9. október 2021

„Hugvíkkandi efni eins og speglasalur lífs þíns“

Sara María Júlíudóttir, jógakennari og markþjálfi, hóf meðvitað andlega vegferð sína fyrir nokkrum árum. Á þeirri vegferð prófaði hún hugvíkkandi efni í fyrsta sinn og segir þá reynslu hafa fært sér nýjan skilning á sjálfa sig og lífið og í gegnum hugvíkkandi efni hefur hún unnið úr áföllum lífsins. Sara María sér fyrir sér að innan nokkurra ára verði hugvíkkandi efni notuð sem meðferð í geðheilbrigðismálum undir eftirliti og stjórn fagaðila.

Sara María Júlíudóttir

„Ég fann þetta nám, sem nefn­ist „psychedelic therapy train­ing“, námið er fjögurra ára háskólanám í Kólumbíu og þeir sem vilja taka masters-nám í framhaldinu fara í háskóla í Amsterdam. Á hverri önn eru hugvíkkandi „retreat“, það fyrsta í Kólumbíu núna í október. Þar lærum við að vinna með Ayahuasca og höfum val um að drekka það, samtals sjö serímóníur. Ég held að fæstir ætli að sleppa því. Næstu önn læri ég að vinna með ketamín sem er deyfilyf notað á spítölum, magnað hugvíkkandi lyf sem hjálpar fólki að vinna úr áföllum og þunglyndi. Við vinnum með LSD og MDMA (Ecstasy), sem var þerapíulyf áður en það fór á svarta markaðinn,“ segir Sara María, sem mun ferðast til Kólumbíu, Ekvador, Mexíkó og Afríku í náminu. Á lokaönninni verður unnið með Iboga, sem hún segir hættulegasta hugvíkkandi efnið sem til er.

„Við erum að læra á hugvíkkandi efni og að vinna með þau, en aðallega að læra hvernig eigi að vinna með fólk og á hvaða stað fólk er. Sem dæmi þá er kúrs sem heitir  Psychedelic crisis and harm reduction, crisis and aftercare (Sálræn áföll og skaðaminnkun, áföll og eftirmeðferð),“ segir Sara María, sem segir námið samanstanda af fyrirlestrum í hverri viku, miklum lestri og heimavinnu.

Kolféll fyrir háskólanámi um hugvíkkandi efni

Sara María er 41 árs, fædd og uppalin á Akureyri og næstelst sex systkina, á tvær alsystur og fjögur hálfsystkini. Beðin um að lýsa sjálfri sér segist hún hafa hugsað það mikið hver hún er þó hún viti það alveg. „Amma, mér finnst það alltaf það merkilegasta sem ég er,“ segir Sara María og brosir, en hún á þriggja ára ömmustelpu. „Jógakennari, heilari, markþjálfi og núna nemandi. Ég hef alltaf verið þessi lista/artí týpa með allt í óreiðu, aldrei viljað strúktur, alltaf verið út úr kerfinu og að fara í háskóla er eitthvað sem ég hélt ég myndi aldrei vilja eða geta.“

Beðin um að útskýra það nánar segist Sara María hafa staðið sig vel í námi þegar hún hafði áhuga á því sem átti að læra, ef áhuginn var enginn þá var árangurinn að sama skapi enginn. „Ég man ekki hvað ég féll oft í stærðfræði í framhaldsskóla, mér var sama þótt ég félli og þetta skipti mig engu máli. Ég er líka trúlega með bæði lesblindu og talnablindu, þó ég sé ekki greind með það. Mér fannst líka stórfurðulegt að fólk væri að greiða peninga fyrir að fara í háskóla til að fá skírteini frá skóla sem segir þér hver þú ert. Það var enginn að fara að segja mér hver ég var. Svo finn ég þetta nám og kolfell fyrir því og þá skiptir það mig ekki máli þó að það kosti 4-5 milljónir. Og sé að það er eðlilegt þegar fólk hefur ástríðu fyrir einhverju. Enda er maður alltaf að þroskast,“ segir Sara María og hlær. Flestir samnemendur hennar í náminu eru háskólamenntaðir, læknar, sálfræðingar, en Sara María segir að í 40 nemenda hópi séu nokkrir eins og hún, ekki með háskólapróf, en sem skólanum fannst að ættu erindi í námið.

„Í framhaldsskóla kláraði ég allt verklegt sem ég komst yfir, en hætti í öllu bóklegu. Ég þarf bara að sjá hvort það verður vandamál fyrir mig að vera ekki með háskólapróf. Þegar ég sótti um námið vissi ég ekki að það væri masters-nám og ég fékk hálfgert áfall þegar ég var komin inn í það. Lífið plataði mig, ég hefði ekki þorað að sækja um námið hefði ég vitað að þetta væri svona alvöru. Ég held þetta hafi gerst þegar ég hætti að streitast á móti að vilja ekki fara í bóklegt nám.“

Öll reynsla kennir okkur

Þó að Sara María hafi byrjað meðvitað að vinna í sjálfri sér fyrir nokkrum árum þá segist hún átta sig á því í dag að hún hafi verið andleg strax sem barn. „Ég fæddist glaðlynd og léttlynd og mikill léttleiki var yfir orkunni minni. Ég var rosalega handóð sem barn og óttalaus, fór mínar leiðir, klifraði upp á allt og var ekki mikið að spá í reglur. Ég lokaði mig af og las allar bækur sem ég komst í,“ segir Sara María. „Ég var skrýtið barn, en ekki á neikvæðan hátt. Amma mín var með saumastofu á Dalvík og sjö til átta ára gömul byrjaði ég að hanna og sauma hatta úr gömlum gardínuefnum og klæddist þeim svo í skólanum, alveg stórskrýtin. Ég keypti mér disk með hvalasöng sem ég hlustaði á allan sólarhringinn. Ég var sífellt að bjarga ánamöðkum, flugum, kóngulóm. Mér var sagt ungri að ég væri ekki andleg ef ég sæi ekki álfa og árur og þá varð ég svolítið sár út í lífið og var alltaf að reyna að sjá árur. Mér fannst ég ekki vera andleg, en það kom til mín bara núna í ár að andlega vegferðin mín hófst þegar ég var barn.“

Sara María var einnig barn þegar fyrsta áfallið átti sér stað, þó að hún hafi ekki það skilið það þá. Eftir skilnað foreldra hennar var hún misnotuð af föður sínum. „Ég vissi ekki betur en svona væru samskipti feðgina. Þetta var alltaf leyndarmálið okkar,“ segir Sara María og vill ekki gera mikið úr ofbeldinu og kýs að líta frekar til þess hvað þessi erfiða reynsla kenndi henni. „Ég trúi að sálin okkar fái þann lærdóm sem hún þolir. Ég sé alla sem koma til mín sem kennara. Við erum öll hér sem kennarar að kenna hvert öðru. Hvernig get ég breytt þessari reynslu í kennslu og lært af henni? Það sem ég fékk frá pabba er hatur, skömm, viðbjóður og reiði. Að geta upplifað þessar tilfinningar og skilið þær og geta í skilningnum uppgötvað hvað hann gaf mér mikinn skilning á mennskunni. Ég vil læra djúpt, skilja djúpt og heyra djúpt í fólki og ég væri ekki með þennan djúpa skilning hefði ég ekki fengið þessa reynslu. Ég hef fengið skilning á mínar upplifanir í gegnum hugvíkkandi efni. Að skilja dýpra í mennskunni,“ segir Sara María. „Í hugleiðslu er ég búin að hitta pabba, taka utan um hann og segjast elska hann og fyrirgefa honum. Maður er alltaf að halda áfram að vaxa og læra. Ég trúi að allir sem lenda í einhverju hafi eiginleika til að sjá hlutina í öðru ljósi og sjá kennsluna í atvikinu. En það getur enginn sagt viðkomandi að gera það og það getur enginn stjórnað því nema hann sjálfur. Maður er fastur sem fórnarlamb þar til maður er tilbúinn að hætta að vera það.“

Börnin gjafir frá guði

Sara María varð ung móðir og eru börnin í dag 21 og 23 ára. Segist hún hafa alið börnin ómeðvitað upp á andlegan hátt og í tengingu við náttúruna. „Ég var svo þakklát þegar ég komst að því að ég var ólétt 17 ára, þakkaði guði fyrir. Sonur minn fæddist glaður, hann grét aldrei, fékk aldrei í eyrun eða magann og ég fór með hann með mér hvert sem var í heimsóknir, útilegur og annað. Ég notaði taubleyjur og var mikið með hann í Kjarnaskógi úti í náttúrunni og án þess að vita það í tengingu við það andlega. Mér finnst ég hafa svindlað aðeins á uppeldishlutverkinu af því þetta var svo lítið mál,“ segir Sara María og hlær. Dóttirin fæddist tveimur árum seinna og bera þau bæði nöfn sem vísa til að þau eru gjöf til móðurinnar.

„Hann heitir Natan, Natheos sem þýðir gjöf guðs, og hún Dórótea, sem þýðir guð hefur gefið. Ég álít þau gjafir mínar frá guði og ég upplifði mig sem kennara og þau nemendur mína. Sjálf hafði ég upplifað svona yfirvaldstilfinninguna að foreldrar eigi börnin, þannig að það skipti mig máli að þau myndu ekki upplifa að ég ætti þau eða réði yfir þeim. Sonur minn vildi til dæmis ekki læra heima og ég sagði við hann að daginn eftir hitti hann kennarann sinn en ekki ég, þannig að ég gaf þeim valdið strax. Þau eru ótrúlega fullkomin, heilbrigð, þægileg og glöð. Sem kennarinn þurfti ég að skila nemendunum mínum sem best frá mér,“ segir Sara María sem varð einstæð móðir þegar börnin voru eins og þriggja ára og flutti hún þá til Reykjavíkur með þau.

„Ég á yndislegan barnsföður og við höfum alltaf verið góðir vinir, hann besti pabbi í heimi. Hann var mikið með þau um helgar, enda vann ég mikið,“ segir Sara María sem á þessum tíma var í mörgum störfum í einu og segist hún alin upp við að vinna mikið og vera dugleg. „Ég er líka í tvíburamerkinu, hann þarf að vera með mörg járn í eldinum, svo er ég með margar meyjur í kortunum. Þannig að ég er mjög dugleg og framtakssöm og elska að græja og gera. Áður var ég mjög góður starfskraftur fyrir aðra, núna er ég að vinna og læra fyrir sjálfa mig.“

Margir tengja Söru Maríu við Nakta apann sem hún stofnaði 2005, lista- og hönnunarstúdíó og verslun sem var neðst á Laugavegi. Þar hannaði og seldi Sara María eigin hönnun, silkiprent. „Nakti apinn átti að vera svona ævintýraveröld, listastúdíó og staður fyrir mig og fleiri til að skapa, en búðin varð ótrúlega vinsæl. Það er í raun magnað að rifja þetta tímabil upp,“ segir Sara María. Með vinsældum kom líka peningaleg pressa. „Það var alltaf peningaleg pressa, leigan var há, ég átti ekki fyrir leigunni og svo kom upp að bókhaldarinn var ekki traustsins verður. Ég hef sagt að þetta hafi verið eins og að prjóna vettlinga og reyna að lifa af því. Ég var allt í öllu: skapa, afgreiða, vera með bókhaldið, svo fór þetta bara á hausinn á endanum. En þetta var ótrúlega magnað tímabil sem kenndi mér mikið; hvað það er erfitt tilfinningalega og fyrir sálina að verða gjaldþrota, þetta er eins og að missa ástvin, að missa sjálfið sitt. Svo veltist ég í langan tíma hjá Umboðsmanni skuldara.“

Sara María Júlíudóttir

U-beygja eftir árás

Árið 2015 varð Sara María fyrir öðru áfalli, sem varð til að hún endurhugsaði allt líf sitt. „Ég varð fyrir líkamsárás og þurfti hreinlega það atvik til að vekja mig: „Heyrðu, Sara, hvað ætlar þú að gera við líf þitt?“ Ég var skapandi en barðist alltaf í bökkum af því ég var ekki í réttu lífsflæði,“ segir Sara María sem tók algera U-beygju í lífi sínu. „Ég tók út gamla lífsstílinn, tók út sykur, hveiti, áfengi og fréttamiðla og það varð líka klofningur í vinahópnum. Ég fór að læra heilun og byrjaði að taka lífsstílinn í gegn með Herbalife. Síðan kynntist ég í gegnum Herbalife fólki sem var að flytja til Barcelona á Spáni og bauð mér að flytja með. Og ég sló til án umhugsunar enda ekkert sem hélt í mig hér á Íslandi og gott að komast aðeins í burtu,“ segir Sara María, sem byrjaði að vinna sem heilsuráðgjafi fyrir Herbalife í Barcelona. Þar kynntist hún spænskum húðflúrara og varð fljótlega ófrísk, Sara María var mjög lasin á meðgöngunni og á 17. viku lenti hún inni á spítala.

„Þegar ég gekk með dóttur mína þá urðu læknamistök við fæðinguna, læknir sem framkvæmdi útskafið gerði það svo harkalega að hann skar legið á mér alveg niður í vöðva þannig að það óx saman. Síðar missti ég tvisvar fóstur gengin nokkrar vikur, þar sem leghálsinn hjá mér er svo illa farinn. Þarna var ég hins vegar langt gengin með heilbrigt barn og ég lá á sjúkrahúsi í viku meðan læknar voru að reyna að finna út úr hvernig hægt væri að halda meðgöngunni áfram. Ég var hins vegar búin að missa það mikið legvatn að mér voru settir úrslitakostir og ég varð að fæða barnið,“ segir Sara María, sem segist ekki geta ímyndað sér sársauka mæðra sem þurfa að fæða barn sitt í sömu aðstæðum gengnar fulla meðgöngu. „Að þurfa að fæða heilbrigt barnið mitt til að það deyi er það versta sem ég hef lent í. Ég var komin með þær hugsanir að svipta mig lífi frekar en þurfa að fæða son minn. Ég komst lifandi í gegnum mesta viðbjóð sem ég hef upplifað.“

Sara María og kærastinn komu til Íslands til að jarða barnið og segir hún að ekki hafi staðið til að flytja heim aftur. Hún hafi hins vegar fundið að hún þurfti á fjölskyldu sinni að halda og ákvað að vera um kyrrt. „Hann varð mjög þunglyndur og ekki gekk vel hjá okkur, þannig að við hættum saman. Ég fór þá á fullt að vinna í sjálfri mér, vann sporavinnu, fór í Al-Anon, til sálfræðings og að æfa í Mjölni. Ég byrjaði líka að hanna aftur. Árið 2016 fékk ég mjög slæmt brjósklos og var orðin það slæm að ég var komin á biðlista eftir aðgerð og bið eftir örorku. Þá fór ég að fara í sjósund og kæla og að notast við hugleiðslu Joe Dispensa, sem lamaðist eftir hjólaslys og hugleiddi sig til heilsu aftur. Þetta snýst um að sjá veruleikann, trúin flytur fjöll. Eftir tvo til þrjá mánuði var ég orðin læknuð og þá lokaði ég vinnustofunni minni.“

Hugvíkkandi efni opnuðu nýjan heim

Sara María segir að þá hafi hún gengið í gegnum raunveruleikakrísu. „Ég var búin að missa allt, hver er ég? Í svona tvær vikur leið mér eins og ég væri í frjálsu falli og ekkert að grípa mig,“ segir Sara María sem byrjaði jógakennaranám hjá vinkonu sinni, Ágústu Kolbrúnu. „Ég hafði engan áhuga á að fara í jógakennarann en ég vissi að ég væri að fara í gegnum hálfsárs heilunarferli og fengi jógakennaraskírteinið í kaupbæti. Ég varð hins vegar dolfallin af jógavegferðinni og jógastílnum, ég hafði ekki gert mér grein fyrir hvað heimspekin væri rosalega djúp,“ segir Sara María, sem 2017 ferðaðist ein til þorpsins San Marcos í Gvatemala í Suður-Ameríku. „Ég fór með það hugarfar að ég ætlaði að prófa allt og segja já við öllu. Þar prófaði ég hugvíkkandi efni í fyrsta sinn. Ég var búin að kynnast fólki sem var að microdósa, en ég hef alltaf verið mjög á móti fíkniefnum og neyslu. Í Gvatemala opnaðist þessi heimur fyrir mér: hvað hægt er að heila og skilja djúpt, og skilja sjálfan sig, lífið og tilvistina á hátt sem ég gat ekki ímyndað mér áður,“ segir Sara María sem segir ferðina hafa breytt sér algjörlega og hún komið heim sem ný manneskja, uppfull af auðmýkt, þakklæti og skilningi sem hún hafði ekki áður. „Að finna það djúpt í hverri frumu hvað við höfum það gott hér á landi, við búum í alvöru á paradís á jörð. Ég var fórnarlamb, hafði lent í áföllum, en breyttist í að vera þakklát fyrir fjölskylduna mína, börnin mín, hreint vatn. Þrátt fyrir fátækt og hvað allt var frumstætt er fólkið í Gvatemala glaðasta fólk sem ég hef hitt. Hér heima erum við öll að hugsa um hverju við eigum rétt á, en ekki hvað við sjálf gerum til að bæta samfélagið. Hver og einn mætti hugsa um að fókusa á hvernig honum getur liðið betur, ekki hvernig allt í kringum hann sé ekki nógu gott.“

Fordómar og forvitni leyfileg

Aðspurð um hvað hún myndi segja við þá sem hafa fordóma gagnvart hugvíkkandi efnum segir Sara María: „Ég myndi segja að viðkomandi megi bara hafa þá. Ef þú hefur áhuga gúglaðu, skoðaðu, lestu. Ég get sent þér efni til að lesa en ég er ekki að fara að sannfæra neinn. Þú verður að finna innra með þér að þú ert tilbúinn í þetta. Ef þú ert tilbúinn þá þarftu að fara í ferli: af hverju viltu prófa hugvíkkandi efni, hvað viltu finna, ertu bara forvitinn, við hverju máttu búast? Þú mátt búast við að veröld þín hrynji eða snúist við, þú mátt búast við engu, sumir eru bara svo fastir í hausnum á sér að þetta virkar ekki. Fólk hefur upplifað að ekkert gerist, svo kemur í ljós að viðkomandi hefur beðið lengi eftir að lífið fari að gerast,“ segir Sara María. „Það sem gerist í þessu ferli er að þú mætir sjálfum þér, þetta er eins og speglasalur lífsins og þú ferð að ganga nakinn um speglasal lífsins og færð að sjá þig. Allar hrukkurnar og bólurnar, allt sem þú ert. Og það er erfitt fyrir fólk sem er búið að vera að forðast að sjá sig, þekkja sjálft sig. Þú vilt þekkja hverja frumu í þér, það er best fyrir þig, þá ertu rólegastur og öruggastur, en flest okkar gera það ekki. Allir skuggarnir inni í þér, kjallaraherbergið sem þú ert búinn að læsa og múra yfir, það er þarna og fer ekki neitt. Notkun hugvíkkandi efna er leið fyrir þig til að opna og hreinsa út. Allir draugarnir í kjallaranum, æ, þetta eru bara þrjár mýs og þær mega hlaupa út,“ segir Sara og brosir.

Johari-glugginn

Sara tekur dæmi úr náminu sem heitir Johari window, eða Johari-glugginn, þar sem viðkomandi vinnur með sína fjóra glugga. „Fyrsti er „The known“ það sem þú og allir aðrir vita um þig. Annar er það sem þú veist ekki en aðrir vita: „Sara er svona, Sara bregst alltaf svona við, Sara er svo viðkvæm“, skuggarnir sem enginn þorir að segja beint við þig, en allir vita hvernig þú ert. Þriðji glugginn er það sem þú veist en aðrir vita ekki: kenndirnar þínar þar með talið kynferðislegar, hugsanir sem þú skammast þín fyrir, leyndarmálin sem þú ætlar að taka með þér í gröfina. Fjórði glugginn er „unknown“ það sem enginn veit og það sem við viljum gera er að minnka hann þannig að hann verði minnstur. Áhrifaríkasta leiðin til að komast í þennan kjallara sem „unknown“ er og hitta skuggana þína eru hugvíkkandi efni. Hjá mörgum einstaklingum er „unknown“ stór hluti og í náminu erum við að læra að minnka þann hluta þannig að skuggarnir í lífinu minnki og ljósið í lífinu verði meira, þannig að við verðum meira hamingjusöm og frjáls. Fækka því sem viðkomandi er að fela, skammast sín fyrir, þorir ekki að segja frá.“

Sara María Júlíudóttir

Hugvíkkandi meðferð á við margra ára sálfræðimeðferð

Sara María segir að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær hugvíkkandi efni komi upp á yfirborðið og verði notuð sem lögleg og viðurkennd meðferð í geðheilbrigðismálum. „Hugvíkkandi efni eru bylting í geðheilbrigðismálum en það skiptir máli að standa vel að meðferð og gera þetta vel. Ég hef upplifað það sjálf á mér og öðrum að hugvíkkandi efni gjörbreyta lífi fólks. Þetta er ekki töfrapilla en breytir öllu samt, hvernig þú sérð sjálfan þig, lífið, hvernig þú upplifir hlutina. Ein svona meðferð er eins og 10-15 ára sálfræðimeðferð.“

Sara María sat nýlega fund með Lyfjastofnun þar sem farið var yfir möguleika á leyfi til að vinna með hugvíkkandi efni hér heima, sem meðferðarúrræði sem unnin yrði í samráði við lækna og sálfræðinga, en það er ekki hægt nema að tengjast samtökum og rannsóknum erlendis. „Núna er ég tengd í gegnum skólann við MAPS-samtökin í Bandaríkjunum, sem eru komin með MDMA-meðferð sem er samþykkt af lyfjaeftirlitinu þar og rannsóknir sýna fram á að 67% af ómeðhöndluðum sjúklingum með PTSD (áfallastreituröskun) eru einkennalausir eftir þrjár MDMA-meðferðir. Þannig að það er svakalegur árangur þegar unnið er með þessi efni undir eftirliti. Allir stærstu háskólar í Bandaríkjunum eru komnir með deild sem rannsakar hugvíkkandi efni og þegar er komin fjöldi rannsókna sem sýna fram á árangur þeirra,“ segir Sara María. En hvernig sér hún framtíðina fyrir sér?

„Þegar ég útskrifast eftir fjögur til fimm ár þá mun ég geta unnið við þessa meðferð hér heima og þá getur einstaklingur farið til sálfræðings sem metur hvort svona þerapía henti best fyrir hann. Ég trúi því að helmingur sálfræðinga muni stíga inn á þessa braut með tímanum. Rannsóknir sýna að eitt ferðalag með hugvíkkandi efnum er á við 10-15 ára sálfræðimeðferðir. Það velur enginn sálfræðingur árafjöldann fram yfir. En það þarf að gera þetta vel og vandlega. Aðgát skal höfð í nærveru sálar,“ segir Sara María sem segist hafa íhugað að fara í frekara nám samhliða núverandi námi til að flýta fyrir því að hugvíkkandi efni verði að meðferðarúrræði hér heima. „Rick Doblin, stofnandi Maps, er að kenna mér og ég var að hugsa um að fara í Maps-námið líka. Hann hefur sagt að ef ég og fleiri, sálfræðingar og aðrir, klárum það nám þá væri hægt að vinna með þeirra prógramm hér heima, ef leyfi fæst hjá Lyfjastofnun. Það er það sem mig langar að láta gerast en þá þarf ég 10-20 sálfræðinga og lækna með mér. Þetta er í vinnslu og hvort sem það er eftir ár eða tvö til fjögur ár þá mun það gerast hraðar en við gerum okkur grein fyrir,“ segir Sara María og segir meðferðirnar ólíkar eftir efnum.

„Stundum áttu í innra samtali, önnur eru betri sem samtalsmeðferð með meðferðaraðila. Ímyndaðu þér geymslu fulla af öllum djöflunum sem þér finnst hræðilegastir í heiminum og ímyndaðu þér að ég leiði þig og við göngum saman inn í geymsluna eitt skref í einu. Ég held í höndina á þér, við kveikjum ljósið, horfum í kringum okkur og hreinsum til. Hleypum skuggunum út og ljósinu inn.“

Texti: Ragna Gestsdóttir
Myndir: Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Förðun: Björg Alfreðsdóttir

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram