19. október 2023

Höldum áfram

Þegar litið er á stöðu í geðheilbrigðismálum er óhætt að segja að þörf sé á uppstokkun og endurskoðun. Til þess þurfum við að staldra við og skoða hvað við erum að gera í dag, hvað virkar vel og hvað ekki. Það þarf ekki að líta langt um öxl til að sjá að aðferðir og meðferðir á fólki sem hefur glímt við geðrænar áskoranir hafa í gegnum tíðina vægt til orða tekið verið ómannúðlegar.

Við höfum gert fjöldann allan af því sem ég kýs að kalla tilraunir á þeim hópi fólks án þess að hugsa út í hvort þær séu skaðlegar eða ekki fyrir einstaklinginn og hvort við séum að brjóta á mannréttindum. Það má jafnvel ganga svo langt að segja að fjöldi fólks hafi verið fórnarlömb geðlækninga, bæði notendur og aðstandendur. Á þeim tíma hafði þessi hópur ekki rödd og lítið var hlustað á reynslu þeirra og upplifun. Því miður getum við ekki breytt fortíðinni í geðlækningum en við getum lært af henni.

Það er óhætt að segja að geðheilbrigðiskerfið sé enn litað af fortíðardraugum, hugarfari sem litast því miður af fordómum og stimplun. Það sem gerist þegar við stimplum fólk þá hættum við að hlusta á það og við hlustum á fyrir fram ákveðnar hugmyndir okkar sem byggjast á fáfræði. Stór hluti af réttindabaráttu fólks sem glímir við geðrænar áskoranir fer í að vinna bug á þessari stimplun og fordómum. Baráttan er hins vegar mikilvæg því um leið og það dregur úr fordómunum fær hópurinn rödd og með því náum við fram jákvæðum breytingum.

Það felur í sér alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið ef geðheilbrigðiskerfið er veikt og það snertir okkur öll. Við þurfum kerfi sem er aðgengilegt, áfallamiðað og stöðugt. Við þurfum að byggja samfélag sem er með sterkar forvarnir og aðgengilega þjónustu sem býður upp á fjölbreyttar leiðir að bættri geðheilsu. Um langt árabil hefur geðheilbrigðiskerfið verið fjársvelt og samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar má ætla að umfang geðheilbrigðismála sé 25% af heilbrigðismálum í heild en fjármagnið aðeins 5%. Þetta bitnar á starfinu og má sjá afleiðingar þess í mikilli starfsmannaveltu, skorti á menntuðu starfsfólki og aðbúnaði fyrir notendur og starfsfólk.

Geðhjálp eru landssamtök þeirra sem láta sig geðheilbrigðismál varða, þar á meðal er stór hluti þeirra notendur og aðstandendur. Það er mikil gjöf fyrir samfélagið að slík samtök séu starfandi því að kunnáttan og hugmyndirnar frá þeim hópi eru gífurlega mikilvægar til að bæta geðheilbrigðiskerfið. Landssamtökin Geðhjálp hafa um árabil barist fyrir breyttri hugmyndafræði í geðheilbrigðiskerfinu. Við viljum draga úr nauðung og þvingun og um leið vinna okkur að nýjum leiðum og nálgunum. Lykilatriði í þeirri baráttu er að raddir notenda og aðstandenda fái að heyrast.

Í baráttunni fyrir bættu samfélagi er mikilvægt að líta til baka og sjá allt sem hefur áunnist. Við eigum hins vegar enn langt í land og mun Geðhjálp halda áfram sinni mikilvægu baráttu við að bæta geðheilbrigðiskerfið og verja mannréttindi þeirra sem búa við geðrænar áskoranir um styttri eða lengri tíma ævi sinnar.

Sigríður Gísladóttir formaður Geðhjálpar

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram