í bataferlinu og hvað hann vill fá út úr því.“
Helga segir að hvað batahugmyndafræðina varðar sé einnig lögð áhersla á að hjálpa fólki að byggja upp sjálfsmynd sem hefur ekkert með sjúkdóminn að gera. „Margir fara svolítið að skilgreina sig út frá áskorununum sem þeir eru greindir með. Það er svolítið verið að vinna með það í skólanum að það eru alls konar hlutir sem einkenna hver við erum og byggja upp sjálfsmyndina; til dæmis áhugamál, lífsgildi og ólík hlutverk í lífinu. Það er verið að hjálpa fólki að sjá sjálft sig í víðara samhengi; að skilgreina sig ekki of mikið út frá einhverri greiningu. Valdefling er líka mikilvæg í batahugmyndafræðinni; að við einblínum á styrkleika einstaklinga. Við erum ekki að einblína mikið á hvað fólk getur ekki gert og hverjar takmarkanir fólks eru heldur að horfa á hvað það getur gert, hvaða styrkleikar eru til staðar, hvað gefur lífinu gildi og hvað skiptir fólk máli.“
Hvað er bati samkvæmt batahugmyndafræði?
Í yfirlitsgrein Leamy og Slade frá 2011, þar sem teknar voru saman 1100 batasögur einstaklinga sem glímt höfðu við geðrænar áskoranir, kom í ljós að þeir mátu eftirfarandi fimm atriði mikilvægust í bataferli sínu. Bataskólinn reynir að ýta undir þessa fimm þætti í starfsemi sinni.
Nokkur grunnnámskeið voru samin í upphafi og síðustu ár hefur námskeiðunum fjölgað og hefur meðal annars verið leitað til nemenda til að athuga hvar áhugi þeirra liggur. „Það er mikið verið að reyna að sækja í notendurna; hvað þeim finnst vera gagnlegt og hvað þeir myndu vilja sjá. Þetta er samstarfsverkefni; Reykjavíkurborg og Geðhjálp eru aðalaðilarnir á bak við skólann en svo var líka samið við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands og Landspítalann um að vera samstarfsaðilar í þessu verkefni, meðal annars með því að útvega sérfræðinga til kennslu.“ Helga segir að námskeiðin skiptist í grófum dráttum í tvo meginflokka. Það eru annars vegar námskeið sem fjalla um mismunandi tegundir af geðrænum áskorunum og hins vegar námskeið sem fjalla á fjölbreyttan hátt um leiðir til að bæta lífsgæði og efla geðheilsuna.
„Við erum til dæmis með námskeið um kvíða, þunglyndi, geðklofa, geðhvörf, geðrof og ADHD. Þetta eru námskeið sem fjalla um ýmsar tegundir af geðrænum áskorunum og fá nemendur fræðslu um einkenni, bjargráð og bataleiðir.“ Hins vegar eru það svo námskeið þar sem áhersla er lögð á að bæta lífsgæðin á ýmsan hátt. „Það er til dæmis námskeið sem kallast „Vellíðan og heilsa“ og er þar fjallað um mismunandi leiðir til að hlúa að geðheilsunni svo sem hreyfingu, svefn og hugleiðslu. Alls konar svona þættir geta haft jákvæð áhrif á geðheilsuna hjá öllum hvort sem fólk er með geðrænar áskoranir eða ekki.
Annað námskeið kallast „Sköpun í listum og lífi“ þar sem áhersla er lögð á sköpunargleðina. Við erum öll skapandi hvort sem við erum í listsköpun eða einhverju öðru. Það er svolítið verið að tengja saman hvernig maður getur notað sköpunargleðina til að efla lífsgæði sín og öðlast innihaldsríkara líf. Eitt námskeiðið kallast „Virkni í samfélaginu og er sérfræðingurinn þar starfsmaður hjá Vinnumálastofnun og jafninginn sem kennir með honum hefur reynslu af því að glíma við mikið þunglyndi og var mjög vanvirkur í lífinu á tímabili en er núna mjög virkur og notaði virkni markvisst í sínu bataferli. Það námskeið fjallar um hvernig við getum aukið virknina og hvernig aukin virkni getur ýtt undir bata.“
Þess má geta að eitt af námskeiðunum í Bataskólanum fjallar um fyrrnefnda batahugmyndafræði og er meðal annars fjallað um sögu hennar, hvernig hún kom til, hvernig hún birtist á mismunandi stöðum og hvernig hún birtist í Bataskólanum. „Fleiri skemmtileg námskeið hjá okkur fjalla meðal annars um húmor og bata, sjálfstraust og samskipti, góðar svefnvenjur, áhrif umhverfis á andlega líðan og um aðferðir til að styðja við nám.“ Covid-heimsfaraldurinn hafði áhrif á margt svo sem að vegna samkomutakmarkana var hefðbundin kennsla lögð niður en í stað hennar tekin upp fjarkennsla. Í ljós kom að slík kennsla hentar fjölda fólks svo sem því sem býr utan höfuðborgarinnar. Ákveðið var að kenna bæði í staðnámi og einnig í fjarnámi núna á haustönn.
„Að lokum langar mig að benda á að það eru ekki svo skýr mörk milli þess hverjir glíma við geðrænar áskoranir og hverjir ekki. Það er misjafnt hvers eðlis áskoranirnar eru en geðheilsan getur reynst okkur öllum erfið á köflum og þess vegna þurfum við öll að hlúa vel að geðheilsunni og finna hvaða leiðir henta okkur best til þess.”
Texti: Svava Jónsdóttir / Myndir: Alda Valentína Rós