Við viljum þakka öllum okkar styrktaraðilum hjartanlega fyrir allan þann stuðning sem þeir hafa veitt starfi okkar á árinu 2022. Ykkar framlag er samtökunum afar mikilvægt og við, stjórn og starfsfólk, mjög meðvituð hvernig við beitum og förum með það afl sem styrktarfélagar samtakanna veita okkur.
Við heitum því að gera okkar allra besta á næsta ári til að halda áfram að gæta hagsmuna notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og aðstandenda þeirra, tala fyrir framförum í málaflokknum og stuðla að bættri geðheilsu allra landsmanna.
Geðhjálp hefur enn sem fyrr staðið að geðræktandi verkefnum og mun að sjálfsögðu halda því áfram á nýju ári. Hér er að finna yfirlit yfir það helsta sem stendur upp úr nú þegar árið er að líða:
Geðhjálp bauð 30 skammta af G vítamíni á þorranum; lítil og létt ráð sem er ætlað að bæta geðheilsu en dagatal með þessum 30 skömmtum var selt og fór allur ágóði af sölu þess í Styrktarsjóð geðheilbrigðis.
Geðhjálp flutti starfsemi sína í Guðrúnartún 1, 105 Reykjavík. Opnunartímar eru þeir sömu og enn sem fyrr er hægt að hafa samband í síma 570 1700 og á netfanginu gedhjalp@gedhjalp.is.
Í Geðhjálparblaðinu var vakin athygli á þeirri staðreynd að geðheilbrigðiskerfið sé vanfjármagnað en fjárframlög til málaflokksins eru tæplega 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála.
Önnur úthlutun úr Styrktarsjóðs geðheilbrigðis fór fram í október en alls bárust 30 umsóknir til sjóðsins í ár samtals að upphæð 79.5 m.kr. en sjóðurinn hafði yfir að ráða 14 m.kr. til þessarar úthlutunar.
Geðlestin lauk ferðalagi sínu um landið með heimsókn í Flóaskóla þann 29. nóvember en það var 174. heimsókn Geðlestarinnar í grunn- og framhaldsskóla. Ferðalag Geðlestarinnar hófst 1. nóvember 2021 en á rétt rúmu ári heimsótti Geðlestin 133 grunnskóla og 30 framhaldsskóla víðsvegar um landið.
Geðhjálp hefur staðið fyrir fræðsludagskrá um geðheilbrigðismál en í vetur en í haust hefur verið fjallað um TMS, nýja meðferð við meðferðarþráu þunglyndi, meðvirkni og áföll, EMDR og listmeðferð. Næsta erindi um samskipti foreldra og barna fer fram þann 17. janúar nk.
Geðhjálp hefur auk þess sinnt daglegri starfsemi sem snýr að hagsmunagæslu og ráðgjöf og undirbýr þessa dagana verkefni næsta árs en við munum bjóða upp á dagleg hollráð fyrir þorrann til þess að bæta geðheilsu. Skrifstofa Geðhjálpar verður lokuð frá 23. desember til 2. janúars en strax í byrjun janúar mun hefjast sala á sérstökum G vítamín dropum sem eru notaðir samhliða daglegri geðrækt.
Kærar þakkir fyrir stuðninginn og gleðilega hátíð,
stjórn og starfsfólk Geðhjálpar