Þú, sem eldinn átt í hjarta,
óhikandi og djarfur gengur
út í myrkrið ægisvarta
eins og hetja og góður drengur.
-Alltaf leggur bjarmann bjarta
af brautryðjandans helgu glóð.
Orð þín loga, allt þitt blóð;
á undan ferðu og treður slóð.
Þeir þurfa ekki um kulda að kvarta,
sem kunna öll sín sólarljóð.
– Davíð Stefánsson
Með fáum orðum viljum við í Landssamtökunum Geðhjálp votta aðstandendum Hrafns Jökulssonar samhygð. Við minnumst einstaks baráttumanns m.a. fyrir bættu geðheilbrigði og umbótum í málaflokknum. Hrafn blés okkur öllum anda í brjóst með djúpu innsæi sínu, skilningi á veruleika þeirra sem búa við raskanir á sinni og einstöku baráttuþreki. Við munum eftir fremsta megni leitast við að halda logum af kyndli hans á lofti um ókomna tíð.
Héðinn Unnsteinsson, formaður