28. október 2023

Hvað segir tölfræðin?

Í apríl sl. hélt Geðhjálp í samstarfi við samtökin International Peer Support ráðstefnuna „Þörf fyrir samfélagsbreytingar – nýjar leiðir í geðheilbrigðismálum“. Meðal fyrirlesara var fræðimaðurinn James Davies sem hefur skrifað bækur og ótal greina um samfélagslegar hliðar geðheilbrigðiskerfisins. Davies er m.a. höf­und­ur bók­anna Cracked: Why psychia­try is do­ing more harm than good og Seda­ted: How modern capital­ism crea­ted our mental cris­is, og þar heldur hann því m.a. fram að allt of mik­il áhersla sé lögð á lyfja­notk­un en síður sé leitað að rót vand­ans. Í viðtali við Morgunblaðið þann 7. maí 2023 hafði Davies þetta að segja í tengslum við lyfjanotkun Íslendinga:

„Íslend­ing­ar eiga met í notk­un geðlyfja á heimsvísu miðað við höfðatölu. Sam­fé­lags­hugs­un­in hér, sem er hent­ug fyr­ir lyfja­fyr­ir­tæk­in, er þannig að hægt sé að leysa vanda fólks með pillu. Þetta er ein­falt; það er eitt­hvað að þér í höfðinu og ef þú tek­ur pillu sem lag­fær­ir það sem er að í höfðinu, hverf­ur vand­inn. […] Fé­lags­leg­ur og sál­rænn stuðning­ur er ekki veitt­ur hér nema að litlu marki. Því þarf að breyta.“

Landssamtökin Geðhjálp hafa á undanförnum árum bent á einhæfa og lyfjamiðaða nálgun þegar kemur að geðheilbrigðiskerfinu. Í stað þess að meðhöndla einkenni og nær undantekningalaust með lyfjum þá eigi að vinna með rót vandans og með fjölbreyttari aðferðum en þeim lyfjamiðuðu. „Hvað kom fyrir þig?“ er lykilspurningin sem ætti að vera leiðarljósið þegar kemur að meðferð við geðrænum áskorunum í stað þess að spyrja: „Hvað er að þér?“

Tölfræði

Þegar tölfræði er skoðuð yfir notkun geðlyfja á Íslandi yfir 10 ára tímabil, í aldurshópunum 6 til 17 ára annars vegar og 18 til 44 ára hins vegar, koma áhugaverðar og margt sláandi niðurstöður í ljós. Þær ríma við það sem James Davies sagði um geðlyfjanotkun Íslendinga.

Tölurnar eru fengnar í lyfjagagnagrunni landlæknisembættisins og sýna fjölda einstaklinga með skráðar lyfjaafgreiðslur á hverja 1.000 íbúa. Þegar hlutfalli er breytt í fjölda einstaklinga er notast við upplýsingar um mannfjölda sem tekin var saman af Hagstofunni og er miðað við 1. desember 2022.

Þunglyndislyfjanotkun

Árið 2013 tóku 4% einstaklinga á aldrinum 6 til 17 ára þunglyndislyf (sjá mynd 1). Árið 2022 var hlutfallið komið í 6,8% sem þýðir 69% aukning á tímabilinu. Aukningin var mest hjá drengjum eða 106% en aukningin hjá stúlkum var 62%. Samtals notuðu 3.880 börn á þessum aldri þunglyndislyf árið 2022.

Samanburður við Norðurlöndin byggir á árinu 2021 og tekur til aldurshópsins 0 til 14 ára en gagnagrunnur Norrænu ráðherranefndarinnar notast við annan aldur en gagnagrunnur embættis landlæknis. Þegar gögn ráðherranefndarinnar eru skoðuð að þá sker Ísland sig algjörlega úr og er munurinn í raun sláandi. Í aldurshópnum 0 til 14 ára notuðu 3,5% þunglyndislyf árið 2021 á Íslandi. Í Færeyjum var hlutfallið 0,1%, í Danmörku 0,19%, 0,14% í Noregi og 0,73% í Svíþjóð. Þunglyndislyfjanotkun í þessum aldurshópi var þannig rúmlega 18 sinnum meiri á Íslandi en í Danmörku og 25 sinnum meiri en í Noregi. 

Árið 2013 var hlutfall þeirra sem notaði þunglyndislyf í aldurshópnum 18 til 44 ára 11,8% (sjá mynd 2). Árið 2022 var hlutfallið komið í 16,9% og notuðu 22,9% kvenna þunglyndislyf í þessum aldurshópi eða samtals 15.958 konur. Aukningin var heilt yfir 43% en meðal kvenna tæp 51%.

Aftur þarf að notast við önnur aldursviðmið á ártal þegar bera skal saman lyfjanotkun á Norðurlöndunum. Á aldursbilinu 15 til 24 ára er hlutfall þeirra sem notuðu þunglyndislyf á Íslandi 16,2% og 17,4% í aldurshópnum 25 til 44 ára. Í Færeyjum er hlutfallið 3,2% í yngri hópnum og 6,6% í þeim eldri. Í Danmörku 4% í þeim yngri og 7,3% í þeim eldri. Hlutfallið er 3,9% og 7,1% í Noregi en í Svíþjóð 7,8% og 11,4%. Ísland virðist skera sig úr hér eins og annars staðar.

ADHD-lyf

Árið 2013 notuðu 6% barna á aldrinum 6 til 17 ára ADHD lyf. 8,6% drengja notuðu þessi lyf en 3,6% stúlkna (sjá mynd 3). Árið 2022 var hlutfall þeirra sem tóku ADHD lyf komið í 11,9%. Aukningin á þessum tíma var því alls 97%, mest hjá stúlkum eða 163% og 72% hjá drengjum. Árið 2022 tóku 6.750 börn á Íslandi á aldrinum 6 til 17 ára ADHD lyf.

Tölur frá Norrænu ráðherranefndinni yfir ADHD lyfjanotkun voru ekki réttar hvað Ísland snerti og hafa því verið fjarlægðar úr gagnagrunninum. Gögnin voru rétt hvað önnur lönd snertir og kom þar fram að árið 2021 notuðu 3% barna á aldrinum 10 til 14 ára ADHD lyf í Danmörku, 5,1% í Svíþjóð, 3,4% í Noregi og 3,8% í Finnlandi. Það má ætla að hlutfall þeirra sem taka ADHD lyf á Íslandi sé hærra í aldurshópnum 10 til 14 ára en í 6 til 9 ára hópnum en sé heildartalan 11,9% (6 til 17 ára) notuð þá er notkunin tvisvar til þrisvar sinnum meiri á Íslandi en í áðurnefndum löndum. Aftur verður að taka tölunum með nokkrum fyrirvara þar sem gögnin eru ekki lengur aðgengileg.

Þegar aldurshópurinn 18 til 44 ára er skoðaður kemur í ljós að árið 2013 notuðu alls 2,5% ADHD lyf (sjá mynd 4). Árið 2022 var þetta hlutfall komið í 7,5% og var aukningin 180%. Aukningin var mest hjá konum eða 226% en aukning hjá körlum var 141% á þessu 10 ára tímabili. Alls tóku 4.877 einstaklingar ADHD lyf í þessum aldurshópi.

Svefn- og róandi lyf

Árið 2013 tóku alls 1,6% svefn- og/eða róandi lyf í aldurshópnum 6 til 17 ára (sjá mynd 5). Árið 2022 var þetta hlutfall komið í 6,5% og var aukningin 305%. Mest var aukningin meðal stúlkna eða 427% en 268% hjá drengjum. Alls tóku því 3.687 börn á aldrinum 6 til 17 ára svefn- og/eða róandi lyf á Íslandi árið 2022.

Samantekt og aðrar leiðir

Það er alveg ljóst að geðlyfjanotkun barna og ungs fólks á Íslandi hefur aukist mikið á því 10 ára tímabili sem hér var skoðað. Það er einnig ljóst að Ísland sker sig úr þegar geðlyfjanotkun í þessum aldurshópum er borin saman á Norðurlöndunum. Við skulum samt hafa það í huga að geðlyf hafa reynst mörgum vel, bætt þeirra lífsgæði og fjölskyldna þeirra og jafnvel bjargað mannslífum. Vandinn er hins vegar sá að það er ekki boðið upp á aðrar leiðir í geðheilbrigðiskerfinu.

Hvers vegna er ekki lögð meiri áhersla á fyrstu tvö árin í lífi barna í stað þess að þrýsta foreldrum út á vinnumarkaðinn sem fyrst?

Hvers vegna er ekki lögð meiri áhersla að stytta það tímabil sem fólk vegna efnahagslegrar stöðu sinnar þarf að vista börn á leikskólum?

Hvers vegna er skólakerfinu ekki breytt þannig að það aðlagist þeirri staðreynd að yfir 20% barna vegni betur í minni einingum, í styttri lotum, við myndrænt uppbrot stundatöflu, í einföldu skipulagi, við meiri útiveru, við meiri hreyfingu, þegar meiri áhersla er lögð á listrænar greinar o.s.frv.?

Hvers vegna er ekki meiri áhersla lögð á geðrækt á öllum stigum skólakerfisins?

Hvers vegna er ekki lögð meiri áhersla á gagnreyndar samtalsmeðferðir og hvers vegna eru þær ekki niðurgreiddar af ríkinu?

Hvers vegna er geðheilbrigðiskerfið fast í lyfjahugmyndafræði í stað fjölbreyttari lausna eins og opið samtal (open dialogue), samfélagsgeðþjónustu, jafningjanálgun þar sem nauðung og þvingun heyrir til undantekninga?

Hvers vegna spyrjum við ekki hvað kom fyrir þig í stað þess að spyrja stöðugt hvað er að þér?

Hvers vegna eru geðdeildir í jafn úr sér gengnu húsnæði og raun ber vitni sem bæði bitnar á notendum þjónustunnar og starfsfólki?

Hvers vegna eru geðheilbrigðismál jafn aftarlega í forgangsröðinni og raun ber vitni?

Af hverju er ekki stöðugt að störfum hópur notenda, sérfræðinga og aðstandenda við það að leita leiða til að bæta geðheilbrigðismál á Íslandi?

Að lokum

Þó Ísland vermi toppsætið á heimsvísu í geðlyfjanotkun þá er þróunin um allan heim á þá vegu að geðlyfjanotkun er að aukast. James Davies hefur í bókum sínum reynt að varpa ljósi á ástæður þess að þetta hefur þróast með þeim hætti sem raun ber vitni. Í bókinni Sedated sem kom út árið 2021 tengir Davies þróunina í geðlyfjanotkun og þá hugmyndafræði sem beitt er við meðferð geðrænna áskoranna við nýfrjálshyggju sem ruddi sér til rúms snemma á 9. áratugnum. Hann bendir á að við upphaf 8. áratugarins hafi geðrænar áskoranir í DMS greiningarhandbókinni verið 106 en í dag séu þær rétt um 400. Hann bendir einnig á að árið 1988 hafi 2% fullorðinna Bandaríkjamanna tekið geðlyf af einhverjum toga en árið 2017 hafi sú tala verið komin í 12,7%. Sömu sögu er að segja frá fjölmörgum ríkjum sem tilheyra hinum vestræna heimi.

Davies bendir jafnframt á í bókum sínum og fyrirlestrum að samfélagsgerðin hafi á þessum tíma horfið frá samkennd í átt að meiri einstaklingshyggju. Hann segir að einstaklingar, sem passi ekki í fyrirfram gerð mót samfélagsins, verði að breyta sér til þess að geta þrifist. Þrýstingurinn kemur úr öllum áttum. Stöðugt fjölgi í þeim hópi sem ekki finnur sig innan rammans og er mikil áhersla lögð á að greina vandann út frá einkennum fremur en orsökum. Þessi nálgun sé bein afurð einfaldra og skjótra lausna sem drifin er áfram af því markaðshagkerfi sem við búum við. Geðlyfjaiðnaðurinn í heiminum veltir í kringum 100 þúsund milljörðum á ári og  það er ekki í hans þágu að fólk leiti annarra leiða eða að greiningarviðmiðum í DSM handbókinni fækki. Þvert á móti er það hagur iðnaðarins að fleiri og fleiri taki lyf og haldist sem lengst á þeim og að fleiri séu haldin einhvers konar röskun sem þau þurfi aðstoð við að lifa með.

Í viðtalinu við Morgunblaðið sagði Davies þetta:

Við þurf­um nýja sýn, því eins mikið og þinn sárs­auki get­ur verið erfiður, þá er það ekki endi­lega vegna þess að þú ert veik mann­eskja. Kannski er sárs­auk­inn þinn leið til að segja þér að það er eitt­hvað að þínum lífs­stíl. Það get­ur verið of­beld­is­sam­band sem þú ert í, of mik­il vera á sam­fé­lags­miðlum, vinn­an þín eða fé­lags­leg mis­mun­un. Við þurf­um að kenna fólki að gera breyt­ing­ar á lífi sínu. Lausn­in er ekki þung­lynd­is­lyf held­ur frek­ar að setj­ast niður með fag­manni og kom­ast að rót vand­ans.

Við höfum öll geð og við göngum öll í gegnum geðræna erfiðleika á lífsleiðinni sem við þurfum aðstoð við að komast í gegnum. Sumir þessara erfiðleika geta verið flóknir og kalla á aðkomu fagfólks. Aðrir eru þess eðlis að samkennd, vinátta og tengsl koma okkur í gegnum þá. Þannig hefur það verið frá örófi alda og verður svo lengi sem við lifum sem manneskjur á þessari jörð. Það er eðlilegur gangur lífsins. Stöldrum því aðeins við núna og veltum því fyrir okkur hvort við séum farin að sjúkdómsgera tilfinningar og láta markaðsdrifna hugmyndafræði ákveða lausnina fyrir okkur.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram