18. október 2022

Hvernig ræktar þú geðheilsuna?

Egill Friðleifsson fyrrverandi kórstjóri

Grunnurinn að farsælu lífi er góð heilsa. „Hver er sinnar gæfusmiður“ og víst er að hver og einn getur haft mikið um eigið heilsufar að segja með breytni sinni. Að temja sér hollan og heilbrigðan lífsstíl er lykilatriði. Sjálfur hef ég tröllatrú á útivist og hreyfingu og stunda hvoru tveggja daglega og finnst það allra meina bót. Það skilar sér í betri andlegri og líkamlegri heilsu.

Sagt er að besta ráðið við vægu þunglyndi sé góður göngutúr og ekkert finnst mér betra til að hrista burt depurð og drunga. Hæfileg líkamleg áreynsla skilar sér í auknum styrk og vellíðan. Líkamlega þreyta hefur margvísleg jákvæð áhrif, þú hvílist betur, sefur betur, borðar betur og líður betur. Að temja sér jákvætt hugarfar og þakklæti fyrir það góða sem lífið færir manni er gott ráð til allra sem vilja hlúa að andlegri heilsu sinni.

Höfum í huga það sem Stepan G. Stephansson sagði forðum:

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað
Vinur aftansólar sértu
Sonur morgunsroðans vertu

Karl Ágúst Úlfsson, leikari, leikstjóri og leikritahöfundur

Með því að hlæja. Ég veit að það er hlægilega einfalt svar, svo ég skal orða það aðeins nákvæmar: Með því að hlæja að sjálfum mér. Það er langt síðan ég áttaði mig á því hversu ófullkominn ég er og margt hefur hent mig í lífinu sem mér hefur reynst snúið að sætta mig við. Allt hefur það þó orðið léttbærara við það eitt að sjá á því spaugilegu hliðina.

Ef ég stend frammi fyrir erfiðu verkefni og finn að kvíðinn er kominn upp að bakinu á mér og er í þann veginn að hremma mig, getur það nægt mér að horfa framan í kvíðann og sjá hvað hann er í raun og veru hlægilegur. Og hvað það er fyndið að ég skuli óttast þetta verkefni.

Hvað er það versta sem getur gerst? Jú, að mér mistakist. Og eru mistök það versta og alvarlegasta í lífinu. Ekkert endilega. Mistök geta einmitt verið meinfyndin. Og það er full ástæða til að hlæja að þessum náunga – það er að segja sjálfum mér – sem ætlaði að láta óttann við mistök eyðileggja fyrir sér þetta spennandi verkefni. Vegna þess að mistök eru til þess að læra af og eitt af því sem maður lærir er hvað mistök manns sjálfs geta verið óheyrilega fyndin. 

Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi

Náttúran hefur alltaf verið mín helsta sáluhjálp. Að vera úti við, fylgjast með gróðri, fuglum, veðurfari og hinum mögnuðu kröftum, fegurð og friði sem alls staðar blasir við. Hreyfing er mér einnig mjög mikilvæg og því er snilld að sameina þetta tvennt.

Samvera með dýrum er mér einnig alveg nauðsynleg, það er orðið verulega slæmt ástand ef ærslagangur í hundinum eða kisa að stela mat uppi á borði geta ekki kallað fram bros. Eins finnst mér mikið atriði að reyna að njóta hversdagsins, fá mér kaffi, hlusta á tónlist eða góða bók og leitast við að gera gott úr hlutunum.

Bára Huld Beck blaðamaður

„Ég viðurkenni að í amstri dagsins þá situr geðræktin á hakanum. En ég hef komist að því að það er algjörlega nauðsynlegt að huga að andlegri heilsu – ekki síður en hinni líkamlegu. Það sem hefur reynst mér best er að hugsa um sál og líkama sem eina heild. Þannig að þegar ég hugsa vel um líkamann þá hefur það góð áhrif á andlegu heilsuna og öfugt.

Það sem ég geri er að ég fer út að ganga á hverjum degi þótt ekki sé nema í nokkrar mínútur. Ég reyni að hjóla í vinnuna þegar ég get og fara í sund þegar ég hef tíma. Heiti potturinn gerir kraftaverk fyrir mig. Varðandi andlegu hliðina þá finnst mér algjörlega nauðsynlegt að hvíla mig á samfélagsmiðlum og kommentakerfum inn á milli. Þá hringi ég frekar í vinkonu til að spjalla, les góða bók eða set Jeff Buckley á fóninn.

Einvera er mér líka nauðsynleg inn á milli. Ég verð að gefa mér tíma til að vera ein því það hleður batteríin meira en margt annað. Þá get ég notið þess enn betur að vera með fólkinu mínu en það er auðvitað það sem skiptir mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft.

Sölvi Geir Ottesen, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og aðstoðarþjálfari meistaraflokks Víkings í knattspyrnu

Það eru nokkur atriði sem bæta geðheilsu mína og er ég vel vakandi fyrir mikilvægi þess að sinna þeim atriðum. Í gegnum tíðina hefur mér þótt hreyfing mikilvægust. Ég hef það sem markmið að hreyfa mig alla daga, þó að það sé ekki nema að fara í stuttan göngutúr. Þar á eftir er svefn mjög mikilvægur þáttur í að viðhalda geðheilsunni. Ég kynnti mér nálgun Dr. Matthew Walker og eftir það hef ég lagt mikla áherslu á svefn og mikilvægi góðs svefns.

Jákvætt hugarfar kemur mér einnig langt og hjálpar mér að takast á við erfiðar hugsanir og margt annað sem lífið býður upp á. Samverustundir með fólkinu mínu, börnum, konu og vinum hefur frábær áhrif á geðheilsu mína. Þessum samverustundum fylgir yfirleitt hlátur sem ég finn að hefur góð áhrif á geðheilsu mína.

Sigurveig Víðis Jóhannsson

Þegar stórt er spurt … ja, hvernig kemst ég í gegnum daginn með reisn og get sátt sagst hafa fundið þetta jafnvægi sem er mikilvægt bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Verkefni við hæfi skipta miklu máli bæði við leik eða störf. Að takast á við verkefni sem eru áskorun eru gefandi þegar upp er staðið. Að vísu koma alltaf dagar þegar allt virðist hafa farið úr skorðum, nýjar áskoranir og óundirbúnar. Þá er forgangsröðin skoðuð og spurt hvað það er sem skiptir máli. Samskipti við samferðafólk mitt í lífinu gefur mér orku í amstri dagsins en þar verður maður einnig að finna jafnvægi og tíma fyrir sjálfan sig.

Göngur í íslenskri náttúru eru ómótstæðilegar sem og golfíþróttin sem er stöðug áskorun þrátt fyrir litlar framfarir en þar fara saman útivist og félagsskapurinn. En það er fátt sem toppar huggulegheit heima við. Góð tónlist, matseld og samvera með fjölskyldu og vinum. Þá er ég sátt við sjálfa mig og þakklát fyrir hvað lífið er gott. Þá er ég tilbúin til að takast á við nýjan dag.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0516-26-2648 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram