10. október 2021

Hvernig ræktar þú geðheilsuna?

Eliza Reid forsetafrú

„Ég reyni alltaf að sjá það jákvæða hverju sinni, reyni að nýta mína sálarkrafta í það sem ég get stjórnað, ekki það sem ég get ekki haft áhrif á. Auðvitað er þetta oft hægara sagt en gert en þegar ég leggst til hvílu á kvöldin reyni ég að hugsa um það sem gerðist þann daginn og vakti gleði mína, fyllti mig þakklæti. Svo hugsa ég um það sem ég hlakka til næsta dag. Þetta veldur því að ég er yfirleitt í góðu skapi þegar ég festi svefn. Að sjálfsögðu geta áhyggjur og kvíði sótt á hugann. Kannski finnst mér ég hafa of mikið á prjónunum, kannski óttast ég að eitthvað komi fyrir mig eða fjölskylduna, eða að við séum ráðalaus andspænis loftslagsvá samtímans. En þá minni ég mig á að mér munu örugglega finnast horfurnar bjartari að morgni – og sú er yfirleitt raunin! Í mínum huga snýst góð geðheilsa því mikið til um eigin hugsanir, eigið viðmót. Og svo skiptir það mig miklu máli að geta farið í góðan göngutúr, anda að mér fersku lofti og hreinsa hugann.“

Erna Kristín Stefánsdóttir, Ernuland

Guðfræðingur og talsmaður jákvæðrar líkamsímyndar

„Það sem ég geri til þess að rækta geðheilsu er margt. Ég þarf að hafa fjölbreytta möguleika en ég tengi það við ADHD, það er mismunandi hverju sinni hvað virkar. Það sem hefur virkað best hingað til er útivera og hreyfing. Ég elska náttúruna, ég fer í göngu og þá helst án tónlistar. Ég elska að hlusta bara á umhverfishljóðin og anda inn fersku lofti eða leyfa rigningunni að slá andlitið. Það er eins og koffínsprauta beint í æð. Einnig hef ég ræktað geðheilsuna með góðum hitting og spjalli við fólkið mitt. Það gerir alltaf mikið að vera í tengslum og það hjálpar mér að sitja og spjalla yfir góðum kaffibolla um allt eða ekkert. Stundum er síðan það eina sem ég þarf að leyfa mér að hvíla mig. Leyfa mér að hanga án samviskubits, það er trúlega það erfiðasta en oft það nauðsynlegasta. Ég elska einnig að teikna, skapa og búa til eitthvað sem matar dópamínið. Þetta er ekki tæmandi listi en svona það helsta sem ég geri til þess að rækta geðheilsuna.“

Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður

„Ég er í sífelldri baráttu við sjálfan mig um að verða ekki eins og ég var. Ég komst að því fljótlega þegar ég fór að geta hreyft mig almennilega að hreyfing og rútína, sem leiðir að betri almennri heilsu, er grunnurinn minn að góðri geðheilsu. Ég spila badminton fjórum sinnum í viku og lyfti þrisvar í viku á móti því. Það heldur mér virkum í betra mataræði og þegar að mér líður betur með sjálfan mig, og það sem að ég er að gera, líður mér yfirhöfuð bara betur.“

Guðni Már Henningsson

Rithöfundur og fyrrum útvarpsmaður, búsettur á Tenerife

„Svona spurningu hef ég aldrei þurft að svara. Og þar af leiðandi hef ég ekki velt henni svo mikið fyrir mér. En þessi spurning leitaði á mig. Ég eins og svo margir aðrir hef fengið heimsókn frá svörtum hundum eins og farið er að kalla þunglyndið. Og þeir hafa svo sannarlega gelt að mér. Það sem ég geri þá er að nýta mér tónlistina, spila eitthvað fallegt með svo miklum styrk að gelt kvikyndanna heyrist ekki. Smám saman lækka ég í tónlistinni því þá fögru list þola hinir svörtu rakkar ekki til lengdar. En hvort að ég rækta geðheilsuna veit ég ekki. Oft er ég einn hérna úti og það getur tekið á. Þá leita ég uppi félaga mína sem búa hérna ásamt því að hringja í þá sem mér þykir vænt um. Og stundum græt ég. En tónlistin er margra meina bót og hún er minn besti vinur. Stundum hylja skýin himininn og þá er gott til þess að hugsa að sólin skín á þau að ofan. Og eins og alltaf, í þúsundir ára og lengur, munu þau leysast upp og hverfa.“

Steingerður Axelsdóttir ellilífeyrisþegi

„Ég er ellilífeyrisþegi og bý ein. Það er mér lífsnauðsynlegt að fara út á hverjum degi og hitta fólk. Annars sit ég ein með hugsunum mínum sem geta verið erfiðar. Þá fyllist ég einmanakennd, verð framtakslaus og á það til að einangra mig. Ég er svo heppin að hafa fundið stað sem tekur á móti mér eins og ég er. Þar ríkir hlýja, kærleikur og skilningur. Fólk sem stundar staðinn er alls konar og er að jafna sig eftir margs konar veikindi, atvinnumissi eða áföll. Fólk styður hvort annað, slær á létta strengi, tekur jafnvel í spil, með hlátrasköllum og slær í borð. Ég fæ að koma hvenær sem mér sýnist og stunda listsköpun með frábærri leiðsögn og hvatningu. Ég nýt þess að sjá aðra dilla sér í zumba þótt ég geti ekki verið með. Ég mæti oftast í myndlistartíma og syng svo með félögum mínum þar sem hver raddar með sínu nefi. Svona rækta ég mitt geð, finnst ég blómstra og lít björtum augum á komandi daga. Börnin mín segja að geðslagið mitt hafi breyst til muna eftir að ég fór að stunda staðinn.“

Guðrún Árný Karlsdóttir tónlistarkona og kennari

„Ég rækta geðheilsuna með því að vera dugleg að heyra í vinum mínum. Ég er dugleg að fara í heita tíma í ræktinni, þá fæ ég góða útrás og svo er það alveg ómetanlegt að fara í heita pottinn minn á kvöldin með manninum mínum og stundum börnunum og eiga þar spjallstund og slökun. Ég reyni að vera alltaf með vatn í brúsa, þannig þorna ég ekki upp, því ég syng mikið og það reynir á. Ef ég passa að drekka vel, fæ ég síður hausverk og verð minna þreytt.“

Gunnar Hallsson ellilífeyrisþegi

„Fyrir utan að hafa geðorðin 10 í huga þá legg ég áherslu á að passa svefninn, hreyfa mig og borða hollt. En ekki síst að umgangast skemmtilegt fólk. Við hjónin höfum notið þess að ferðast, sem gefur okkur báðum mikið.
Þar sem skammdegið er mér erfitt þá nota ég sérstakt ljós sem líkir eftir sólarljósinu. Læt það vekja mig á morgnana og það hefur jákvæð áhrif á melatonin og léttir mér glímuna. Einnig hefur það gert mér gott að fara á hverju ári í nokkrar vikur til suðrænni landa í svartasta skammdeginu. Heima fyrir hef ég komið mér upp ákveðinni rútínu sem hjálpar. Fer alltaf á fætur klukkan sjö og byrja daginn í sundlauginni. Syndi smásprett og spjalla svo við skemmtilegt fólk í heita pottinum. Þar með er ég yfirleitt tilbúinn inn í daginn. Eftir að ég settist í „helgan stein“ er það mér mikilvægt að sinna áhugamálum og fjölskyldunni.“

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram