Gott samfélag gengur ekki á möguleika komandi kynslóða með gjörnýtingu á auðlindum jarðar, gott samfélag grefur ekki undan framtíðinni með því að mismuna möguleikum og menntun barna, gott samfélag er hannað þannig að hver og einn upplifir fjölbreytni þess í öllu skipulagi, gott samfélag á auðvelt með að taka á móti fólki og gera því kleift að taka þátt, gott samfélag skiptir auðlindum sínum og tækifærum jafnt á milli íbúa, gott samfélag gerir öllum kleift að gefa til samfélagsins með þátttöku á öllum sviðum, gott samfélag gerir ráð fyrir að fólk sé ólíkt hvað varðar aldur, getu og heilsu en gerir ráð fyrir þátttöku allra, gott samfélag gerir ráð fyrir að því að allir muni þurfa á stuðningi þess að halda og veitir þennan stuðning, gott samfélag hefur gott og víðtækt net sjálfboðaliða í æskulýðsstarfi, skólum, samfélagsþjónustu og víðar og gott samfélag er SAMfélag þar sem fólk á félagsskap við hvert annað, þar sem hópar eru ekki jaðarsettir, þaggaðir eða útilokaðir á neinn hátt, þar sem auðurinn liggur í fjölbreytninni og styrkurinn þar með.
Gott samfélag er eins og góð fjölskylda. Það hugar að þörfum okkar, reynir að koma okkur til þroska, hjálpar okkur að virkja hæfileika okkar heildinni til hagsbóta og styður okkur þegar við getum ekki hjálpað okkur sjálf. Það samþykkir hvert okkar eins og við erum, virðir sjónarmið okkar, kennir okkur að takast á við bresti okkar og nýta styrkleikana. Það gerir ekki upp á milli okkar, er sífellt reiðubúið að taka við nýju fólki og nýjum hugmyndum, það er opið og nærandi og það veit að það getur aðeins eflst og styrkst með opnum faðmi og örlátu hjarta.
Íslenskt samfélag er í sjálfu sér gott en það hafa það ekki allir gott. Það er mikil slagsíða á þjónustu í geðheilbrigðismálum og augljós skortur á skýrri samfélagsstefnu. Það á ekki að koma okkur sem samfélagi á óvart að við séum alls konar og ólík, með misjafnar þarfir og áskoranir. Það er eðlilegt. Gott samfélag á að vera gott fyrir alla því það er það sem við sem samfélag viljum. Allir eiga að hafa rödd og rétt á skilningi og stuðningi þegar þeir þurfa.
Ég vil búa í samfélagi sem tekur betur utan um fólk sem þarf að leita sér aðstoðar vegna geðrænna sjúkdóma en við erum ennþá skammarlega langt á eftir öðrum þjóðum í þeim málum. Ungt fólk ætti að eiga greiðari leið til lækna og sálfræðinga og geta fengið nauðsynlegar meðferðir, greiningar og lyf með auðveldari hætti og á styttri tíma en nú er. Það eru of margir sem eiga um sárt að binda en fá litla sem enga aðstoð eða ungt fólk sem fær ekki greiningar eða lyf sem síðan hamlar því í námi og starfi með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið og óhamingju. Sérstaklega held ég að við ættum að gera betur í geðhjálp í fangelsum. Það er ekki lausn að loka veikt fólk inni í búri og ef við hjálpum ekki unga fólkinu þá munu mörg þeirra leiðast út í neyslu og glæpi og enda í fjársveltu fangelsiskerfinu. Þetta er sár og ónauðsynlegur vítahringur og allt of dýr fyrir litla þjóð sem þarf á öllu góðu fólki að halda í atvinnulífi og samfélagi. Talandi um að þurfa gott fólk þá er merki um gott samfélag hvernig það tekur á móti flóttafólki og innflytjendum; þar er okkar samfélag og kerfi ekki að eiga gott mót yfir það heila. Það er fullt af flottu fólki sem vill koma til landsins og taka þátt í samfélaginu og krydda það með sínum bakgrunni, reynslu og menningu. Við eigum að vera opin fyrir því og ekki hræðast það; ég vil ekki skammast mín aftur fyrir að vera Íslendingur fyrir hvernig við komum fram við þetta fólk eins og ég því miður hef gert allt of oft hingað til.
Undirstaða góðs samfélags er sameiginlegur skilningur á grunngildum þess. Eitt slíkt gildi er að virðing sé borin fyrir hverjum og einum, þannig eigi hvert okkar að geta notið sín og fundið hamingju. Gott samfélag tryggir að allir njóti sömu tækifæra óháð félagslegri stöðu viðkomandi vegna þeirrar virðingar sem er í heiðri höfð. Annað farsælt gildi er traust. Gott samfélag felur í sér samheldni og samvinnu en grundvöllur þess er traust. Þessi gildi stuðla að heilbrigðara og réttlátara samfélagi.
Lykillinn að góðu samfélagi er samkennd, umburðarlyndi og gagnkvæm virðing. Í góðu samfélagi fær fjölbreytt mannlíf að dafna sem byggir á góðum og opnum samskiptum.