22. desember 2021

Jólakveðja og jólalokun Geðhjálpar 2021

Við óskum þér og þínum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári með innilegri þökk fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða. Skrifstofa Geðhjálpar verður lokuð frá 23. desember til 2. janúars en við höldum ótrauð áfram í okkar starfi og hér eru nokkur verkefni sem við munum halda áfram með á nýju ári.

Okkar heimur

Okkar heimur er verkefni sem býður upp á stuðning og fræðslu fyrir börn foreldra með geðrænan vanda. Verkefnið er að breskri fyrirmynd (Our time) og hefur Geðhjálp unnið að innleiðingu þess sl. ár.

Geðlestin

Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla sem byggir á þeirri staðreynd að öll erum við með geð, rétt eins og við erum með hjarta.

G-vítamín

Um er að ræða geðræktandi dagatal á þorranum sem Geðhjálp stendur fyrir. Markmiðið er að styrkja geðheilsu landsmanna og þannig verja okkur og styrkja í mótbyr. Með daglegri inntöku G-vítamíns myndum við sterkara ónæmi, því þessi einföldu ráð eru verndandi þættir geðheilsu.

39.is

Geðhjálp stóð fyrir undirskriftasöfnun árið 2020 á 39.is þar sem skorað var á stjórnvöld að setja geðheilbrigðismál í forgang aðgerða. Undirskriftirnar voru afhentar stjórnvöldum ásamt þeim 9 aðgerðum sem samtökin leggja áherslu á til að koma geðheilsu í forgang.

Styrktarsjóður geðheilbrigðis

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum í geðheilbrigðismálum með því að veita styrki til verkefna sem geta bætt geðheilbrigði landsmanna og skilning á málaflokknum. Í október sl. var úthlutað í fyrsta skipti úr Styrktarsjóði geðheilbrigðis, en 15 verkefni hlutu alls 10 m.kr. styrk úr sjóðnum.

Frá því að heimsfaraldurinn braust út höfum við þurft að laga okkur að breyttum tímum, meðal annars með því að gera ráðgjöf Geðhjálpar aðgengilega með aðstoð tækninnar. Ráðgjafar og starfsmenn Geðhjálpar sinntu yfir 1.100 erindum á þessu ári.

Hafðu það sem best yfir hátíðarnar og kærar þakkir fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.

Geðhjálp
Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík
Opið mán - fim: 9 - 15 og  fös: 9 - 12
Styrktarreikningur: 0357-22-2095 | kt: 531180-0469
Geðhjálp 2009 - 2020 Allur réttur áskilinn
Gamli vefur Geðhjálpar
linkedin facebook pinterest youtube rss twitter instagram facebook-blank rss-blank linkedin-blank pinterest youtube twitter instagram